Rannsóknarfólk við American University-háskólann í Washington DC í Bandaríkjunum gaf á dögunum út yfirlýsingu þess efnis að þegar spínati er breytt úr æta græna laufaforminu sem við þekkjum svo vel yfir í kolvetnisnanóþynnur geti það orkað sem hvati fyrir súrefnislækkunarviðbrögð í eldsneytisrafhlöðum.

Súrefnislækkunarviðbrögð eru eitt tveggja hvarfa sem eiga sér stað í eldsneytisrafhlöðum og málmloftrafhlöðum, og hafa þau talsverð áhrif á hversu mikla orku þessar rafhlöður geta gefið frá sér. Vísindafólk hefur lengi vitað að viss kolefnisefni geta verið hvati fyrir hvörfunum, en þau virka ekki alltaf jafn vel eins og hefðbundnari hvatar sem hafa platínu að stofni.

Rannsóknarfólkið vildi finna ódýra og minna eitraða leið til að útbúa skilvirkan hvata með því að notast við algengar náttúrulegar auðlindir. Reyndist spínat lausnin á því vandamáli.

„Þessi rannsókn bendir til þess að hægt sé að búa til sjálfbæra hvata úr náttúrulegum auðlindum,“ sagði Shouzhong Zou, efnafræðiprófessor við American University og aðalhöfundur rannsóknarinnar. „Aðferðin sem við prófuðum getur framkallað mjög virka kolvetnishvata úr spínati, sem er endurnýjanlegur lífmassi. Raunar stöndum við í þeirri trú að þetta sé bæði virkara og stöðugra heldur en platínuhvatarnir sem eru mest notaðir nú.“

Spínat er einkar hentugt í þennan tilgang vegna þess að það getur lifað við lágt hitastig, er gnægðarfullt og auðvelt í ræktun, og inniheldur mikið af járni og nitri sem eru ómissandi í þessari tegund hvata.

Þessar rannsóknir munu einna helst nýtast í rafhlöður fyrir rafbíla og vissar tegundir hernaðarbúnaðar. Næsta skref hjá rannsóknarfólkinu verður að setja hvatana úr rannsóknarstofunni inn í frumgerðir búnaðar, svo sem vetnisrafhlöður, til þess að sjá hvernig þeir virka og jafnframt þróa hvata úr öðrum plöntum.