Ég elska að koma fólki á óvart! Þess vegna finnst mér æðislega gaman að baka gúmmulaði sem kemur á óvart. Eins og þessar bollakökur.

Þessi fylling krakkar, hún er ekki af þessum heimi! Ég bætti um betur og bjó til hindberjasykur til að drissa ofan á kökurnar. Þið getið sleppt honum, en þá væruð þið að missa af svo ofboðslega miklu!

Þessa uppskrift er að finna í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, og var það Sunna Gautadóttir sem myndaði kökurnar, eins og allt annað í bókinni.

Gerið ykkur glaðan dag með þessum glaðningi!

Kókos- og hindberjaglaðningur

Bollakökur:

225 g mjúkt smjör
1 3/4 bolli sykur
3 egg
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
2 3/4 bolli hveiti
1 3/4 bolli kókosrjómi (coconut cream)

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C og takið til múffuform, ca 25 stykki. Blandið smjöri og sykri vel saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið vanilludropunum saman við og því næst eggjunum, einu í einu. Blandið salti, lyftidufti, matarsóda og hveiti saman í annarri skál. Hellið kókosrjómanum í litla skál og hrærið vel uppí honum. Blandið hveitiblöndunni og rjómanum saman við smjörblönduna á víxl, byrjið og endið á hveitinu. Deilið deiginu á milli múffuformanna og bakið í um 28 mínútur. Leyfið kökunum að kólna.

Hindberjafylling:

3 msk maíssterkja
1/2 bolli sykur
170 g frosin hindber
1/3 bolli vatn

Aðferð:

Blandið maíssterkju og sykri saman í litlum potti og þeytið þar til það er búið að blandast vel saman. Bætið hindberjum og vatni saman við og þeytið. Náið upp suðu á blöndunni og leyfið henni að sjóða í 2-4 mínútur, eða þar til hún hefur þykknað. Standið yfir blöndunni og merjið hindberin með sleif eða sleikju þegar blandan sýður. Setjið blönduna í skál, hyljið hana með plastfilmu og leyfið henni að kólna í ísskápnum.

Krem:

225 g mjúkt smjör
3 1/2 bolli flórsykur
4 msk kókosmjólk
1 tsk vanilludropar

Aðferð:

Þeytið smjörið í 2-3 mínútur og bætið því næst restinni af hráefnunum saman við. Skerið kökubút úr kökunum miðjum, en passið að fara ekki alveg niður á botn. Setjið kalda hindberjafylllinguna í kökurnar og skreytið með kreminu.

Hindberjasykur:

vökvinn sem kemur af hindberjunum þegar þau afþiðna
sykur

Aðferð:

Blandið vökvanum og sykrinum saman þar til áferðin er líkt og um púðursykur að ræða. Drissið yfir bollakökurnar og geymið restina í loftþéttu íláti. Mér finnst líka dásamlegt að drissa kókosmjöli yfir kökurnar. Nammi, namm!