Fyrir þau sem lenda í langvarandi tilvikum af COVID-19 eru fyrstu einkennin einungis byrjunin á langdreginni baráttu. Flestir sem fá sjúkdóminn eru einkennalitlir og ná sér tiltölulega hratt, en þó eru sumir sem þróa með sér veikindi sem geta varað margar vikur og upp í marga mánuði.

Erfitt er að rannsaka þessa einstaklinga þar sem ýmist skortur á prófum eða fjölbreytileiki einkennanna leiðir til þess að ekki fá allir tilhlýðilega greiningu. Einnig eru aðrir sem gætu verið að finna fyrir langvarandi óþægindum en tilkynna ekkert um slíkt, sem gerir rannsóknarfólki erfitt fyrir.

Hins vegar benda nýjar rannsóknir til snemmbærra merkja um það hvort sjúklingur muni ná sér á styttri eða lengri tíma. Nýleg rannsókn frá King’s College London tók fyrir um 4000 kórónaveirusjúklinga í Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum, og bað þau um skrá einkenni sín í símaforrit.

Um 20 prósent sögðust ekki líða betur eftir tvær vikur, en sá tími er þröskuldurinn þar sem vísindamenn merkja veikindin sem langvarandi tilfelli. Eftir átta vikur voru tæp 5 prósent, um 190 sjúklingar, enn með einkenni. Eftir 12 vikur voru svo 100 manns, eða 2.5 prósent, sem sögðust ekki vera búin að ná sér.

Þeir sjúklingar sem fundu fyrir meira en fimm einkennum á fyrstu viku veikindanna áttu mun meira á hættu að þróa með sér langvarandi COVID, samkvæmt rannsókninni. Þetta átti við þvert yfir kynja- og aldursbil.

Rannsóknarteymið fundu líka fimm einkenni sem sögðu til, mun frekar en önnur, um að veikindin gætu verið meira langvarandi en ella: þreyta, höfuðverkur, andþyngsli, hæsi og vöðva- eða beinverkir. Gætu þessar niðurstöður greitt götuna að nýjum aðferðum til að meðhöndla COVID-19.

Aldur, kyn og þyngd áhrifavaldar í langvarandi tilfellum

Af þeim hlutum sem geta sagt fyrir um langvarandi COVID-tilfelli vegur aldur langþyngst, samkvæmt rannsókn King’s College. Um 22 prósent þátttakenda yfir sjötugu kváðust hafa haft langvarandi einkenni, samanborið við 10 prósent þátttakenda á aldrinum 18 til 49. Fólk með hátt BMI (Body Mass Index, mælikvarði á líkamsþyngd miðað við hæð) voru einnig mun líklegri til að þróa með sér langvarandi veikindi.

Kyn var ekki jafn áreiðanleg vísbending um langvarandi tilfelli eins og aldur, en í ljós kom þó að konur í yngri aldurshópum voru í meiri áhættu en menn. Um 15 prósent af konum í rannsókninni fengu langvarandi einkenni, borið saman við 10 prósent manna.

Sú niðurstaða kom á óvart, þar sem menn eru alla jafna viðkvæmari fyrir alvarlegum COVID-tilfellum heldur en konur. Vísindamenn hafa ekki enn komist að niðurstöðu um hvers vegna þetta gæti verið, en rannsóknir hafa sýnt að konur gætu átt til að þróa með sér sterkari T-frumuviðbrögð eða hraðari ónæmissvörun við vírusnum. 

Aðrir hafa bent á mögulega hegðunartengda þætti, svo sem verra mataræði hjá mönnum, auknar líkur á reykingum, og minni vilji til að þvo hendur eða bera grímu. Enn aðrir segja skýringuna mögulega liggja í því að konur gætu einfaldlega hafa verið samviskusamari með að skrá einkenni sín inn í símaforritið til að byrja með.

Kannanir sem biðja fólk um að lýsa einkennum sínum hafa ýmsa vankanta, þar sem fólk gæti átt erfitt með að muna hvert einkenni fyrir sig, eða gætu tengt það við eitthvað annað en vírusinn. Flestar rannsóknir á veirunni hafa verið á sjúklingum sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús, og eru slíkir sjúklingar líklegri til að þróa með sér viss einkenni, svo sem hita.

Samkvæmt Natalie Lambert, aðstoðarlæknisfræðiprófessor hjá Indiana-háskóla, þarf að beina rannsóknum mun meira að fólki sem er ekki á spítala, þar á meðal fólki sem er einkennalaust.

“Á einn bóginn er magnað að rannsóknarfólk og vísindamenn út um alla veröld séu að finna hvort annað og vinna saman í þessu, en á sama tíma erum við dálítið sundurleit,” sagði hún. “Þetta eru spurningar sem virkilega þarf að svara núna.”