Ég gjörsamlega dýrka þessa uppskrift út af lífinu, en ég fann hana á síðunni 40 Aprons. Í þessari uppskrift er ýmislegt grænmeti en ástæðan fyrir því að ég kalla hana afgangasúpu er sú að hægt er að nota það sem liggur fyrir skemmdum í ísskápnum í staðinn fyrir það sem uppskriftin kveður á um.

Þessa uppskrift má leika sér með fram og til baka og alveg hægt að sleppa rækjunum og setja annað fisk- eða kjötmeti í staðinn – eða sleppa því alfarið.

Njótið!

Afgangasúpa með rækjum

Hráefni:

1½ msk. ólífu- eða lárperuolía
4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 rauð paprika, grófsöxuð
1 græn paprika, grófsöxuð
1 sellerístilkur, skorinn í bita
½ laukur, grófsaxaður
1½-2 msk. cajun krydd
1 tsk. svartur pipar
½-1½ tsk. salt
1/8 tsk. cayenne pipar (má sleppa)
2 dósir maukaðir tómatar
1 bolli kjúklingasoð
5 bollar smátt saxað blómkál (blómkálshrísgrjón)
500 g risarækjur, hreinsaðar
vorlaukur, til að skreyta
fersk steinselja, til að skreyta
„hot sauce“ til að bera fram með, má sleppa

Aðferð:

Byrjið á því að hita 1 og ½ matskeið af olíu í stórum potti yfir meðalhita. Bætið hvítlauk, lauk, papriku og sellerí í pottinn og steikið í 5 til 7 mínútur, eða þar til grænmetið er mjúkt. Bætið kryddi saman við og hrærið. Bætið tómötum og soði saman við og hrærið. Náið upp suðu, lækkið hitann og látið malla í 25 til 35 mínútur. Bætið rækjum og blómkáli út í og eldið þar til rækjurnar eru orðnar fagurbleikar. Ef þið eigið kókosmjólk eða rjóma er ekki verra að bæta því útí súpuna. Berið fram með vorlauk, steinselju og „hot sauce“.