Bíóunnendum hefur reynst 2020 ansi erfitt ár framan af, en þó lítur út fyrir að birti aðeins til síðustu mánuði ársins. Hér er stuttur listi af bíómyndum sem enn stendur til að sýna, ásamt því hvenær von er á þeim í kvikmyndahús.

Greenland

Væntanleg í bíó 18. september

Hér segir frá fjölskyldu sem berst fyrir lífi sínu þegar miklar náttúruhamfarir ganga yfir, og á þeirri vegferð fá þau að upplifa bæði það besta og versta sem mannkynið hefur upp á að bjóða. Greenland skartar Gerard Butler og Morena Baccarin í aðalhlutverkum og er í leikstjórn Ric Roman Waugh, en hann hefur áður verið þekktastur fyrir harðsoðnar glæpasögur sem yfirleitt gerast í fangelsi.

The War With Grandpa

Væntanleg i bíó 25. september

Hér segir frá ungum dreng sem er æfur yfir að þurfa að deila svefnherbergi með afa sínum og ákveður einfaldlega að segja stríði á hendur gamla mannsins. Með aðalhlutverk fara Robert DeNiro, Uma Thurman og Oakes Fegley, og leikstjórn er í höndum Tim Hill, en hann hefur sér helst til frægðar getið að vera einn af mönnunum á bak við Svamp Sveinsson (SpongeBob SquarePants upp á frummálið).

Honest Thief

Væntanleg í bíó 9. október

Liam Neeson fer með aðalhlutverkið í þessari spennumynd um alræmdan bankaræningja sem verður ástfanginn og ákveður í kjölfarið að snúa við blaðinu og gefa sig fram til yfirvalda. Hann lendir hins vegar í klónum á spilltum alríkislögreglumönnum sem svíkja hann illilega. Við stjórnvölinn hér er Mark nokkur Williams, en hann hefur leikstýrt einni mynd áður, A Family Man frá árinu 2016 með Gerard Butler í aðalhlutverki, auk þess sem hann er annar af höfundum hinna vönduðu Netflix-þátta Ozark.

Death on the Nile

Væntanleg í bíó 23. október

Death on the Nile er byggð á samnefndri skáldsögu Agöthu Christie um leynilögreglumanninn Hercule Poirot, og er hann hér að rannsaka morð ungs erfingja á meðan hann ferðast niður Nílarfljótið. Kenneth Branagh bæði leikstýrir og leikur aðalhlutverkið hér, en ásamt honum koma meðal annars fram Gal Gadot, Armie Hammer, Letitia Wright og Rose Leslie.

Black Widow

Væntanleg í bíó 30. október

Black Widow gerist í kjölfar myndarinnar Captain America: Civil War. Söguhetjan Natasha Romanoff snýr aftur til Rússlands, þar sem hún þarf að berjast við öflugan andstæðing á sama tíma og hún reynir að ná aftur sambandi við fjölskyldu sína. Scarlett Johansson er hér eftir sem áður í hlutverki svörtu ekkjunnar, og er Black Widow í leikstjórn Cate Shortland, sem áður hefur meðal annars leikstýrt myndunum Lore og Berlin Syndrome. Er þetta hennar fyrsta Marvel-mynd.

Soul

Væntanleg í bíó 20. nóvember

Soul er nýjasta myndin úr smiðju hreyfimyndarisans Pixar. Fjallar hún um hljómsveitarkennara í gagnfræðaskóla sem lendir í því að sál hans fer úr líkama hans fyrir slysni, og þarf hann að leita hjálpar hjá ungri sál í öðrum heimi til þess að komast aftur til jarðar áður en líkami hans deyr. Með aðalhlutverk í Soul fara Jamie Foxx, Tina Fey, Phylicia Rashad og tónlistarmaðurinn Questlove. Leikstjórn er í höndum gamalreyndrar Pixar-kempu að nafni Pete Docter, en hann á að baki klassíkera eins og Monsters Inc., Up og Inside Out.

No Time To Die

Væntanleg í bíó 20. nóvember

Leyniþjónustumaðurinn James Bond fær hér sína 25. mynd, og er hann í þetta skiptið að bjarga vísindamanni frá dularfullum þorpara sem vopnaður er stórhættulegri nýrri tækni sem ógnar milljónum mannslífa. Daniel Craig er hér í fimmta sinn í hlutverki njósnarans alkunna, og um leikstjórn sér Cary Fukunaga, sem helst er þekktur fyrir fyrstu seríu HBO-þáttaraðarinnar True Detective.

West Side Story

Væntanleg í bíó 16. desember

Enn og aftur fáum við að sjá hinn sígilda söngleik West Side Story fangaðan á hvíta tjaldinu. Fylgst er hér með tveimur ástföngnum ungmennum sem eru af ólíku bergi brotin og þurfa að takast á við fordóma og boð og bönn samfélagsins. Ef það hljómar kunnuglega, þá er það jú vegna þess að söngleikurinn er byggður á leikriti Shakespeares um Rómeó og Júlíu. Meistari Steven Spielberg leikstýrir.

Dune

Væntanleg í bíó 16. desember

Dune er byggð á samnefndri bók sem kom út árið 1985 eftir Frank Herbert og er jafnan talin með frægustu vísindaskáldsögum samtímans. Fylgjum við hér eftir ungum manni að nafni Paul Atreides, sem leiðir hirðingjaættbálka inn í baráttu um eyðimerkurplánetuna Arrakis. Í aðalhlutverkum eru meðal annars Timothée Chalamet, Zendaya, Jason Momoa, Rebecca Ferguson og Oscar Isaac.

The Croods: A New Age

Væntanleg í bíó 26. desember

Hér er á ferð framhald myndarinnar The Croods sem kom út 2013 og fjallaði um samnefnda fjölskyldu sem lifa á forsögulegum tímum. Hér lenda þau í deilum við Betterman-fjölskylduna, en hún er komin eilítið lengra í þróunarkeðjunni heldur en þau sjálf. Með aðalhlutverk fara Nicolas Cage, Ryan Reynolds, Emma Stone og Catherine Keener. Leikstjórn er í höndum Joel Crawford, og er þetta hans fyrsta mynd í fullri lengd.

Wonder Woman 1984

Væntanleg í bíó 26. desember

Hér er um að ræða framhald hinnar geysivinsælu Wonder Woman frá árinu 2017, sem skartaði einnig Gal Gadot í titilhlutverkinu. Wonder Woman 1984 gerist eins og nafnið gefur til kynna á níunda áratugnum og kljáist söguhetjan hér við ofurþorparann Maxwell Lord og líffræðiundrið Cheetah. Leikstýra er Patty Jenkins, en hún leikstýrði einnig bæði fyrri Wonder Woman myndinni og sannsögulega glæpadramanu Monster með Charlize Theron í aðahlutverki árið 2003.