Þýska áhugamannaliðið SG Ripdorf/Molzen II tapaði nýverið leik 37-0 eftir að hafa stundað samskiptafjarlægð við andstæðinga sína sökum áhyggna af kórónaveirunni.

Llðið tefldi einungis fram sjö leikmönnum í leiknum, en það er lágmarkstala leikmanna sem þarf til að keppni geti farið fram. Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi var sú að andstæðingar þeirra, SV Holdenstedt II, höfðu í leiknum þar á undan mætt leikmanni sem síðar reyndist hafa verið sýktur af veirunni.

Þrátt fyrir að Holdenstedt II-liðið hafi reynst lausir við Covid-19 þóttu ráðamönnum Ripdorf aðstæður ekki nógu öruggar til að leggja allt í leikinn. Í þessum flokki þýska boltans er þó 200 evru sekt (um það bil 32.000kr) lögð við því að gefa leik.

“Það eru miklir peningar fyrir okkur, sérstaklega í heimsfaraldrinum,” sagði stjórnarformaður Ripdorf, Patrick Ristow. “Við erum þakklátir fyrir að þessir sjö leikmenn buðu sig fram.“

“Þegar leikurinn fór af stað sendi einn af okkar mönnum boltann til mótherjans og svo fór liðið bara til hliðar. Leikmenn Holdenstedt skildu ekki hvað var að gerast, en við vildum ekki hætta á neitt.”

Liðið virti tveggja metra regluna allan leikinn og fóru leikmenn því aldrei í sóknarlegt eða varnarlegt návígi við andstæðingana. Því fór sem fór – næstum því 40 marka sigur, sem jafngildir marki á rúmlega tveggja mínútna fresti.

Áður hafði liðið beðið deildina um frestun á leiknum, en þeirri beiðni var synjað. „Það var engin fullkomin lausn á þessu,” sagði Ristow. “Við fórum því þessa leið.”