Eftir langan og strangan vetur er fátt sem hressir mann eins rækilega við og að prýða umhverfið með blómum. Mikilvægt er að velja tegundir sem henta fyrir viðkomandi skilyrði og gömlu góðu harðgerðu sumarblómin klikka aldrei. Rétt er að hafa í huga að best er að bíða þar til mesta næturfrosthættan er liðin hjá, áður en farið er að gróðursetja sumarblóm í garða.

Stjúpur hafa í gegnum tíðina verið eitt langvinsælasta og harðgerðasta sumarblómið við íslenskar aðstæður.  Þær þola rok, rigningu, stöku haglél og slyddu, auk flestra annarra veðrabrigða sem íslenskt sumar býður upp á og takast á við þetta allt saman af einstöku þolgæði, það eina sem þær þola alls ekki er skuggi.  Þetta eru plöntur sem ættu alltaf að vera sólarmegin í lífinu.

Stjúpur eru til í öllum regnbogans litum og eru fá sumarblóm eins litrík og þær, nema þá kannski náfrænkur þeirra sumarfjólurnar sem eru hér um bil alveg eins í útliti, bara smærri og fínlegri á allan hátt.  Þar sem smekkur garðeigenda er mjög mismunandi er erfitt að segja fólki hvað sé fallegt, einum finnst best að hafa bara einn lit ríkjandi í sinni ræktun á meðan aðrir vilja spila saman tveimur eða fleiri litum og enn aðrir kjósa að hafa alla liti saman í belg og biðu.  Allir hafa rétt fyrir sér.

Stjúpur þurfa eins og áður sagði sólríkan vaxtarstað, þær geta alveg sætt sig við það að fá sól hálfan daginn en um leið og skyggir á þær fara þær að teygja sig í átt til birtunnar og verða langar, ljósgrænar, linar og leiðinlegar.

Þessar litríku plöntur geta prýtt hvaða blómabeð sem er, hvort sem garðeigandinn vill stinga niður einni og einni plöntu eða hafa fallega breiðu af stjúpum í beðinu sínu.  Þær henta vel í blómapotta og ker og fara vel með mörgum öðrum tegundum sumarblóma.  Margir kjósa að setja stjúpur á leiði ástvina sinna því þær standa sig svo vel við margvíslegar aðstæður og hafa langan blómgunartíma.

Best er að setja stjúpurnar í næringarríkan og góðan jarðveg og ef þær eru ræktaðar í beðum má setja með þeim smá skammt af tilbúnum áburði.  Stjúpur í kerjum og pottum þarf að vökva reglulega með áburði yfir sumarið, það tryggir að plönturnar eru alltaf hraustar og fallegar og blómstra vel.  Þegar krónublöð blómanna fara að verða tuskuleg er ágætt að hreinsa blómin og blómstilkinn í burtu, annars fara plönturnar að mynda fræ og þá fer krafturinn í það og blómgunin minnkar.  Ef það gleymist gerist það stundum að nýjar plöntur vaxa upp af fræinu næsta sumar og þá oft í skemmtilegum og óvæntum litum.