Hinn 24 ára gamli Arnaud Jerald sló á dögunum heimsmetið í fríköfun, en hann kafaði 112 metra undir yfirborð sjávar án alls búnaðar, á lungnafylli einvörðungu. Slær þetta út met höfuðkeppinautar hans, hins rússneska Alexey Molchanov, sem var 111 metrar.

Jerald uppgötvaði fríköfun ungur að aldri með pabba sínum í Marseilles, Frakklandi. „16 ára gamall átti ég í miklum erfiðleikum í skólanum,” segir Jerald, sem þurfti meðal annars að glíma við lesblindu og mikla feimni.

„Þegar ég prófaði í fyrsta sinn að kafa fór ég ofan í djúpið og opnaði augun og sá ekkert nema blámann. Þarna fann ég fyrir einhverri speglun og vissi strax að þetta væri ég að fara að gera það sem eftir væri ævinnar.”

Fríköfun gerði Jerald kleift að þróa með sér sjálfstraustið til að takast á við lesblindu sína. „Til þess að fara í þessar dýptir þarftu að vera öruggur með sjálfan þig,” segir hann. „Þú þarft að vita hvað þú ert að gera þarna á botninum af því þú getur ekki stoppað neðst.”

Þegar hann kafar segir Jerald að hann einbeiti sér meira að tilfinningunni sem köfunin gefur honum frekar en heimsmetunum sem hann er að reyna að slá. „Allt í kringum þig er blátt,“ segir hann. „Þú sérð ekki muninn á yfirborðinu og botninum. Það er margt sem hægt er að upplifa á jörðinni en þetta er algjörlega einstakt. Stundum er þetta eins og draumur og stundum eins og martröð.“