Dagur einhleypra er í dag, 11. nóvember. Hann einkennist af miklum afsláttum í hinum ýmsu vefverslunum. Dagurinn á uppruna sinn að rekja til Kína og átti upprunalega að hylla þá sem eru einhleypir en hefur breyst í einn stærsta stafræna verslunardag í heimi.

Eins og Íslendingar ættu að vera búnir að taka eftir hafa íslenskar vefverslanir tekið deginum fagnandi, í dag sem og síðastliðin ár. Í dag, og eingöngu í dag, er hægt að gera stórgóð kaup í hinum ýmsu netverslunum og um að gera að klára jólagjafirnar á einu bretti. Svo ekki sé talað um hve sóttvarnarvænt það er að versla bara á netinu.

En hvernig á maður að versla á degi einhleypra?

Byrjum á verslunum sem þú fylgir á samfélagsmiðlum eða ert á póstlista hjá. Kíktu á vefverslanir hjá þessum fyrirtækjum og athugaðu hvort að vörur sem þú hefur haft augastað á séu á afslætti. Kíktu á tölvupóstinn þinn og athugaðu hvort að þín eftirlætis fyrirtæki hafi jafnvel sent þér tilboðin í pósti.

Svo er hægt að fara inn á netverslanir sem sjá um að selja fyrir ýmsar aðrar verslanir. Þar er mesta úrvalið og hægt að setja vörur frá mismunandi fyrirtækjum í einu og sömu körfuna og greiða allt í einu. Dæmi um slíkar verslanir eru Heimkaup, mynto.is og Heima Popup. Heimkaup selur ýmis vörumerki, svo sem Under Armour, Lego og Maybelline. Verslanir sem er að finna hjá Mynto eru til að mynda Andrea Maack, Aurum, Brandson, Epal og Húrra Reykjavík. Hjá Heima Popup er meðal annars að finna Kaupfélagið, Tulipop, Hrím og Ellingsen. Á vefnum 1111.is er einnig hægt að sjá alls kyns tilboð í hinum ýmsu verslunum, svo sem Kiosk, Mstore og Óskaskrín.

Afsláttur er allt frá 10 prósentum og upp í 90 prósent. Það er því til margs að spara.

Alveg sama hvar þið eruð að versla þá skuluð þið passa að haka við vörur sem eru á afslætti ef það er hægt. Einnig skuluð þið vara ykkur á að ekki allar verslanir eru með afsláttinn reiknaðan inn í verðið heldur verðið þið að skrá inn sérstakan afsláttarkóða þegar að kemur að greiðslu. Vinsæll afsláttarkóði í dag er einfaldlega „singles“, en auðvitað breytilegt eftir verslun.

Ef þið eruð búin að eyrnamerkja sérstakan pening fyrir gjafir þá er um að gera að raða vörum eftir Lægsta til hæsta eða öfugt og finna ykkar verðbil. Það sparar mikinn tíma.

Þar sem langt er í jólin er mesti sparnaðurinn fólginn í því að sækja pantaðar vörur og sleppa við að borga sendingarkostnað.

Gjafabréf eru líka tilvalin jólagjöf en það er til dæmis hægt að gera góð kaup á slíkum á Hópkaup og AHA. Á Hópkaup er til dæmis hægt að kaupa ís frá Yo Yo á litlar 599 krónur – frábær gjöf fyrir þá sem eiga allt eða vini barnanna. Á AHA er hægt að kaupa lúxusgistingu eða matarveislu sem er ávallt gaman að fá í jólagjöf.

Munið að dagur einhleypra er aðeins í dag og því renna tilboðin út á miðnætti.

Einnig er gott að hafa í huga að versla eitthvað, eða allt, af íslenskum einyrkjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa átt erfitt uppdráttar bróðurpart ársins vegna COVID-19.