Það er vægt til orða tekið að segja að nýskipaður vinnuhópur um upplýsingaóreiðu og COVID-19 hafi verið afar umdeildur síðan tilkynnt var um skipan hans fyrir stuttu. Nú hefur hlutverk hópsins og starfshættir verið útlistaðir á vef Stjórnarráðsins.

Samkvæmt því sem kemur fram á vef Stjórnarráðsins er „hlutverk vinnuhópsins er að kortleggja hugsanlegar birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu um COVID-19 hér á landi. Jafnframt er hlutverk vinnuhópsins að gera tillögur að aðgerðum til þess auðvelda aðgengi að traustum heimildum og upplýsingum með hliðsjón af sambærilegum aðgerðum í nágrannaríkjum.“

Öld upplýsingaóreiðu

Í grein um hópinn er það tíundað hve mikil upplýsingaóreiða ríkir á hinum ýmsu frétta- og samskiptamiðlum nú til dags, en meðal markmiða hópsins er að stuðla að lýðheilsu landsmanna og tryggja heilbrigðisöryggi „með því að kanna umfang skipulagðrar útbreiðslu rangra eða misvísandi upplýsinga um COVID-19 á Íslandi, koma á framfæri fræðsluefni um mikilvægi áreiðanlegra upplýsinga um COVID-19 og greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti með aðgengilegum hætti kannað áreiðanleika slíkra upplýsinga.“

Sigmundur undrandi

Eins og áður segir er vinnuhópurinn afar umdeildur og hafa sérstaklega stjórnmála- og fjölmiðlamenn tekið til máls og gagnrýnt hópinn, sem og aðrir í samfélaginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var hreint og beint undrandi á skipan hópsins er hann steig upp í pontu Alþingis fyrir stuttu. Í óundirbúinni fyrirspurn til forsætisráðherra skildi hann hvorki upp né niður í störfum hópsins.

Sigmundur Davíð. Mynd: Althingi.is

„Varla á að fara að ritskoða íslenska fjölmiðla? Er þá ætlunin sú að reyna að fylgjast með netinu og leiðrétta allt það bull sem kynni að finnast þar?“

Þingkonan Sigríður Á. Andersen fór einnig mikinn um hópinn á Facebook-síðu sinni.

„Nú átta ég mig ekki á að hverju eða hverjum þessi vinna átta manna á að beinast. Varla að þríeykinu svokallaða sem hefur nánasta einokað umræðuna hér á landi um Covid19? Það væri hins vegar forvitnilegt að vita fyrirfram hverju þessu vinna á að skila. Hvað í ósköpunum ætla menn að gera ef finnst t.d. röng frétt um Covid einhvers staðar? Hvað?“ skrifaði Sigríður.

Nú átta ég mig ekki á að hverju eða hverjum þessi vinna átta manna á að beinast. Varla að þríeykinu svokallaða sem hefur…

Posted by Sigríður Á. Andersen on Monday, April 20, 2020

Fjandsamlegt rekstrarumhverfi

Fjölmiðlakonan Aðalheiður Ámundadóttir skrifaði skoðanapistil í Fréttablaðið um hópinn og sagði íslensk stjórnvöld hafa fallið í hættulega gryfju.

„Lög gegn upplýsingum eru ekki fýsileg leið til að auka veg upplýsingar,“ skrifaði Aðalheiður. „Vaxandi tekjusamdráttur fjölmiðla á undanförnum árum hefur grafið undan gæðum fréttaflutnings og bolmagni fjölmiðla til að veita stjórnvöldum gagnrýnið aðhald. Vegna viðvarandi manneklu og lágra launa er reynsluleysi íslenskra blaðamanna orðið nánast sjálfbært, því þeir brenna út af álagi áður en þeir ná að öðlast víðtæka reynslu í starfi og ávinna sér traust lesenda, viðmælenda og heimildarmanna. Það tekur tíma og lærdóm að mynda slíkt traust. Í því fjandsamlega rekstrarumhverfi sem íslenskir fjölmiðlar búa við eru reyndir blaðamenn sjaldséðir.“

Þá sagði Aðalheiður skipan hópsins ekki vera rétta leið til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla.

„Til að sporna gegn upplýsingaóreiðunni þarf að skapa rekstrargrundvöll fyrir frjálsa og óháða fjölmiðla til framtíðar. Það þolir ekki lengri bið því í kjölfarið þarf að byggja upp öfluga stétt blaðamanna. Það er langtímaverkefni.“

Íslensk stjórnvöld fylgjast með

Vinnuhópinn skipa Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Kjartan Hreinn Njálsson frá Landlæknisembættinu, Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði, Anna Lísa Björnsdóttir, samskiptamiðlafræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður, María Mjöll Jónsdóttir frá utanríkisráðuneytinu, Sigurður Emil Pálsson frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu, Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Þórunn J . Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs. Sú síðastnefnda leiðir starf hópsins. Vinnu hópsins er skipt niður í fjóra flokka sem eru eftirfarandi:

1. Kanna á dreifingu upplýsinga um COVID-19. Gerð verði könnun til þess að fá mynd af því hvernig almenningur nálgast upplýsingar um COVID-19 og hvort og þá hvernig rangar upplýsingar um veiruna og sjúkdóminn hafi borist almenningi, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Könnunin taki mið af sambærilegum könnunum sem gerðar hafa verið meðal annars á Norðurlöndunum og í Bretlandi þannig að niðurstöðurnar verði samanburðarhæfar.

2. Stuðla að vitundarvakningu og efla almenna aðgát gagnvart upplýsingum og miðlun upplýsinga um COVID-19.

3. Fjölmiðlum og almenningi verði gert kleift að kanna með auðveldum hætti áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þeim berast um COVID-19, til dæmis með því að koma á samstarfi við ritnefnd COVID-19 verkefnis Vísindavefs Háskóla Íslands.

4. Íslensk stjórnvöld fylgist með og taki þátt í alþjóðlegu samstarfi er varðar upplýsingar um COVID-19, þar með talið á vegum Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, EES-ríkja og á vettvangi norræns samstarfs.

Rétt er að taka fram að ekki eru greidd laun til meðlima hópsins fyrir vinnuna.