Julia Gillard
Julia Gillard var ráðherra í áströlsku ríkisstjórninni frá 2007 til 2013, þar af forsætisráðherra frá 2010.

Ástralska vefútgáfan af breska fjölmiðlinum The Guardian stóð í janúar og febrúar fyrir kosningu á meðal lesenda sinna um hvað væri í þeirra huga ógleymanlegasta augnablikið í ástralskri sjónvarpssögu. Þegar upp var staðið hafði þingræða fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Juliu Gillard, sem nefnd hefur verið „kvenfyrirlitningaræðan“, hlotið nokkuð örugga kosningu í fyrsta sætið.

Forsaga þessarar 15 mínútna ræðu sem haldin var í ástralska þinginu 9. október 2012 er í stuttu máli sú að forseti neðri deildar þingsins, Peter Slipper, hafði sent frá sér textaskilaboð sem láku til blaðamanna og þóttu innihalda svæsna kvenfyrirlitningu. Vegna þessa krafðist Tony Abbott, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, þess að Peter segði af sér og bar fram vantrauststillögu á hann fyrir hönd sjórnarandstæðinga.

Sjálfri var Juliu stórlega misboðið vegna textaskilaboða Peters en hún var samt algjörlega á móti því að samþykkja vantrauststillöguna á þeim forsendum að Tony Abbott og fleiri í stjórnarandstöðunni sem fyrir tillögunni stóðu hefðu margsinnis sjálfir gerst sekir um samskonar kvenfyrirlitningu og þeir kröfðust þess nú að kostaði Peter þingsætið og ættu því sjálfir fyrir löngu að hafa sagt af sér … að því gefnu að það sama gilti um þá og Peter. Sagði hún m.a. að þótt orð Peters hefðu vissulega gengið fram af sér félli það samt auðveldlega í skuggann af tvöfeldninni í siðferði Tonys Abbott í þessum efnum og því kæmi ekki til greina að samþykkja vantraustið. Auk þess hafði dómsmál sem snerti Peter Slipper og þetta mál ekki verið til lykta leitt og rétt væri að bíða eftir niðurstöðunni í því áður en gripið yrði til aðgerða.

Hér er þessi þrumuræða í heild sinni, en hún hefur æ síðan hún var flutt verið mikilvægt innlegg í umræðu um kvenfyrirlitningu.