Met Gala-kvöldið stórfræga hefur verið haldið allt frá árinu 1948 til styrktar búninga og tískudeild Metropolitan safnsins í New York.

Í ljósi kórónuveirunnar hafa þó aðstandendur hátíðarinnar neyðst til að aflýsa henni þetta árið, en um er að ræða stærsta og virtasta viðburð innan tískuheimsins þar sem flestar af þekktustu stjörnum heims mæta í sínu fínasta pússi. Þykir einnig venjulegt að stjörnurnar taki meiri áhættu í vali á fatnaði sínum og hugsi út fyrir rammann.

Þó víða sé fjallað um þennan árlega viðbrögð eru annars vegar ekki allar stjörnur ánægðar með þessa hefð, bransafólki og skipuleggjendum til mikillar mæðu. Í gegnum árin hafa ýmsar stórstjörnur tjáð skoðanir sínar um Met Gala-kvöldið og hefur það leitt til þess að sumar þeirra hafa rakleiðis farið á svarta listann.

Kíkjum á nokkur eldhress ummæli frá þeim sem þorðu að láta í sér heyra.

Leikkonan Tina Fey er á meðal þeirra sem ætlar aldrei framar að sækja viðburðinn. Fey sagði í viðtali við David Letterman árið 2015 að kvöldið hennar á Met Gala hafi verið óbærilegt.

„Í gullfallegu rými mætir þú öllum hálfvitum bransans sem klæðast þarna einhverjum heimskulegum hlutum. Þetta er allt fólkið sem þig langar til að kýla, sem ég myndi eflaust gera ef ég hefði milljón hendur,“ sagði Fey.

„Við erum klædd eins og andskotans aular“

Gamanleikkonan Amy Schumer lét þau umdeildu orð falla í spjalli við Howard Stern árið 2016, en þar lýsti hún Met Gala kvöldinu sem eintómum farsa.

„Þetta var algjör pynting. Þarna finnur þú hóp af fólki sem þykist eiga almennileg samtöl, ég kann ekki við þennan farsa,“ sagði Schumer.

„Við erum klædd eins og andskotans aular, en ég hef engan áhuga á tísku. Mér er sama. Ég lét mig hverfa fyrr en leyfilegt var.

Ég hitti að vísu Beyoncé og hún spurði mig:
„Er þetta skiptið þar sem þú mætir á Met Gala hátíðina?“ og þá svaraði ég:

„Mitt síðasta.“

Langaði að hella sig fulla

Söngkonan Demi Lovato segir viðburðinn einkennast af óþægilegum klíkuskap. „Mér leið svo óþægilega þarna að mig langaði til að hella í mig áfengi,“ sagði Lovato í viðtali við Billboard og bætir við: „Það ríkir þarna tilgerðin hjá fólki sem sýgur spenann á tískuiðnaðinum.“

Zayn Malik söngvari tekur undir orð Lovato og segist frekar vilja sitja í heimahúsum og gera eitthvað af viti heldur en að klæðast rándýrum fatnaði og láta mynda sig á rauðum dregli. Telur hann þetta vera hégóma á hæsta stigi.
„Þetta er bara ekki ég,“ segir Malik í viðtali við GQ frá árinu 2016. „Að standa þarna og segja „Líttu á mig, ég er frábær!“ á rauða dreglinum.“

Stóð ekki við orð sín

Það kom fjölmörgum á óvart þegar stórleikkonan og athafnakonan Gwyneth Paltrow spókaði sig á rauða dregli Met Gala hátíðarinnar í fyrra. Paltrow hafði áður gefið upp í viðtali við USA Today að hún ætlaði aldrei að láta sjá sig þar framar. Þetta var árið 2013 og lýsti hún upplifun sinni sem miður skemmtilega, þó hún hafi fram að þessu ári verið tíður gestur. „Það er sjóðandi heitt þarna, of þröngt, það er stöðugt verið að ýta okkur og mér fannst þetta óþægilegt,“ sagði Paltrow. „Ég mun aldrei fara þangað aftur.“

Þessi orð dugðu þó ekki til að setja Gwyneth endanlega á bannlistann og mætti hún aftur á Met Gala-hátíðina nokkrum árum síðar.

Ó, Gwyneth.