Ég bara varð ég að prófa hvernig útkoman væri ef ég myndi blanda tveimur elskhugum í lífi mínum saman – ís (ó, hve mikið ég elska ís!) og sykurpúðum. Ég er svo ánægð með útkomuna og mér finnst hún líka svo falleg!

Þannig að ef ykkur vantar skemmtilegan og öðruvísi eftirrétt þá mæli ég með þessum sjeik. Algjör unaður og eina vandamálið er hvað hann er fljótur að hverfa ofan í mann. Þessi rör sko, það er ekki hægt að treysta þeim!

Stórkostlegur sykurpúða- og kaffisjeik

Hráefni:

3 bollar súkkulaðiís
1 1/2 bolli kaffi
1/4 bolli súkkulaðisósa
1/4 bolli Marshmallow Fluff (sykurpúðakrem)
2 hafrakex, mulin
nokkrir litlir sykurpúðar

Leiðbeiningar:

Þessi uppskrift dugir í tvö frekar stór glös og fjögur lítil. Hellið súkkulaðisósunni í skál og dýfið glösunum ofan í á hvolfi þannig að sósan hylji efsta part glasanna. Rúllið glasabrúnunum upp úr hafrakexmulningnum og hjálpið honum aðeins að festast við súkkulaðisósuna. Setjið glösin til hliðar. Blandið ís, kaffi og Marshmallow Fluff saman í blandara í nokkrar mínútur. Hellið blöndunni varlega í glösin og skreytið með nokkrum, litlum sykurpúðum.