Tekjufall mest hjá láglaunafólki – hætta á vaxandi ójöfnuði
Konur eru sérstaklega útsettar fyrir áhrifum kófsins, en einnig ungt fólk og innflytjendur.


Hér má lesa stutta samantekt frá fjarfundi sérfræðingahóps ASÍ, BSRB og BHM um efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins í samanburði við kreppuna eftir bankahrunið 2008, sem haldinn var í morgun.
Vísbendingar eru um að efnahagsleg áhrif COVID-veirufaraldursins komi harðast niður á láglaunahópum á Íslandi. Konur eru sérstaklega útsettar fyrir áhrifum kófsins, en einnig ungt fólk og innflytjendur. Þegar má sjá merki þess hér á landi að ójöfnuður fari vaxandi vegna heimsfaraldursins.
Þetta er á meðal þess sem fram kom á opnum veffundi sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar sem efnt var til í dag undir yfirskriftinni „Kófið og hrunið: lærdómur og leiðin fram á við“.
Á fundinum kynnti Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, nýja greiningu hópsins þar sem efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar eru borin saman við áhrif kreppunnar sem varð í kjölfar bankahrunsins 2008. Niðurstöðurnar eru í samræmi við rannsóknir Eurostat á áhrifum faraldursins eftir atvinnugreinum og mismunandi hópum launafólks.
Greining sérfræðingahópsins sýnir að samdrátturinn í ferðaþjónustu er veigamikill í þessu samhengi. Þá hafa listamenn og starfsfólk í menningartengdum greinum upplifað mun meiri samdrátt nú en í kjölfar hrunsins. Ekki mælist samdráttur í greinum í opinbera kerfinu sem skýrist af því að opinber kerfi hafa verið í framlínu í baráttu við veiruna og vinnuálag t.d. innan heilbrigðisþjónustu því mjög mikið. Konur eru í meirihluta starfandi í þessum greinum. Þá er hlutdeild kvenna í mörgum greinum ferðaþjónustu og framlínustörfum í baráttunni við COVID-19 hærri hér á landi en meðaltalið í löndum Evrópu.
Í greiningunni er einnig vikið að áskorunum framtíðar með tilliti til heimsfaraldursins. Fram kemur að alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðabankann hafa þungar áhyggjur af vaxandi ójöfnuði í kjölfar faraldursins og hvetja ríki heims til viðbragða.
Í samantekt Vilhjálms er stuðst við gögn um samdrátt í launagreiðslum innan einstaka atvinnugreina annars vegar milli mars og september 2008 og 2009 og milli mars og september 2019 og 2020 hins vegar. Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar hefur launafólk í láglaunagreinum tekið mun meiri skell af kófinu en bankahruninu 2008 og vegur atvinnumissir þar þyngst.
Hópurinn vekur athygli á einhæfni útflutningsgreina Íslendinga og sveiflukenndu hagkerfi. Viðbragða sé þörf til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.
Um sérfræðingahópinn
Sérfræðingahópur ASÍ, BSRB og BHM var skipaður 16. september sl. og hefur þegar skilað af sér skýrslu um áhrif kreppunnar á atvinnuleysi ólíkra hópa.
Hópinn skipa:
Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður
Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í viðskiptafræði og fulltrúi í fjármálaráði
Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Eflingu
Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM
Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur ASÍ, starfar með hópnum
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, var í hópnum og tók þátt í gerð fyrstu skýrslu hans og hugmyndavinnu hópsins.