Í vikunni hófust á ný tökur á sjöundu myndinni í hinni sívinsælu kvikmyndaseríu Mission: Impossible, en gert hafði verið hlé á framleiðslu myndarinnar þegar Covid-19 faraldurinn hélt innreið sína fyrr á árinu. Nýverið kom út myndband þar sem áhorfendur fá að berja augum eitt af hinum djarflegu áhættuatriðum sem aðalleikarinn, Tom Cruise, leikur í.

Greinilegt er af myndskeiðinu að umfang bíómyndarinnar mun verða gríðarlegt. Fyrri myndir úr seríunni hafa gjarnan einkennst af stórbrotnum áhættuatriðum sem engin fordæmi eru fyrir, og hafa þau enn fremur langflest verið leikin af Cruise sjálfum.

Þó ekki sé margt enn vitað um fyrirhugaðan söguþráð myndarinnar þá hefur það komið í ljós að Christopher McQuarrie — sem leikstýrði síðustu tveimur myndum í seríunni, Mission Impossible: Rogue Nation og Mission Impossible: Fallout — mun einnig sinna leikstjórn og handritsskrifum hér. Hafa hann og Cruise unnið hörðum höndum nýverið við að undirbúa áhættuatriðin fyrir bæði þessa sjöundu mynd seríunnar og einnig þá áttundu, sem búið er að staðfesta.

Tökur standa nú yfir á myndinni í Noregi, og norski vefmiðillinn VGTV gaf í gær út myndskeið þar sem áhorfendur fá í fyrsta sinn að sjá hve mögnuð áhættuatriðin verða í þetta sinn. Myndskeiðið kom upprunalega frá Twitter-notandanum ZachMacieI, og í því má sjá Cruise aka mótorhjóli af stökkpalli ofan á fjalli og fara svo í fallhlíf til jarðar, í fylgd þyrlu sem útbúin er myndavélum.

Lítið er vitað að svo búnu um hvaða þættir í söguþræðinum verða til þess að söguhetjan ákveður að taka þessa óvenjulegu leið ofan af fjallinu, en þykir þó glæfraflugið smellpassa inn í almennt andrúmsloft seríunnar að því leyti að það er ekki bara magnað að fylgjast með, heldur auðvitað gjörsamlega galin hugmynd líka.

Cruise hefur getið sér orð fyrir að vera viljugur til að framkvæma áhættuatriði sem öðrum leikurum dettur ekki til hugar að hætta sér út í, og virðist hann enn við sama heygarðshornið ef marka má þetta myndskeið. Einnig er nokkuð ljóst að Mission: Impossible 7 verður stórkostlegt sjónarspil.