Julio Mora var um þrítugt þegar hann giftist ástinni sinni í laumi, Waldramina Quinteros. Það var þann 7. febrúar árið 1941 og eru hjónin enn saman.

Mora fæddist þann 10. mars árið 1910 og er orðinn 110 en Quinteros fæddist þann 16. október árið 1915 og er því 104 ára. Þau eru elstu núlifandi hjón í heimi samkvæmt heimsmetabók Guinness en samanlagður aldur þeirra er 215 ár. Það eru hins vegar til lengra hjónabönd en þeirra.

Hjónin hafa vakið mikla athygli heimspressunnar síðustu daga en áður en þau tóku við titli elstu hjóna í heimi voru það Charlotte og John Henderson, hjón í Austin í Texas sem státuðu af því. Samanlagður aldur þeirra var 212 ár og 52 dagar.

Mora og Quinteros eru við góða heilsu, en heimsfaraldur COVID-19 hefur haft sín áhrif á sálarlífið þar sem hjónin elska gæðastundir með fjölskyldunni. Þau eiga fjögur börn, ellefu barnabörn og 21 barnabarnabarn.

„Foreldrar mínar þrífast á sambandi við fjölskyldu sína,“ segir dóttir þeirra Cecilia við fréttamiðla í tilefni af heimsmetatitlinum. Hún bætir við að faðir hennar elski að horfa á sjónvarpið og drekka mjólk og að móðir hennar elski eftirrétti og að lesa dagblöðin á hverjum morgni.

Hjónin búa í höfuðborg Ekvador, Quito, og unnu bæði sem kennarar áður en þau fóru á eftirlaun.