Ég elska að búa til eitthvað nýtt í matinn um helgar því þá er nægur tími til að spá og spekúlera. Þessa pítsu datt ég niður á síðunni The Gastronomic Blog og er hún algjörlega tryllt. Mæli hiklaust með!

Pylsupítsa

Pítsadeig:

2 bollar volgt vatn
1 msk. þurrger
1 msk. sykur
1 tsk. sjávarsalt
1 msk. ólíuolía
5½ bolli hveiti

Aðferð:

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C og taka til tvær ofnplötur, eða pítsugrindur. Ef þið notið plötur þá klæðið þið þær með smjörpappír. Blandið vatni, geri og sykri saman í skál og leyfið þessu að bíða í 5-8 mínútur, eða þar til blandan byrjar að freyða.
Blandið þá salti, ólífuolíu og 4 bollum af hveiti saman við og vinnið vel saman. Bætið síðan hveiti saman við þar til deigið er hætt að vera klístrað. Það á í raun að vera þannig eftir nokkuð hnoð að ef maður ýtir í það með puttanum að það jafni sig aftur eftir smá stund. Skiptið deiginu í tvo hluta og búið til kúlur úr þeim. Setjið þær á hreinan borðflöt, setjið hreint viskastykki yfir og leyfið þeim að hefast í 10 til 15 mínútur.

Álegg:

8–10 pylsur, skornar í bita
4 meðalstórir laukar, saxaðir
3–4 msk. sterk tómatsósa
3–4 msk. sterkt sinnep
jalapeno (má sleppa)
chiliflögur (má sleppa)
salt og sykur
2 msk. ólíuolía
rifinn ostur

Aðferð:

Hitið olíuna í önnu yfir meðalhita og eldið lauk í 15 til 20 mínútur. Hrærið reglulega í lauknum og saltið. Bætið sykrinum saman við og eldið í 5 til 10 mínútur til viðbótar. Blandið tómatsósu og sinnepi saman. Smyrjið smá af sósunni á pítsubotninn. Setjið pylsur, lauk, jalapeno og rifinn ost ofan á. Penslið pítsukantana með ólífuolíu. Setjið pítsurnar síðan inn í ofn þangað til osturinn og kantarnir eru farnir að brúnast, eða í um 10 til 15 mínútur. Úr þessari uppskrift fást sirka 3 meðalstórar pítsur.