Er enn talin ein sú fyndnasta kvikmynd sem framleidd hefur verið.

Allt of algengt er að gamlar myndir eldist hreinlega illa og því ber að fagna öllum þeim myndum sem standast tímans tönn. Fáar myndir geta borið höfðið jafn hátt og gaman- og stórslysamyndin Airplane. Oft kölluð fyndnasta mynd í heimi og samkvæmt rannsókn sem var gerð árið 2012 þá státar myndin af mestum hlátri á mínútu.
Í gegnum árin hefur myndin að sama skapi alltaf komið upp á ýmsum listum yfir fyndnustu myndir sem hafa komið út.

Upphaf Leslie Nielsen sem gamanleikara

Jerry Zucker, Jim Abrahams og David Zucker sem skrifuðu, framleiddu og leikstýrðu myndinni saman hafa sagt að einn af töfrunum á bak við húmorinn var að margir leikarar sem voru í myndinni höfðu aldrei verið í gamanmynd áður, leikarar sem voru þekktir fyrir heldur alvarlegri hlutverk.

Leslie Nielsen átti stórleik í þessari mynd en það eru kannski ekki allir sem átta sig á þeirri staðreynd að fram að þessu hlutverki var Leslie alvarlegur leikari. Þetta hlutverk breytti hans ferli til framtíðar enda einn dáðasti gamanleikari sem fram hefur komið og fyrir marga algjör hornsteinn í sögu gríns.

Hvað gerir myndina svona sérstaka?

Myndin gerir helst grín að stórslysamyndinni Airport 1975 og Zero Hour!. Jafnvel í sumum tilvikum er atriði hreinlega nákvæmlega eins og í fyrri myndum nema það kemur einhver smá breyting sem snýr atriðinu algjörlega á hvolf og gerir þetta svo yfirmáta hallærislegt að það er hreinlega ekki annað hægt en að hlægja. Það er ekkert sem er undanskilið og ekkert sem er hreinlega of fáránlegt og jafnvel húmor á bak við hvert smáatriði. Tíðni brandara er svo gríðarlega há að jafnvel þó að einhver nái ekki þessum gömlu tengingum á bak við allt þá spillir það alls ekki gríninu.

Hér eru nokkur af þekktari atriðum myndarinnar.