Nathaniel „Coyote“ Peterson (eða ‘The King of Sting’ eins og hann er gjarnan þekktur) setti YouTube-rás sína, Brave Wilderness, fyrst í loftið árið 2014. Þar má finna býsnin öll af náttúrulífsþáttum þar sem Peterson er kynnirinn, og hefur hann getið sér gott orð fyrir fagmannlega framsetningu, frábæra nærveru á skjánum og takmarkalausa virðingu fyrir lífríkinu sem hann fjallar um.

Rásin hefur heldur betur tekist á loft síðan Covid-19 tímabilið hófst, en tvær milljónir manns hafa bæst við áhorfendahópinn síðan í mars síðastliðnum. Færir það fjöldann upp í 17 og hálfa milljón, og er Brave Wilderness þar með 234ða stærsta YouTube rásin af 31 milljón rása alls.

Frægastur er Peterson fyrir bálk myndskeiða þar sem hann er stunginn af öllum þeim skordýrum sem toppa Schmidt-sársaukaskalann, en sá var fyrst búinn til af skordýrafræðingnum Justin Schmidt árið 1983 í þeim tilgangi að skjalfesta hvaða tegundir skordýraríkisins bæri einna helst að varast. (Peterson gerði árið 2017 þátt þar sem hann spjallar við þennan læriföður sinn um skalann, og má finna hann hér.)

Formúlan í stunguþáttum Petersons er tiltölulega einföld — bakgrunnurinn er yfirleitt frumskógur, tónlistin er hlaðin spennu, og í aðdragandanum að stungunni fer Peterson yfir alls kyns áhugaverðar staðreyndir um skordýrið sem um ræðir hverju sinni. Svo koma gjarnan nærmyndir af svitaperlum á enni hans og spennan skrúfuð upp í hámark áður en stungan gerist svo loksins, yfirleitt með afar dramatískum afleiðingum.

Þó þetta kunni að hljóma eins og eintómur hryllingur þá er þetta í raun hin besta skemmtun, og því má helst þakka persónulegum sjarma Petersons, sem er einlægur, vel máli farinn, og nær á einhvern undraverðan hátt að flakka sífellt á milli hörku og hógværðar án þess að fara nokkurn tímann yfir strikið í hvora átt. Til dæmis er hann gjarn á að horfa beint í myndavélina með augnaráði sem segir, „Af hverju er ég aftur að þessu?“

Peterson batt enda á þessa seríu hér um árið með þætti þar sem hann var bitinn af risamargfætlunni scolopendra heros (sjá mynd), en eitur hennar getur valdið ógleði og vefjadrepi, og til eru dæmi um að nýrnabilun og hjartaáföll hljótist af bitinu.

Var Peterson á því að margfætlan væri það alversta sem hann hefði lent í, og því væri lítill tilgangur í að halda stunguseríunni áfram þar sem toppnum væri náð. Nýverið sendi kappinn þó frá sér tilkynningu þess efnis að næstkomandi laugardag, 19. september, myndi hann gefa út einn lokaþátt, en þar verður viðfangsefnið vespa að nafni sphecius speciosus, sem gjarnan er kölluð „cicada killer“ á ensku og fyrirfinnst mestmegnis í mið-Ameríku og Texas.

Að sögn Petersons er tilgangurinn með þessum lokaþætti að uppfræða fólk um þessa gríðarstóru vespu, þar sem henni er oft sökum stærðar ruglað saman við bassaleikara vespuríkisins, asíska risageitunginn alræmda, vespa mandarinia (sem lét Peterson heldur betur finna fyrir því í einum eftirminnilegasta þætti seríunnar). Þess má til gamans geta að undirritaður komst eitt sinn í tæri við slíkt eintak í fjallabæ nokkrum í Japan, og hélt hann í fyrstu að um væri að ræða sláttuvél einhverjum húsum neðar, slíkar eru drunurnar í kvikindinu. (Ekki fylgir sögunni hve langt undirritaður hljóp á meðan eiginkona hans hló að honum.)

17 og hálf milljón manns standa því nú væntanlega á öndinni fyrir endurkomu meistara Coyote. Vonum bara innilega að söngtifubaninn gangi nú ekki endanlega frá honum.