Tom Cruise
Tom Cruise ætlar sér út í geim. Mynd: Gage Skidmore.

Tom Cruise, sem verður 58 ára 3. júlí, er þekktur fyrir áhuga sinn á flugi, enda þaulreyndur flugmaður. Ekki síður er hann þekktur fyrir að framkvæma nánast öll áhættuatriðin í myndum sínum sjálfur, en sum þeirra hafa verið afar tilkomumikil og um leið stórhættuleg í framkvæmd eins og aðdáendur hans og Mission Impossible-myndanna hafa upplifað á undanförnum árum.

Þegar bandaríska fréttaveitan Deadline Hollywood skýrði frá því á mánudag að Tom væri kominn í viðræður við Elon Musk, aðalmann SpaceX, blandaðist fáum blaðamönnum hugur um að hér væri alvara að baki og eitthvað risastórt í uppsiglingu.

Þrátt fyrir að fyrirspurnum hafi síðan bókstaflega rignt yfir alla sem tengjast SpaceX og Tom Cruise hefur enginn af þeim enn svarað því beint um hvaða verkefni sé að ræða. Telja menn þó nokkuð víst að ekki sé verið að tala um nýja Mission Impossible-mynd heldur glænýja sögu. Í ljós kom svo að sjálf Geimvísindastofnum Bandaríkjanna, NASA, er aðili að viðræðunum og staðfesti einn af stjórnendum NASA, Jim Bridenstine, það  með tísti á Twitter í gær að um væri að ræða hugmynd Toms um gerð nýrrar myndar.

„NASA er spennt fyrir að vinna með Tom Cruise að kvikmynd um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni. Við þörfnumst vinsælla miðla til að blása nýjum kynslóðum verkfræðinga og vísindamanna í brjóst áhuga á að gera metnaðarfullar áætlanir NASA að veruleika“ sagði hann.

Og Elon Musk svaraði að bragði: „Ætti að verða mjög gaman.“

Ekki er enn vitað til þess hvort og þá hvaða kvikmyndaver tengist viðræðunum.

Forsíðumyndin er af Alþjóðlegu geimstöðinni. Mynd: NASA.