Tiger Woods var í byrjun maí í viðtali við golf.tv þar sem hann m.a. svaraði nokkrum spurningum áhorfenda og aðdáenda.

Ein spurningin var: Ef þú gætir farið aftur í tímann og gefið sjálfum þér eitt ráð, hvað yrði það?

Tiger þurfti ekki langan umhugsunarfrest:

„Að hlaupa ekki svona mikið. Í fimm eða sex ár hljóp ég meira en
30 mílur (50 km) á viku og eyðilagði með því líkama minn og hnén.“

Tiger er þarna að tala um árin eftir að hann gerðist atvinnumaður í golfi, tvítugur að aldri árið 1996, eftir magnaðan áhugamannaferil.

Óhætt er að segja að hann hafi á næstu árum verið yfirburðamaður á golfvöllum heimsins og sigraði hann í sínu fyrsta stórmóti sem atvinnumaður, Masters-mótinu, árið 1997.

Á næstu árum raðaði hann svo inn sigrunum og varð einn tekjuhæsti íþróttamaður allra tíma.

Meiðslin láta til sín segja

Eftir aldamótin fór hann að finna til eymsla í bæði baki og hnjám og svo fór að hann lagðist í fyrsta sinn undir hnífinn í desember 2002. Það tók sinn toll og á næstu tveimur árum spilaði hann sem skugginn af sjálfum sér.

Honum tókst svo með herkjum að rétta leik sinn við á árunum eftir það og allt fram til ársins 2008 en þurfti samt stöðugt að vera í aðgerðum, bæði á baki og hnjám. Má segja að hann hafi verið fastagestur á skurðborðinu.

Að því kom svo að Tiger nánast hvarf af sjónarsviðinu eftir 2008 og á árunum 2009 til 2018 vann hann ekki eitt einasta stórmót.

Eflaust hafa einkamálin líka haft eitthvað að segja um það, en enginn vafi leikur á að það voru fyrst og fremst meiðslin sem öftruðu honum frá því að komast í fyrra form.

Á vonandi mikið eftir

En Tiger er ekki hættur og getur enn leikið eins og kóngur. Það sýndi hann í fyrra þegar hann vann sitt fimmta Masters-mót. Þar með er hann búinn að vinna 15 stórmót á ferlinum og á enn möguleika á að, a.m.k. jafna met Jacks Nicklaus sem sigraði í 18 stórmótum á sínum ferli.

Telja margir engan vafa leika á að ef Tiger hefði ekki glímt við öll þessi meiðsli í öll þessi ár væri hann fyrir löngu búinn að slá það met. Og þar sem hann kennir hlaupunum um er ekki skrítið að þetta skyldi vera svarið við spurningunni.

Besta höggið

Til gamans má nefna að á meðal spurninganna sem hann svaraði einnig var hvaða högg hann teldi það besta. Sá sem þetta skrifar átti von á að hann nefndi höggið magnaða á 16. holu í Mastersmótinu 2005, en það var honum ekki efst í huga heldur þetta:

Hér má hins vegar rifja upp áðurnefnt högg hans á Masters 2005.

Mynd: PGA