Sælgætisfyrirtækið Lindt & Spruengli gerði opinbert á dögunum að upp hefði komið bilun í loftræstikerfi í verksmiðju þeirra í Olten í Sviss. Varð afleiðingin sú að íbúar bæjarins fóru skyndilega að taka eftir fínu kakódufti rigna niður á bæinn.

Loftræstikerfið sem bilaði var nálægt færibandi þar sem verið var að framleiða ristaðar kakónibbur, sem eru mulin kakóbaunabrot. Sögðu talsmenn fyrirtækisins að sterkir vindar á umræddum degi hefðu orsakað þessa miklu dreifingu á púðrinu, og tóku einnig fram að mannfólki stafaði engin hætta af því.

Einn íbúi bæjarins sem kom að bíl sínum þöktum kakóduftinu smellti meðfarandi mynd:

Lindt & Spruengli buðust að lokum til að standa í þrifum á öllum bifreiðum sem hefðu orðið fyrir súkkulaðiregninu. Að þeirra sögn er búið að gera við loftræstikerfið, þannig að líklegt er því miður að þessi kynlegi atburður muni ekki endurtaka sig. Alltaf má þó vona.