BYGGLEK-línan mætir í verslanir IKEA vestan hafs í október. Um er að ræða samstarfsverkefni milli LEGO og IKEA, það fyrsta sinnar tegundar.

Í BYGGLEK-línunni eru hirslur sem leysa vanda sem hefur plagað marga foreldra – hvernig á að geyma LEGO-kubba til að lágmarka heimsins versta sársauka þegar stigið er ofan á þá.

Fjórar mismunandi vörur eru í BYGGLEK-línunni, til dæmis stórir og litlir kassar fyrir kubbana. Í línunni eru einnig kassar í þremur mismunandi stærðum með lokum sem svipa til LEGO-kubba, þannig að hægt er að byggja ofan á lokin.

Markmið línunnar er að leysa vanda foreldra með hvernig á að geyma LEGO-kubbana en einnig svo börn geti leikið sér með LEGO-kubbana inni í BYGGLEK-kössunum, byggt þar listaverk og haft þau til sýnis.