Fósturmissir 💔

Ég hef talað um það í nokkrum viðtölum hversu frelsandi og heilandi það var að gangast við fósturmissi og ræða hann sem sorg sem þyrfti að fá tíma og pláss til að jafna sig á.

Það er svo mikilvægt að við brjótumst frá þessu „það á ekki að tala um meðgöngu fyrr en gengin 12 vikur“ bulli – um leið og þú færð staðfesta þungun þegar þú situr taugaóstyrk á klósettinu með hlandblauta hönd og hvítt prik á milli fótleggjanna á þér þá ertu komin í ferlið.
Að vona og þrá.
Þessar sekúndur geta verið sem heil eilíf.
Um leið og óskýra eða daufa línan myndast í hinum glugganum á prófinu, eða þegar hún kemur um leið jafnsterk og viðmiðunarlínan!, er þungun orðin raunveruleg.
Þessi skrýtna tilfinning, þessi grunur; málmbragð í munni, aum brjóst, þreyta, brenglað lyktarskyn (eða hvað sem það svo er) staðfestir það sem þú ÞRÁÐIR – INNI Í ÞÉR VEX BARN!!

Áður en maður hefur náð að gyrða upp um sig er farin af stað útreikingur á mögulegum fæðingardegi og nöfnum og krúttlegum samfellum og taubleyjum vs einnota bleyjum og og og og og.

Það að missa fóstur er eitthvað sem enginn getur búið sig undir. Þessi sorg er svo raunveruleg og sár en þú átt að bera hana í hljóði því þetta „er svo algengt“ eða „þú varst komin svo stutt“

Ég hef þrisvar misst fóstur (sem er staðfest af lækni – mig grunar að ég hafi oftar misst) og ég hef fengið að heyra allskonar „tókstu lýsi?“ „Ertu ekki þakklát að eiga önnur börn?“ „Það hefur örugglega bara verið eitthvað að þessu hjá þér“ „kemur næst!“

Þetta er bara ógeðslega erfitt. Og ósanngjarnt.
Plís viltu bara gefa pláss, kærleika, hlýju og eyra. Plís viltu leyfa þungun að verða raunverulegri um leið og hún birtist viðkomandi?
Getum við verið svolítið mannleg hér?