Barack og Michelle Obama, fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, tróna á toppi lista yfir aðdáunarverðasta fólk heims árið 2020, sem breska markaðsrannsókna- og greiningafyrirtækið YouGov setti saman. Listinn er byggður á könnun YouGov um það fólk sem fólk um heiminn allan dáist mest að.

Listinn er kynjaskiptur en athygli vekur að tólf af þeim tuttugu konum sem ná á listann eru leikkonur, söngkonur eða sjónvarpsstjörnur. Á lista yfir karlana er hins vegar meirihlutinn virkur í stjórnmálum eða íþróttum.

YouGov hefur framkvæmt þessa könnun árlega síðan árið 2014. Microsoft-mógúllinn Bill Gates hefur vermt toppsætið síðan þá en þarf nú að láta sér annað sætið nægja. Í þriðja sæti á karlalistanum er kínverski forsetinn Xi Jinping, Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands er í því fjórða og leikarinn Jackie Chan í fimmta sæti.

Þegar litið er yfir kvennalistann er leikkonan Angelina Jolie í öðru sæti og Elísabet Bretadrottning í því þriðja. Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey vermir fjórða sætið og fjöllistakonan Jennifer Lopez situr í því fimmta.

Hástökkvarinn á karlalistanum er Teslu-frömuðurinn Elon Musk sem hoppar upp um fjögur sæti og situr sem fastast í því níunda. Á kvennalistanum eru nokkrar konur sem falla hratt niður listann. Þannig hefur pakistanska baráttukonan Malala Yousafzai fallið niður um átta sæti og vermir nú fjórtánda sætið. Fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton og spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres falla hvor um sig niður um fimm sæti, Clinton nú í þrettánda sæti og DeGeneres í því tuttugasta, en stöðu þeirrar síðarnefndu má rekja til ásakana um að eitrað andrúmsloft einkenni vinnuaðstöðu við spjallþátt hennar.

Hér fyrir neðan má sjá listana í heild sinni: