Ökumenn í bænum Hordle í Hampshire ráku upp stór augu á dögunum þegar sást til Citroen C4-bifreiðar með málmgrind af gróðurhúsi í vafasömu jafnvægi ofan á þakinu. Út úr einu farþegasætanna seildist jafnframt handleggur sem studdi við þakbúann.

Theresa Mulberry var farþegi í bílnum á bak við og tók upp myndskeið. Keyrðu þau á eftir bílnum dularfulla rétt rúma þrjá kílómetra áður en hann beygði inn á hliðarveg.

“Fyrstu viðbrögðin mín voru bara “Guð minn góður, hvað er í gangi?”” sagði Mulberry. “Maðurinn minn var að keyra þannig að ég fór bara að taka þetta upp. Þetta var galið.”

“Við eltum þau um þrjá kílómetra og það var hægt að heyra þetta skrölta um þarna á þakinu. Til allrar hamingju var ekkert gler heldur bara tómur ramminn, annars hefði þetta getað flogið út um allt. Þetta er eins og eitthvað sem maður gæti búist við að sjá á Indlandi, en ekki hér — ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,” sagði hún.

Þó undarlegt megi virðast er þetta ekki í fyrsta sinn á þessu ári sem ökumaður ákveður að skella sér út á götu með gróðurhúsið sitt áfast. Maður einn í Rochdale í Manchester var í janúar síðastliðnum fangaður á myndavél með sitt gróðurhús á þakinu, og var hann sagður hafa í tvígang næstum því fellt símastaura  Ekki fylgdi sögunni hvort ökumaðurinn í Hampshire á dögunum komst klakklaust á áfangastað.