Sir Sean Connery, leikari sem er hvað þekktastur fyrir að túlka breska spæjarann James Bond, er látinn, níutíu ára að aldri. Þetta staðfestir fjölskylda leikarans í samtali við fréttastofuna BBC. Connery lést í svefni á Bahama-eyjum, en sonur hans segir að leikarinn hafi verið við slæma heilsu um nokkurt skeið.

Connery var fyrsti leikarinn til að túlka James Bond á hvíta tjaldinu og lék hann njósnarann alls í sjö Bond-myndum. Hann er af flestum talinn vera langbesti Bondinn. Meðal annarra mynda sem Connery lék í voru The Hunt for Red October, Highlander og The Rock. Þá hlaut hann Óskarsverðlaunin árið 1988 fyrir hlutverk sitt í The Untouchables.

Connery fæddist í Edinborg í Skotlandi þann 25. ágúst og fagnaði því níræðisafmæli sínu fyrir stuttu. Skotinn var virtur og dáður um heim allan og aðlaði Elísabet drottning hans árið 2000. Elísabet er einmitt meðal þeirra sem hafa minnst Skotans sjarmerandi:

Sorgardagur

Jason Connery, sonur hans, segir í samtali við BBC að leikarinn hafi verið umkringdur fjölskyldu sinni þegar hann lést.

„Við eigum öll bágt með að meðtaka þennan stóra viðburð því þetta er nýbúið að gerast og þó að faðir minn hafi verið veikur um nokkurt skeið,“ segir hann. „Þetta er sorgardagur fyrir alla þá sem þekktu og elskuðu föður minn og mikill missir fyrir allt fólkið víðs vegar um heim sem nutu hæfileika hans sem leikara.“

Framleiðendur myndanna um James Bond, Michael G. Wilson og Barbara Broccoli, fara fögrum orðum um leikarann.

„Hann var og verður ávallt upprunalegi James Bond en innreið hans í kvikmyndasöguna hófst með þessum ógleymanlegu orðum; Nafnið er Bond… James Bond. Hann gjörbreytti heiminum með grófri og skoplegri túlkun á kynþokkafulla og sjarmerandi njósnaranum. Hann ber án efa mikla ábyrgð á því hve vinsælar myndirnar urðu og við verðum honum ævinlega þakklát.“

Connery átti heimili á Bahama-eyjum en hann hafði oft fleygt því fram að hann myndi flytja þangað til frambúðar ef að Skotar fengju ekki sjálfstæði frá Bretlandseyjum. Connery barðist ötullega fyrir því að Skotland yrði sjálfstætt ríki og minnist Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, hans með hlýjum hug.

„Ég var miður mig þegar ég heyrði um andlát Sir Sean Connery. Þjóðin okkar syrgir einn ástsælasta son sinn,“ segir hún.

„Sean fæddist inn í verkamannastétt í Edinborg og varð alþjóðleg kvikmyndastjarna og einn af farsælustu leikurum heims því hann hafði hæfileika og lagði hart að sér. Sean verður minnst best sem James Bond – klassískur 007 – en hlutverkin hans voru mörg og fjölbreytt. Hann var goðsögn um heim allan en fyrst og fremst þjóðrækinn og stoltur Skoti.“