Dýrasállfræðingar við háskólana í Sussex og Portsmouth í Bretlandi komust nýverið að ansi áhugaverðum niðurstöðum um hvernig byggja skuli tengsl við kettina okkar. Rannsóknin, sem var gefin út í náttúruvísindaritinu Scientific Reports, sýnir að hægt er að byggja upp traust við kattardýr með því að einfaldlega píra augun.

Þessi hæga augnhreyfing er gjarnan kölluð kattarbros, og leiðir rannsóknin líkur að því að það að líkja eftir þessari hreyfingu geri manneskjuna meira aðlaðandi fyrir kettinum. Augnapír hjá köttum á vissar hliðstæður við einlæg bros hjá mannverum (svokölluð Duchenne-bros, þegar brosað er með augunum).

Tvær tilraunir voru gerðar innan rannsóknarinnar. Sú fyrri leiddi í ljós að kettir eru líklegri til að blikka hægt í átt að eigendum sínum eftir að eigendurnir hafa gert það að fyrra bragði. Sú síðari sýndi svo að kettir eru líklegri til að nálgast útrétta hendi ókunnugrar manneskju eftir að viðkomandi sýnir kattarbrosið. Niðurstaðan virðist því vera sú að þetta hæga blikk sé jákvætt samskiptaform milli mannfólks og katta.

„Rannsóknin er sú fyrsta til að kanna hlutverk hægra blikkhreyfinga í samskiptum katta og mannfólks,“ sagði Karen McComb prófessor við Sussex-háskóla, sem leiddi rannsóknina. „Það er frábært að geta sýnt fram á að kettir og mannfólk geti átt samskipti á þennan hátt. Þetta er eitthvað sem marga kattaeigendur hafði grunað nú þegar, þannig að það er spennandi að hafa fundið sannanir fyrir því.“

McComb lýsti því næst hreyfingunni. „Prófaðu að píra augun þegar þú horfir á köttinn, eins og þú værir að brosa á afslappaðan hátt, og lokaðu því næst augunum í nokkrar sekúndur. Þú munt sjá að kötturinn svarar á sama hátt og þið getið byrjað nokkurs konar samræður.“