Hvar á ég að byrja?

Samfarirnar eins og „þær voru í byrjun“ ?!

Þá í streitu, án samþykkis mögulega, án smurningar, í óöryggi
– Í PÍKU SEM LANGAÐI EKKI AÐ FÁ LIM INN Í SIG.
Eða þú veist, eitthvað svoleiðis.

Píkan verður ekki víð við notkun, hún þarf að undirbúa sig fyrir samfarir (og annað kynlíf) og það gerir hún með því að smyrja sig og slaka á – grindarbotnsvöðvinn þarf að slaka á. Hann er VÖÐVI. Hann er hægt að þjálfa til að verða sterkari og hann getur veikst við álag af meðgöngu og fæðingu (og allskonar öðru).

Ef grindarbotninn nær ekki að slaka á þá er vont að reyna koma einhverju inn í leggöng. Ef píkan nær ekki að smyrja sig getur verið vont að koma einhverju inn í leggöng. Ef viðkomandi er í streitu þá getur verið vont að fá eitthvað inn í sig. Ef viðkomandi vill ekki fá eitthvað inni í sig þá er vont að fá eitthvað inn í sig.

Skilurðu hvert ég er að fara með þessu?

Og fyrsta skiptið… dreptu mig ekki.

Við eigum að vilja allt en vita ekki neitt
Vera til í allt en ekki hafa prófað neitt
Fáða oft og mörgum sinnum en
Ekki með mörgum bólfélögum
eða okkar eigin höndum
eða raftækjum
Við eigum að stynja svo þú vitir að þú standir þig vel

Og hvar erum við í þessu öllu saman?

Svo finnst fólki skrýtið að píkur nenni ekki að fá inní sig.