Hæstiréttur Írlands úrskurðaði á dögunum að brauðið í samlokum skyndibitakeðjunnar Subway innihéldi of mikinn sykur til að ná að uppfylla lagalega skilgreiningu um að vera brauð.

Samkvæmt úrskurðinum getur brauðið sökum mikils sykurinnihalds ekki talist til uppistöðumatvæla, en þau eru undanskyld virðisaukaskatti. Dómstóllinn hafnaði jafnframt rökum sérleyfishafa Subway um að engin virðisaukaskattskylda væri af sumum afurða fyrirtækisins, þar með talið tei og kaffi auk samlokanna. Þetta er í samræmi við lög sem sett voru á áttunda áratug í Írlandi og eru ætluð til að ýta undir verslun með uppistöðumatvæli. 

Sökum þess að Subway samlokur eru í kringum 10% sykur og innihalda því ekki “brauð” samkvæmt skilgreiningu laganna, er ekki hægt að segja að þær séu “matur” í skattskyldutilgangi, samkvæmt dómaranum Donal O’Donnell.