Hin 33ja ára gamla Lisa Landon frá New Hampshire í Bandaríkjunum var nýlega handtekin fyrir fíkniefnavörslu og áreitni. Hún var þó ekki alveg tilbúin til að sætta sig við það, þannig að hún braust inn í tölvukerfi fylkisins og notaði það til þess að láta ákærurnar á hendur sér falla niður, og sigldi til þess undir fölsku flaggi sem saksóknarinn Patrice Casian. Einnig skilaði hún inn fölsuðum skjölum varðandi þrjú mismunandi dómsmál.

Ráðabrugg Landons fór úrskeiðis þegar réttarmeinafræðingur sem falið hafði verið að gera hæfnismat á henni tók eftir að kærurnar hefðu verið látnar falla niður. Hann hafði þá samband við sýsluna til að spyrja hvort matsins væri enn þörf, þar sem væri búið að fella niður kærurnar.

„Skjalið átti að innihalda „a nolle prosequi“ (niðurfellingu kæra), skilað inn af aðstoðarsaksóknara sýslunnar, Patrice Casian, en það varð snögglega ljóst að skjalið, sem og önnur plögg í skjalinu, höfðu verið fölsuð,” stóð í úrskurði hæstaréttardómarans David Anderson.

Landon er einnig gert að hafa falsað dómaraúrskurð um niðurfellingu skjalagjalds í málsókn sem hún höfðaði á hendur sýslunni, ásamt því að hafa falsað tilskipun í forræðismáli sem hafði að gera með barn hennar og annan fjölskyldumeðlim. Hún stendur nú frammi fyrir einni ákæru fyrir að villa á sér heimildir og sex ákærum fyrir skjalafals.