Ég er algjör súpukelling en þarf að vanda mig að finna súpuuppskriftir svo allir á heimilinu fíli réttina. Ég dýrka þessa uppskrift sem ég fann á síðunni Killing Thyme því þetta er súpa sem þarf að mauka, sem þýðir það að ég get platað krakkana til að borða alls kyns gúmmulaði. Mæli hiklaust með þessari súpu!

Rjómalöguð brokkolísúpa

Hráefni:

1-2 msk. ólífuolía
1 laukur, skorinn í bita
2 hvítlauksgeirar, grófsaxaðir
2 sellerístilkar, skornir í bita
2-3 stórir brokkolíhausar
3 bollar grænmetissoð
1/2 tsk. salt
pipar
2 msk. smjör
2 msk. hveiti
2 bollar mjólk

Aðferð:

Hitið olíuna í stórum potti yfir meðalhita. Eldið lauk, hvítlauk og sellerí í pottinum í um 5 mínútur. Hrærið reglulega í blöndunni svo þetta brenni ekki við. Bætið brokkolí og soði í pottinn, setjið lokið á og látið þetta malla í um 10 mínútur. Maukið súpuna með töfrasprota eða blandara og færið hana yfir í stóra skál. Bræðið smjörið í pottinum og þeytið síðan hveitið saman við. Þeytið mjólkina saman við þar til blanda þykknar. Hellið brokkolíblöndunni varlega aftur í pottinn og hrærið vel. Saltið og piprið eftir smekk og berið fram, jafnvel með góðu brauði.