Nú styttist í að skólaganga geti hafist aftur í Súkkulaðismiðju Omnon en þau eru núna að bóka og skipuleggja heimsóknir í júní. Ekki úr vegi að rifja upp ferðasögu eins nemanda fyrir ekki svo löngu síðan. Sá er svo sjúkur í súkkulaði að hann felur það heima hjá sér svo hann geti setið einn að því. Ekki beint eitthvað sem hann er stoltur af en svona er þetta bara.

Hægt er að skoða allt um möguleika súkkulaðiskólans, bókanir og hvað annað er hægt að gera á Grandanum á https://www.omnomchocolate.com/ .

Omnon var stofnað fyrir 7 árum og býr til handgert súkkulaði úr kakóbaunum sem þau flytja sjálf inn frá Suður Ameríku, Karabíska hafinu, Asíu og Afríku. Þau leggja mikið á sig til að búa til frábæra vöru og ekki skemmir útlit pakkningana fyrir enda eru þær algjört listaverk.

En málið er sem sagt að það er hægt að heimsækja þau í Súkkulaðismiðjuna en hugmyndin með henni er að geta boðið fólki í heimsókn í súkkulaðismiðjuna og sýna á lifandi hátt hvernig súkkulaði verður til frá grunni, eða úr baun í bita eins og þau orða það.

Heimsóknin tekur um það bil klukkutíma en það fer auðvitað alveg eftir því hversu gott manni finnst súkkulaðið og hvesu mikið maður getur innbyrt. Ferðasagan hefst sem sagt snemma því nemandinn (hún) mætti fyrr til að vera alveg klár í slaginn. Starfsmaður Omnom tók á móti henni og öðrum nemendum og fór yfir hversu mikil vinna er fólgin í því að búa til frábært súkkulaði.

Eftir mjög upplýsandi, fyndna og gómsæta kynningu var hópurinn leiddur í gegnum súkkulaðismiðjuna sjálfa og var þar hægt að spjalla við sérfræðingana sem voru á fullu að vinna í og búa til allar þessar dásamlegu samsetningar og bragðtegundir. Hópurinn fékk meira að segja að smakka tegundir sem enn voru í þróun sem okkar nemanda þótti mikið til koma. Eins og værið verið að bragða á syndsamlega góðu leyndarmáli.

Áfram var haldið og áfram var smakkað. Hópurinn smakkaði alla vörulínu Omnom. Súkkulaði með appelsínuberki, kanil, sjávarsalti og möndlum og ómótstæðilegum malt kúlum. Nemandinn okkar tók hraustlega til súkkaliðis síns og vel það. Mælir sérstaklega með súkkulaði með lakkrís – orð fá ekki lýst  hversu gott það er. Það hjálpar að nemandinn okkar er algjör fagmanneskja í súkkulaði áti og svimaði ekki einu sinni eftir þetta en mælir með að undirbúa sig nokkrum dögum áður með því að borða vel af súkkulaði til þess að vera tilbúin í átökin. Eins og maður myndi undirbúa sig fyrir átök, súkkulaðiát-ök.

Auðvitað var endað á því að kaupa fullt af súkkulaði til þess að eiga við gott tilefni. Það kom víst aldrei og súkkulaðið sem okkar nemandinn keypti var ekki deilt með neinum. Klukkutími sem er enn í fersku minni.