Kórónaveiran hefur leikið mannfólkið grátt á undanförnum vikum og mánuðum, kostað fjölda mannslífa og m.a. leitt til samkomubanns og heimasóttkvíar, sem aftur hefur leitt til fjöldalokana verslana, veitingahúsa, gististaða og samkomuhúsa. Öll bíóhúsin á Íslandi þurftu t.d. að loka og um leið hefur kvikmyndadagskrá þeirra heldur betur riðlast, en hún er að stóru leyti ákveðin með margra mánaða fyrirvara, a.m.k. hvað flestar myndir frá stóru dreifingaraðilunum varðar.

Góðu fréttirnar eru auðvitað að þetta ástand gengur yfir og opnuðu bíóin á ný 4. maí. Til að byrja með verður sætaframboð takmarkað þar sem fólk má ekki sitja of þétt saman en af þessu tilefni tókum við saman dálítið yfirlit yfir þær helstu myndir sem væntanlegar eru í bíó frá maí og út árið. Þegar er ljóst að á meðal mynda sem verða í sýningu frá og með deginum í dag og eitthvað frameftir maí eru m.a. Bad Boys For Life, Bloodshot, Little Woman, Áfram (teiknimyndin), Síðasta veiðiferðin, Jojo Rabbit, The Invisible Man, Sonic the Hedgehog, The Call of the Wild og Birds of Prey.

Við munum uppfæra þessa samantekt eftir því sem nánari upplýsingar liggja fyrir og þurfa þeir sem þetta lesa að taka öllum upplýsingum um frumsýningardaga með miklum fyrirvara. Athugið að þetta eru mestmegnis þekktustu myndirnar frá stóru, erlendu dreifingarfyrirtækjunum og munum við bæta inn öðrum myndum, þ. á m. þeim íslensku, eftir því sem upplýsingar liggja fyrir á næstu dögum, vikum og mánuðum.

My Spy – maí/júní

Gamanmyndin My Spy átti að koma í bíó hér á landi í maí en hana var búið að frumsýna í nokkrum löndum í Asíu auk Ástralíu og var hún einnig byrjuð í sýningu í Englandi þegar kórónaveiran breytti öllu. Hvort hún komi í bíó hér á landi úr þessu er óvíst, en það væri dálítil synd ef svo yrði ekki því hún hefur hlotið mjög góða dóma og þykir léttleikandi og ljúf skemmtun fyrir alla aldurshópa og mjög fyndin.

Myndin fjallar um CIA-manninn og fyrrverandi sérsveitarmanninn JJ sem fær það verkefni að fylgjast með og gæta öryggis mæðgnanna Kate og Sophie en þær hafa fjölskyldutengsl við hættulegan glæpamann sem grunaður er um að vera að smíða kjarnorkusprengju. Þessi gæsla fer dálítið úrskeiðis þegar hin níu ára Sophie uppgötvar felustað JJ og neyðir hann í framhaldinu til að kenna sér að verða njósnari – þótt JJ sé síður en svo hæfur í það.

Leikstjóri myndarinnar er Peter Segal sem á m.a. að baki Adam Sandler-myndirnar Anger Management, 50 First Dates og The Longest Yard ásamt Get Smart og Grudge Match og hermt er að Dave Bautista komi hér hressilega á óvart fyrir gamanleik sinn og þá ekki síður hin unga Chloe Coleman sem leikur Sophie og virðist eiga bjarta framtíð fyrir höndum í leiklistinni enda svo gott sem fædd leikkona.

I Still Believe – maí/júní

Önnur mynd sem sýningar voru hafnar á í nokkrum löndum áður en veiruskömminn lokaði bíóunum er sannsögulega myndin I Still Believe sem rétt eins og My Spy hér fyrir ofan hefur hlotið mjög góða dóma þar sem hún hefur verið sýnd og væri slæmt að missa hana endanlega úr íslenskum bíóhúsum, en til stóð að frumsýna hana hér á landi í maí.

Myndin segir frá tímabili í ævi bandaríska söngvarans og lagasmiðsins Jeremys Camp og hefst nokkru áður en hann varð tvítugur árið 2000 og ákvað að ganga í hjónaband með unnustu sinni, Melissu, en hún hafði þá greinst með krabbamein sem fljótlega eftir brúðkaupið varð ljóst að myndi draga hana til dauða. Myndin þykir einstaklega vel gerð og leikin og hafa margir sagt hana með betri ástarsögum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum.

Það eru þau KJ Apa og Britt Robertson sem fara með hlutverk Jeremys og Melissu og þau Gary Sinise og Shania Twain leika foreldra Jeremys, Tom og Terry Camp, en leikstjórar eru bræðurnir Andrew og Jon Erwin.

The Woman in the Window – maí/júní

The Woman in the Window er nýjasta mynd enska leikstjórans Joes Wright sem gerði m.a. Atonement og The Darkest Hour og er byggð á samnefndri bók bandaríska rithöfundarins Daniels Mallory sem skrifar undir höfundarnafninu A. J. Finn, en hún kom út fyrri hluta árs 2018 og fór í toppsæti metsölulista New York Times.

Þetta er sálfræðitryllir um konu eina, Önnu Fox, sem vegna sjúklegrar víðáttufælni getur ekki yfirgefið íbúð sína í New York. Dag einn kynnist hún nágrannakonu sinni, Jane Russell, sem auðsjáanlega glímir við sín eigin vandamál. Þegar Jane síðan hverfur eftir vægast sagt vafasama atburðarás hefst söguflétta sem á heldur betur eftir að koma á óvart. Með hlutverk kvennanna tveggja fara Amy Adams og Julianne Moore en í öðrum stórum hlutverkum eru Gary Oldman, Jennifer Jason Leigh, Anthony Mackie, Wyatt Russell og Tracy Letts sem einnig skrifaði handrit myndarinnar.

Þótt The Woman in the Window sé hér sögð með frumsýningardag í maí er óvíst hvort það verði raunin eins og með aðrar myndir hér fyrir ofan en á meðan hún er ekki endanlega afskrifuð úr maí látum við það standa þar til annað kemur í ljós.

Artemis Fowl – maí/júní

Á þessari stundu er einnig allsendis óvíst hvort Artemis Fowl verði yfir höfuð sýnd í bíó því Disney virðist hafa tekið hana af dagskrá í Bandaríkjunum með það fyrir augum að frumsýna hana í sumar í sjónvarpskerfi sínu, Disney+, og það liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað hvort hún verði sýnd í kvikmyndahúsum í öðrum löndum. Myndin átti upphaflega að koma í bíó í apríl en var svo frestað fram í lok maí áður en Disney tók fyrrnefnda ákvörðun. Við höfum hana hér með í þessari samantekt ef ske skyldi að hún komi í hérlend bíó þegar þau verða loksins komin á fullt á ný.

Myndin er eins og flestir vita byggð á samnefndri skáldsögu Eoins Colfer sem kom út árið 2001 og segir frá stórbrotnum ævintýrum hins tólf ára gamla Artemis Fowl sem leitar horfins föður síns um leið og hann hann uppgötvar að faðir hans var langt frá því að vera sá sem hann sýndist og bjó yfir mörgum leyndarmálum – sem nú kemur í hlut Artemis að ráða í og leysa. Myndin er í leikstjórn Kenneth Branagh, en í hlutverkum feðganna eru þeir Colin Farrell og Ferdia Shaw og er þetta fyrsta leiklistarhlutverk þess síðarnefnda.

Military Wives – maí/júní

Military Wives er eftir leikstjórann Peter Cattaneo sem er einna þekktastur fyrir að hafa sent frá sér stórsmellinn The Full Monty árið 1997. Myndin er gerð eftir handriti Rosanne Flynn og Rachel Tunnard og byggir á sönnum atburðum sem voru einnig innblástur bresku gamanþáttanna The Choir en þeir slógu í gegn í bresku sjónvarpi á árunum 2006 til 2011. Sagan er um hóp breskra kvenna sem ákveður að stofna kór þegar eiginmenn þeirra og feður eru sendir til Afganistans að berjast við talibana og önnur óvinveitt öfl. Í fyrstu gengur frekar brösuglega fyrir konurnar að finna rétta tóninn en það kemur og áður en varir eru þær og þetta framlag þeirra farið að vekja athygli langt umfram það sem nokkur átti von á.

Military Wives, sem er með Kristin Scott Thomas, Sharon Horgan, Emma Lowndes og Jason Flemyng í stærstu hlutverkunum, átti upphaflega að vera ein af apríl-myndum bíóanna hér á landi en hún hefur fengið fína dóma og er sögð hitta á alla réttu takkanna hjá móttækilegum gamanmyndaunnendum. Talað hefur verið um hana sem gott dæmi um „crowd-pleaser“. Það er enn von um að hún verði sýnd í bíó og á meðan svo er höldum við henni inni í þessari samantekt.

Spiral: From the Book of Saw – maí/júní

Spiral er níunda Saw-myndin en sagan í henni er hugarfóstur Chris Rock sem varð afar hrifinn af fyrstu Saw-myndinni árið 2004 og fékk í framhaldinu þá hugmynd sem hér er orðin að veruleika. Hann er einnig einn af framleiðendunum myndarinnar ásamt því að leika aðalhlutverkið, lögreglumanninn Zeke Banks, sem ásamt nýjasta vinnufélaga sínum, William Schenk (Max Minghella), tekst á við að leysa vægast sagt dularfulla morðgátu sem minnir bæði hann og aðra sem til þekkja, þ. á m. lögreglumanninn Marcus (Samuel L. Jackson), óþyrmilega á fortíðina. Áður en langt um líður kemur í ljós að þeir þremenningar eru í raun orðnir aðalþátttakendurnir í flóknum morðleik sem einhver sem þekkir Saw-söguna vel hefur búið til.

Myndin er ein af þeim sem áttu að koma í bíó í maí en hefur verið frestað án þess þó að á hana sé komin önnur dagsetning sem gefur þá enn von um að hún verði sýnd fljótlega eftir að samkomubanni lýkur. Við uppfærum þær upplýsingar ef og þegar nýjar berast.

Uppfært 2. maí: Þær fréttir voru að berast að frumsýningu Spiral hafi verið frestað til 22. maí 2021.

Greyhound – 12. júní

Greyhound er þriðja myndin sem Tom Hanks skrifar sjálfur handritið að en sagan er sótt í bókina The Good Shepherd eftir C. S. Forester sem kom út árið 1952 og er að hluta byggð á sönnum atburðum,. Þótt myndin sé hér sett á 12. júní er engan veginn á hreinu að það standist en hana átti upphaflega að frumsýna 22. mars. Eftir að hafa verið frestað til 12. júní var hún hins vegar tekin alfarið af útgáfuáætlun Sony Pictures í Bandarikjunum án þess þó að það væri á hreinu hvort hún yrði sýnd í bíó í öðrum löndum. Af þeim sökum höldum við henni inni í þessari samantekt þar til annað kemur í ljós.

Myndin gerist árið 1942 og segir frá sjóliðsforingjanum Ernest Krause (Tom Hanks) sem fær það verkefni að fylgja vöruskipalest frá Bandaríkjunum til Evrópu sem skipstjóri á tundurspillinum USS Keeler (dulnefni: Greyhound) og verja hana árásum kafbáta Þjóðverja. Ferðin reynist hin mesta hættuför og Ernest lendir í að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem honum hafði aldrei dottið í hug að hann myndi standa frammi fyrir og eru nálægt því að buga hans andlega þrek.

Leikstjóri er Aaron Schneider og með stærstu hlutverkin fyrir utan Tom fara þau Elisabeth Shue, Stephen Graham og Rob Morgan.

A Hidden Life – júní

A Hidden Life er nýjasta mynd Terrence Malick (The Tree of Life, The Thin Red Line, Badlands) sem skrifar einnig handritið en sagan er byggð á sönnum atburðum. Myndin var frumsýnd á Cannes-kvikmyndahátíðinni í fyrra þar sem hún var tilnefnd til Gullpálmans sem besta myndin og hefur síðan sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum á ýmsum kvikmyndahátíðum. Vonandi fáum við að njóta hennar hér á landi á stóru tjaldi í bíó en eins og með aðrar myndir hér fyrir ofan er það ekki endanlega ljóst hvort sú verður raunin.

Myndin gerist í Austurríki og segir frá bóndanum Franz Jägerstätter, eiginkonu hans, Franzisku og þremur dætrum. Þegar Þjóðverjar innlima Austurríki án mikillar mótspyrnu beytist líf þeirra verulega enda er Franz gert að fara í herþjálfun fjarri fjölskyldu sinni. Hann fær svo að snúa aftur heim eftir að Þjóðverjar hertaka Frakkland en er svo kallaður í herinn þegar þeir ráðast inn í Pólland 1939. Þá neitaði Franz hins vegar að sverja hollustueið við Hitler og Þriðja ríkið þrátt fyrir að vita vel að þar með gæti hann verið að undirrita sinn eiginn dauðadóm.

Í aðalhlutverkum eru þau August Diehl, Valerie Pachner og Maria Simon og þess má geta að þetta er síðasta myndin sem þeir Bruno Ganz og Michael Nyqvist léku í.

Tenet – 17. júlí

Nýjasta mynd Christophers Nolan, Tenet, er væntanleg í bíó 17. júlí og hefur sú dagsetning ekki breyst frá upphaflegri ákvörðun. Gangi hún eftir er Tenet fimmta mynd Christophers sem er frumsýnd á þessari sömu dagsetningu og hefur verið talað um að 17. júlí sé lukkudagur hans.

Myndin, sem er með þeim John David Washington, Robert Pattinson, Elizabeth Debicki, Dimple Kapadia, Michael Caine, Kenneth Branagh, Himesh Patel og Martin Donovan í helstu hlutverkum, er spennuþrungin vísindaskáldsaga og er hún sögð fjalla um sérsveitarmann sem er vakinn upp frá dauðum til að að fara aftur í tímann og stöðva þá sem koma þriðju heimsstyrjöldinni af stað. Þessa sögulýsingu ber þó að taka með fullum fyrirvara því handriti myndarinnar og þar með söguþræði hefur verið haldið svo leyndum að margir af leikurunum vita ekki einu sinni fyrir víst um hvað myndin fjallar nema að takmörkuðu leyti.

Hér fyrir neðan er fyrsta stiklan úr Tenet og getur því hver og einn reynt að giska á hvert söguefnið er í raun og veru. Þess má geta að útiatriði myndarinnar eru tekin upp í sjö löndum, þ.e. Danmörku, Noregi, Eistlandi, Indlandi, Bretlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum.

Mulan – 22. júlí

Mulan er nýjasta myndin frá Disney í svokallaðri live-action-seríu sem gat síðast af sér myndirnar Dumbo, Aladdin, Lion King og Maleficent: Mistress of Evil. Mulan var upphaflega ætlaður frumsýningardagurinn 27. mars en er nú komin með dagsetninguna 24. júlí í Bandaríkjunum og verður frumsýnd tveimur dögum fyrr hér á landi ef að líkum lætur.

Myndin er eins og flestir vita leikin útgáfa af samnefndri teiknimynd sem Disney sendi frá sér árið 1998 en hún var aftur byggð á kínversku þjóðsögunni um hina hugumstóru Hua Mulan sem dulbjó sig sem karlmann svo hún gæti komið í stað föður síns og barist í her kínverska keisarans við innrásarlið Húna frá Mongólíu, en keisarinn hafði fyrirskipað að einn karlmaður úr hverri fjölskyldu skyldi að ganga í herinn. í tólf ár tókst Mulan að leyna kyni sínu í hernum og ávann sér um leið ótakmarkaða virðingu fyrir bardaga- og leiðtogahæfileika sem nýttust til að sigrast á her Húna og gerðu hana að þjóðhetju.

Myndin er í leikstjórn hinnar nýsjálensku Niki Caro (Whale Rider, North Country, The Zookeeper’s Wife) og í aðalhlutverki er ein þekktasta og dáðasta leikkona Kínverja, Liu Yifei, sem hefur verið nefnd „álfkonan“ í heimalandinu vegna unglegs útlits en hún verður 33 ára í ágúst.

Mulan mun að mestu fylgja eftir sögugerðinni í 1998-teiknimyndinni en er sögð „dekkri“ að ýmsu leyti sem leiddi til þess að hún fékk aðgangsstimpilinn PG-13 í Bandaríkjunum. Af helstu breytingum öðrum má nefna að í þessari mynd er nornin Xian Lang (leikin af Gong Li) orðin aðalóvinur Mulan, en hún er helsti bandamaður Bori Khan (Jason Scott Lee) sem var aðalóvinurinn í teiknimyndinni. Einnig var ákveðið að sleppa söngvunum sem voru í teiknimyndinni til að gera ævintýrið meira „fullorðins“ og er aðallag hennar, Reflection, nú einungis notað sem bakgrunnstónlist hér.

Sponge on the Run – 31. júlí

Hinn stórskemmtilegi sjávarsvampur, Svampur Sveinsson, snýr aftur á hvítu tjöldin í lok júlí eftir að hafa upphaflega átt að mæta þar til leiks í maí. Þetta er þriðja bíómyndin um Svamp og félaga og hefur sú breyting orðið á teikningunum að þær eru nú tölvugerðar en ekki handteiknaðar eins og hefur verið.

Í þetta sinn segir frá því þegar einum besta vini og um leið sambýlissnigli Svamps, Gary, er rænt og í ljós kemur að það er hinn voldugi Poseidon sem ber ábyrgðina, en hann heldur að öllu jöfnu til í glamúrborginni Atlantis. Ekkert annað kemur til greina en að frelsa Gary úr ánauðinni og því halda þeir Svampur og Patrik krossfiskur af stað til Atlantis og lenda í vægast sagt furðulegum ævintýrum á leiðinni – sem eru þó ekkert á við furðulegheitin sem bíða þeirra í Atlantis. Um leið rifjar Svampur upp hvernig þeir Gary hittust fyrst þegar þeir voru báðir mjög ungir og komust að því að hvað sameinaði þá.

Nánast allir sem talað hafa fyrir persónur þessara fjörugu teiknimynda í gegnum árin endurtaka hér þá raddsetningu á ný en auk þeirra koma fram nýjar og misfurðulegar persónur og karkaterar sem m.a. eru leiknir af Keanu Reeves, Akwafinu og Snoop Dogg sem leikur reyndar einhvers konar ýkta útgáfu af sjálfum sér. Þess má geta fyrir þá sem þekkja stuttu teiknimyndirnar vel að myndin sækir að nokkru leyti efnishugmyndina í þátt sem á ensku hét Have You Seen This Snail og var þriðji þáttur í fjórðu seríunni árið 2005.

Þess ber einnig að geta að myndin er tileinkuð minningu höfundar Svamps, Stephens Hillenburg, sem lést í nóvember 2018, aðeins 57 ára að aldri.

Wonder Woman 1984 – 14. ágúst

Annarri Wonder Woman-myndinni með ísraelsku leikkonunni Gal Gadot í hlutverki undrakonunnar ódauðlegu, Díönu Prince, var upphaflega ætlaður frumsýningardagur í desember 2019 enda lauk tökum á henni sumarið 2018. Síðan var ákveðið að endurskjóta nokkur atriði í henni (og/eða taka upp ný – við vitum það ekki) sumarið 2019 og í kjölfarið var frumsýningunni frestað fram í mars á þessu ári og síðan til 5. júní. Nú hefur verið ákveðið að frumsýna hana 14. ágúst.

Lítið hefur verið gefið upp um söguna annað en það sem kemur fram í stiklunni, en hún er  samin af leikstjóranum Patty Jenkins og einum aðalmanna DC-Comics, Geoff Jones, en þau tvö sömdu einnig söguna í fyrri myndinni. Nokkur lykilatriði eru að myndin gerist árið 1984 eins og heiti hennar gefur til kynna, Steve Trevor (Chris Pine) er enn sprækur þrátt fyrir að hafa dáið í fyrri myndinni (hvernig það er látið ganga upp er mikið leyndarmál) og það eru þau Kristen Wiig og Pedro Pascal sem leika „vondu kallana“, annars vegar hina öfundsjúku Barböru Ann Minerva, öðru nafni Cheetah, og hins vegar þann slóttuga fjölmiðlamann Maxwell „Max“ Lord sem er álíka sleipur og áll í olíu og sannarlega ekki allur þar sem hann er séður. Við báða þessa karaktera ættu lesendur DC-teiknimyndablaðanna að kannast enda hafa þeir og Undrakonan lengi átt í alls kyns útistöðum í þeim þótt þau verði bæði kynnt til sögunnar í þessari mynd.

Þess má geta að Wonder Woman 1984 er níunda myndin í hinum sameinaða ofurhetjuheimi DC-Comics og er á eftir Birds of Prey í röðinni en næstu DC-myndir, sem verða allar frumsýndar á næsta ári, eru ný Batman-mynd með Robert Pattinson í hlutverki Batmans, ný Suicide Squad-mynd og svo fyrsta myndin um antíhetjuna Black Adam sem verður leikinn af Dwayne Johnson.

Bill and Ted Face the Music – 21. ágúst

Bill and Ted Face the Music er ein af fáum myndum í þessari samantekt sem hafa ekki verið færðar til frá upphaflega ákveðnum frumsýningardegi þegar þetta er skrifað. Hér hittum við á ný þá félaga Theodore „Ted“ Logan og William „Bill“ S. Preston (Keanu Reeves og Alex Winter), en þeir gerðu garðinn frægan á árunum 1989 og 1991 í myndunum Bill & Ted’s Excellent Adventure og Bill & Ted’s Bogus Journey þar sem þeir sprelluðu margt og mikið og fóru í gegnum tíma og rúm í þeim tilgangi að láta draum sinn um að verða frægir tónlistarmenn rætast.

Í þessu framhaldi hittum við þá félaga fyrir aftur, en þeir eru nú miðaldra fjölskyldumenn sem lifa tiltölulega einföldu lífi en hafa þó ekki alveg gefist upp á æskudrauminum og eru enn að láta sig dreyma um að semja lag sem slær í gegn. Þegar gestur frá framtíðinni kemur í að máli við þá og segir þeim að þeir verði að semja lag á 78 mínútum til að bjarga mannkyninu og alheiminum öllum frá tortímingu þurfa þeir að leggja sig meira fram en nokkurn tíma áður og fá til þess aðstoð frá fjölskyldum sínum og gömlum vinum, þ. á m. manninum með ljáinn sem á ný er hér leikinn af William Sadler.

Myndin er skrifuð af þeim sömu og skrifuðu fyrri myndirnar tvær, Chris Matheson og Ed Solomon, og það er Dean Parisot sem leikstýrir en hann á m.a. að baki eina skemmtilegstu vísindagamanmynd sögunnar, Galaxy Quest.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

The Hitman’s Wife’s Bodyguard – 28. ágúst

Það muna vafalaust flestir eftir myndinni The Hitman’s Bodyguard sem segja má að hafi dúkkað nokkuð óvænt upp í kvikmyndahúsum ágúst 2017 og reyndist hin ágætasta skemmtun, sérstaklega vegna frammistöðu þeirra Ryans Reynold og Samuels L. Jackson í aðalhlutverkum þeirra Michaels Bryce og Dariusar Kincaid sem áttu fótum fjör að launa undan morðsveit stórglæpamannsins Vladislavs Dukhovich sem Gary Oldman lék. Inn í málið fléttaðist svo hin sköruglega eiginkona Dariusar, Sonia Kincaid í túlkum Sölmu Hayek og í öðrum minni hlutverkum voru m.a. Morgan Freeman, Antonio Banderas, Richard E. Grant, Tom Hopper, Caroline Goodall og Frank Grillo. Myndin gekk ágætlega í kvikmyndahúsum heimsins og var fljótlega ljóst að framhald yrði gert um ævintýri þeirra Michaels og Dariusar.

The Hitman’s Wife’s Bodyguard gerist þremur árum eftir atburðina í fyrri myndinni og segir frá þvi þegar þeir Darius og Michael neyðast þrátt fyrir ýmsan persónulegan ágreining til að snúa bökum saman á ný og bjarga Soniu úr klandri áður en það verður henni að aldurtila. Meira vitum við eiginlega ekki um söguna en hún er skrifuð af þeim sama og skrifaði fyrri myndina, Tom O’Connor, og leikstýrt af þeim sama, Patrick Hughes. Einnig snúa aftur allir aukaleikararnir sem taldir eru upp hér að ofan fyrir utan Gary  Oldman.

Uppfært 2. maí: Þær fréttir voru að berast að frumsýningu The Hitman’s Wife’s Bodyguard hafi verið frestað um heilt ár, eða til 20. ágúst 2021.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

A Quiet Place Part II – 4. september

Kvikmynd hjónanna Johns Krasinski og Emily Blunt, A Quiet Place, sló í gegn sumarið 2018 eins og kvikmyndáhugafólki er vafalaust í fersku minni og var strax hafist handa við gerð framhaldsmyndar enda buðu sögulokin í myndinni sannarlega upp á það.

Þau Emily Blunt, Millicent Simmonds og Noah Jupe snúa aftur í hlutverkum sínum sem móðirin Evelyn og börn hennar, Regan og Marcus – og að sjálfsögðu hvítvoðungurinn sem Evelyn fæddi mitt í öllum hamaganginum. Fyrir þeim liggur nú að berjast áfram fyrir tilveru sinni og lífi en í þetta sinn án eiginmanns Evelyn, Lee (John Krasinski), sem fórnaði lífi sínu í fyrri myndinni. Hann verður þó með í þessari mynd því hluti hennar gerist í fortíðinni þegar geimskrímslin gerðu upphaflega árás og ráku fjölskylduna á flótta ásamt milljónum annarra. Að öðru leyti er þessi seinni mynd beint framhald hinnar fyrri og hefst meginsagan strax eftir atburðina í henni.

Fyrir utan þau sem talin hafa verið upp fara þeir Cillian Murphy og Djimon Hounsou með stærstu hlutverkin og nú er bara að bíða og sjá hvort mannfólkið finni einhverja leið til að sigrast á skrímslaplágunni eða hvort dagar mannkyns sé endanlega taldir. Myndin, sem er sögð ekki síðri en sú fyrri hvað spennu varðar, var upphaflega á dagskrá kvikmyndahúsa í lok mars, og var reyndar forsýnd 8. mars, en hefur nú fengið nýja dagsetningu, 4. september.

Monster Hunter – 4. september

Monster Hunter sækir innblásturinn í samnefnda tölvuleikjaseríu sem hóf göngu sína árið 2004 og hefur getið af sér marga leiki og notið mikilla vinsælda. Allt frá árinu 2012 hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Paul W. S. Anderson verið með það verkefni á könnunni að gera mynd eftir inntaki leikjanna og þann 4. september er komið að frumsýningu hennar ef áætlun gengur eftir.

Sagan er um tvö teymi hermanna á vegum Sameinðu þjóðanna sem ferðast um tíma og rúm til annars veruleika þar sem risaskrímsli fara með öll völd og sú hætta er fyrir hendi að þeim takist að uppgötva hvernig komast á til Jarðar þar sem þau myndu að sjálfsögðu valda miklu tjóni. Hermannateymin verða að koma í veg fyrir möguleikana á því undir stjórn þeirra Artemis (Milla Jovovich) og „The Hunter“ (Tony Jaa), en um leið berjast fyrir eigin lífi. Til þess þarf að finna upp stöðugt upp nýjar og betri leiðir til að vinna á skrímslunum sem eru bæði kæn og slóttug.

Eins og kvikmyndaáhugafólki er kunnugt er Paul W. S. Anderson einna þekktastur fyrir Resident Evil-myndirnar þar sem Milla Jovovich fór einnig með hlutverk hetjunnar og eins og í þeim má búast við að hér verði boðið upp á samfelldan hasar og fjör frá byrjun til enda. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að frumsýna fyrstu stikluna úr myndinni og sennilega verður það ekki gert fyrr en í lok maí eða júní.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

Unhinged – 4. september

Unhinged er sálfræðitryllir eftir þýska leikstjórann Derrick Borte sem gerði m.a. myndirnar London Town og American Dreamer. Hér vinnur hann með handrit Carls Ellsworth sem er einna þekktastur fyrir handrit myndanna Red Dawn, Disturbia og Last House on the Left-endurgerðina 2009. Lítið hefur verið látið uppi um söguna annað en að hún fjallar um unga konu, Rachel (Caren Pistorius), sem lendir í einhvers konar klastri við annan bílstjóra á rauðu ljósi þegar hún er morgun einn á hraðferð í vinnu og má engan tíma missa. Það klastur á svo eftir að vinda upp á sig því því þessi bílstjóri, sem nefndur er The Man og er leikinn af Russell Crowe, er engan veginn sáttur við atvikið og ákveður að leita hefnda gegn Rachel. Við fjöllum nánar um þessa mynd þegar frekari upplýsingar berast, en hún gæti alveg átt eftir að koma verulega á óvart.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

The King’s Man – 18. september

Þriðja myndin um leynisveitina Kingsman, sem er lauslega byggð á samnefndum teiknimyndasögum, er væntanleg í bíó 18. september eftir að hafa upphaflega verið á dagskrá í nóvember 2019 og síðan í febrúar 2020.

Leikstjóri og handritshöfundur er sem fyrr Matthew Vaughn sem í þetta sinn segir okkur upprunasögu þessara eðalsveitar sem „framkvæmir þegar aðrir bíða fyrirmæla“. Stofnun hennar má rekja allt aftur til fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar illir menn höfðu á prjónunum heimsyfirráð sem hefði kostað milljónir manna lífið ef hinn snjalli „Duke of Oxford“ (Ralph Fiennes) hefði ekki gripið til sinna ráða og hóað saman ráðagóðu fólki til að berjast gegn þessum áætlunum. Þar með varð Kingsman-leynisveitin til og réðst í sínu fyrsta verkefni ekki á garðinn þar sem hann var lægstur.

Með helstu hlutverk fyrir utan Ralph Fiennes fara þau Gemma Arterton, Aaron Taylor-Johnson, Rhys Ifans, Matthew Goode, Tom Hollander, Daniel Brühl, Djimon Hounsou, Charles Dance, Stanley Tucci og Alison Steadman og má ætla að fjölmargir aðdáendur fyrri myndanna, Kingsman: The Secret Service og Kingsman: The Golden Circle, bíði spenntir eftir að sjá hvort þessi verði jafn góð og þær.

Þess má geta að óstaðfestar fréttir herma að Matthew Vaughn, sem gerði einnig myndirnar Layer Cake, Stardust, Kick-Ass og X: First Class, sé þegar að vinna að fjórðu Kingsman-myndinni sem sömu fréttir herma að verði framhald af The Golden Circle.

Without Remorse – 18. september

Without Remorse er byggð á samnefndri skáldsögu Toms Clancy sem kom út 1993 og er af mörgum talin ein besta skáldsaga hans. Hún minnir dálítið á First Blood eftir David Morrell þar sem Rambó birtist fyrst enda á aðalsöguhetjan, John Terrence Kelly, sem er reyndar þekktari í söguheimi Clancys sem John Clark, ekki ósvipaða reynslu að baki og hann. Með hlutverk Johns í myndinni fer Michael B. Jordan en aðrir helstu leikarar eru Jamie Bell, Jodie Turner-Smith og Luke Mitchell. Leikstjóri er Ítalinn Stefano Sollima sem sendi síðast frá sér myndina Sicario: Day of the Soldado en var þar á undan einna þekktastur fyrir sjónvarpsseríuna Gomorra. Handritshöfundur er hins vegar Taylor Sheridan sem skrifaði báðar Sicario-myndirnar ásamt Hell or High Water og Wind River.

Sagan er í stuttu máli um fyrrverandi hermanninn John Terrence Kelly sem eftir að hafa misst eiginkonu sína og ófætt barn í bílslysi kynnist annarri konu, Pamelu Madden, sem reynist eiga heldur betur skrautlega fortíð að baki sem burðardýr eiturlyfjahrings og er á flótta undan útsendurum hans. Þegar hún er síðan myrt ákveður John að hefna hennar grimmilega og hefst handa við að losa veröldina við meðlimi eiturlyfjahringsins einn af öðrum. Sagan er reyndar mun flóknari en þetta og gerist að hluta til í Víetnam þar sem njósnir og gagnnjósnir koma mikið við sögu, en einnig má reikna með að hún hafi eitthvað breyst í meðförum Taylors Sherdan. Búast má við hörkumynd og verður gaman að sjá hvað hún gerir í kvikmyndahúsum.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

Last Night in Soho – 18. september

Það bíða örugglega margir eftir að sjá þessa nýjustu mynd breska leikstjórans Edgars Wright sem sendi síðast frá sér myndina Baby Driver og þar á undan Scott Pilgrim vs. the World og þríleikinn Shaun of the Dead, Hot Fuzz og The World’s End, en allar þessar myndir eru á uppáhaldslistum kvikmyndaunnenda um allan heim.

Last Night in Soho flokkast sem sálfræðitryllir og hrollvekja en hún er skrifuð af Edgar og Krysty Wilson-Cairns (1917) og er sögð sækja innblásturinn í myndirnar Don’t Look Now eftir Nicolas Roeg og Repulsion eftir Roman Polanski. Myndin virðist einnig innihalda vísindaskáldskap því aðalsöguhetjan í henni, ung kona sem er heilluð af tískubransanum og fatahönnun, ferðast í henni frá nútímanum til sjötta áratugar síðustu aldar þar sem hún lendir í ýmsum hremmingum að sögn þeirra sem til þekkja.

Með aðalhlutverkin fara Thomasin McKenzie, Anya Taylor-Joy, Matt Smith, Diana Rigg og Terence Stamp.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

Candyman – 25. september

Nýja Candyman-myndin átti að vera á júnídagskrá kvikmyndahúsanna en hefur verið flutt til 25. september. Myndin, sem er í leikstjórn Niu DaCosta eftir handriti hennar og framleiðendanna Jordans Peele og Wins Rosenfeld, er fjórða Candyman-myndin en er látin gerast í framhaldi af fyrstu myndinni sem var frumsýnd árið 1992, en hún var eins og margir vita byggð á samnefndri smásögu eftir Clive Barker, The Forbidden, sem kom út árið 1985 og tilheyrir smásagnasafninu Books of Blood.

En þrátt fyrir vera framhald fyrstu myndarinnar gerist þessi nýja mynd mörgum árum eftir atburðina í henni og segir frá ungum manni, Anthony McCoy, sem tekur upp á eigin spýtur að rannsaka söguna um hinn skelfilega Candyman, en sagt er að til að kalla hann fram þurfi að segja nafn hans fimm sinnum um leið og horft er í spegil. Sú rannsókn rekur svo Anthony til að heimsækja hverfið í Chicago þar sem atburðir fyrri myndarinnar gerðust og hafa uppi á þeim sem upplifðu þá. Eins og fólk getur rétt ímyndað sér á hann eftir að sjá eftir því en sú eftirsjá kemur auðvitað allt of seint því þeir sem Candyman hefur einu sinni náð að klófesta sleppa ekki frá honum aftur.

Í aðalhlutverkum eru tiltölulega óþekktir leikarar fyrir utan kannski þau Tony Todd og Vanesssu Williams sem endurtaka hér hlutverk sín úr fyrstu myndinni. Potturinn og pannan í gerð myndarinnar er hins vegar Jordan Peele sem eftir velgengni fyrstu tveggja mynda sinna sem leikstjóra, Get Out og Us, standa flestar dyr opnar í Hollywood. Því er heldur ekki að neita að aðkoma hans sem framleiðanda og handritshöfundar gefur kvikmyndaáhugafólki, og þá auðvitað sérstaklega hrollvekjuunnendum, góða von um að talsvert verði í Candyman spunnið auk þess sem stiklan er óneitanlega mögnuð.

The Witches – 9. október

The Witches er byggð á samnefndri barnabók Roalds Dahl sem kom upphaflega út árið 1983 og var myndskreytt með teikningum eftir Quentin Blake. Sagan náði strax miklum vinsældum og var kvikmynd gerð eftir henni árið 1990 sem Nicolas Roeg leikstýrði. Hlaut hún mjög góða dóma en aðsókn á hana varð langt undir væntingum og er það enn í dag hálfgerð ráðgáta hvers vegna það gerðist. En nú, 30 árum síðar, á sem sagt að reyna vi’ð þessa sögu aftur og í þetta sinn er það Robert Zemeckis sem heldur um leikstjórnartaumana ásamt því að skrifa handritið í samvinnu við Guillermo Del Toro og Kenya Barris. Hermt er að í þessari nýju mynd sé söguþræði bókarinnar fylgt mun nánar eftir en raunin var í 1990-myndinni og kannski mun það gera gæfumuninn.

Sagan er um strák á áttunda ári sem sendur er til ömmu sinnar í Noregi þegar foreldrar hans láta lífið í bílslysi. Í ljós kemur að amman er mikill sagnabrunnur og af öllum þeim sögum sem hún kann þykir stráknum (hann er aldrei nefndur á nafn í bókinni) mest koma til sagna af illum nornum sem hata börn, en amman hafði einmitt kynnst þeim fyrst þegar hún var á sama aldri og strákurinn og gjörþekkir því alla þeirra háttu og hegðun. Hún kennir stráknum að þekkja nornir af einkennum þeirra og biður hann að vera vel á verði því nornir dulbúa sig sem venjulegar konur á meðal almennings. Og auðvitað líður ekki á löngu uns strákurinn ber í fyrsta sinn kennsl á norn og í framhaldinu lendir hann í miklu en lífshættulegu ævintýri þegar ein þeirra breytir honum í mús.

Það er Jahzir Bruno sem leikur strákinn og Otavia Spencer leikur ömmu hans. Stór-nornin, sem er aðalnorn sögunnar, er leikinn af Anne Hathaway (Anjelica Huston lék hana snilldarlega í 1990-myndinni) og þeir Chris Rock og Stanley Tucci fara með aðalkarlhlutverkin.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

Death on the Nile – 9. október

Belgíski rannsakandinn Hercule Poirot snýr aftur á hvítu tjöldin 9. október en þar var hann síðast fyrir þremur árum í morðgátunni Murder on the Orient Express sem gerði það víða gott og halaði inn hátt í 400 milljónir dollara í kvikmyndahúsum. Eins og þá er það Kenneth Branagh sem  leikur kappann og sér líka um leikstjórnina eftir handriti Michaels Green og í helstu hlutverkum öðrum eru þau Gal Gadot, Letitia Wright, Armie Hammer, Annette Bening, Ali Fazal, Sophie Okonedo, Tom Bateman, Emma Mackey, Dawn French, Rose Leslie, Jennifer Saunders og Russell Brand.

Eins og flestir vita er myndin byggð á einni frægustu sögu morðgátudrottningarinnar Agöthu Christie sem kom út árið 1937, en hún var kvikmynduð árið 1978 með Peter Ustinov í hlutverki Hercules. Eins og nafnið bendir til gerist sagan í Egyptalandi þar sem Hercule er í fríi og ákveður að taka sér far með fljótabát upp Nílarfljót. Mikið af mektarfólki er um borð og bregður því flestu óneitanlega í brún einn morguninn þegar í ljós kemur að einn af farþegunum hefur verið myrtur. Að sjálfsögðu ákveður Hercule að fara í málið sem reynist mun flóknara en honum sýnist í fyrstu og teygir anga sína í fleiri áttir en hann gat séð fyrir.

Þess má geta að eftir velgegni Murder on the Orient Express ákváðu framleiðendur að tvöfalda fjármagnið sem færi í gerð Death on the Nile og gott betur og kostaði gerð hennar 120 milljónir dollara á móti 55 milljónum sem Murder on the Orient Express kostaði. Vonandi á það eftir að skila sér í enn skemmtilegri mynd.

Fyrsta stikla myndarinnar er ókomin.

The French Dispatch – 16. október

Leikstjórinn, skáldið og handritshöfundurinn Wes Anderson sendir frá sér sína nýjustu mynd, The French Dispatch, 16. október ef núverandi áætlun gengur eftir en hana átti upphaflega að frumsýna í júlí. Eflaust bíða margir kvikmyndaunnendur spenntir eftir þessari mynd enda hefur Wes áunnið sér nafn sem einhver allra frumlegasti kvikmyndagerðarmaður seinni tíma og bera myndir hans eins og Bottle Rocket, Rushmore, The Royal Tenenbaums, The Life Aquatic with Steve Zissou, Fantastic Mr. Fox, Moonrise Kingdom, The Grand Budapest Hotel og Isle of Dogs þess gott vitni hversu frjór hann er.

The French Dispatch hefur verið lýst sem „ástaróði til blaðamennskunnar“ en meginþema hennar er bandarískur blaðamaður sem stofnar dagblað í franskri borg og er það þema sagt byggt á reynslu Wes sjálfs á uppáhaldslesefni hans hér áður fyrr, The New Yorker. Til hliðar eru svo tvær sögur sem fléttast smám saman inn í meginsöguna uns allt smellur saman sem ein heild.

Sem fyrr hefur Wes fengið til liðs við sig heilan hera þekktra leikara í stór og smærri hlutverk og má þar nefna þau Benicio del Toro, Adrien Brody, Tildu Swinton, bill Murray, Frances McDormand, Timothée Chalamet, Owen Wilson, Fisher Stevens, Griffin Dunne, Liev Schreiber, Elisabeth Moss, Edward Norton, Daniel Dafoe, Saoirse Ronan, Chrostoph Waltz, Henry Winkler, Jason Schwartzman, Rupert Friend, Bob Balaban og Anjelicu Huston.

Black Widow – 30. október

Black Widow er 24 myndin í hinum sameinaða ofurhetjuheimi Marvel og er látin gerast strax eftir atburðina í myndinni Captain America: Civil War. Natasha Romanoff, öðru nafni Svarta ekkjan, er í dálitlu tómarúmi eftir þá atburði en það breytist snarlega þegar hún flækist þvert á vilja sinn inn í samsæri sem tengist öflum úr fortíð hennar sem rússnesk njósnara, löngu áður en hún gekk til liðs við Avengers-teymið. Stór hluti sögunnar er svo um samband hennar við fóstursystur sína, Yelenu Belova, sem var einnig þjálfuð sem njósnari og er líka „svört ekkja“.

Það eru þær Scarlett Johansson og Florence Pugh sem fara með hlutverk fóstursystranna en í öðrum stórum hluverkum eru m.a.  David Harbour, O-T Fagbenle, William Hurt, Ray Winstone og Rachel Weisz. Myndin, sem er í leikstjórn hinnar áströlsku Cate Shortland (Somersault, Lore, Berlin Syndrome), átti upphaflega að vera frumsýnd 1. maí en hefur nú fengið dagsetninguna 30. október.

No Time to Die – 20. nóvember

Til stóð að frumsýna 25. James Bond-myndina, No Time to Die, núna í apríl og voru aðstandendur hennar lengi vel að hugsa um að fresta henni fram í júlí eða ágúst en komust svo að þeirri niðurstöðu „að vandlega íhuguðu máli“ eins og þeir orðuðu það sjálfir að fresta henni fram í nóvember.

Þetta verður síðasta Bond-myndin sem Daniel Craig leikur í og gerist sagan eftir að hann hefur dregið sig í hlé frá leyniþjónustustörfum til að njóta lífsins á Jamaíka. Sú sæla fer fyrir lítið þegar fornvinur hann úr bandarísku leyniþjónustunni, Felix Leitner, hefur uppi á honum og fær hann með í baráttu við óvin sem á auðvitað eftir að reynast hættulegri en nokkur annar sem Bond hefur glímt við og er leikinn af Rami Malek sem sló síðast í gegn sem Freddie Mercury í Bohemian Rhapsody. Aðrar nýjar persónur sem koma helst við sögu eru leiknar af Önu de Armas, Léu Seydoux og Billy Magnussen en leikstjóri er Cary Joji Fukunaga sem tók við keflinu eftir að Danny Boyle hætti við að leikstýra myndinni vegna „listræns ágreinings“. Cary er einna þekktastur fyrir mynd sína Beasts of No Nation árið 2015 en er einnig einn af aðalhöfundum sjónvarpsþáttanna True Detective og Maniac og um leið fyrsti bandaríski leikstjórinn sem leikstýrir Bond-mynd.

Eins og flestir vita er það bandaríska tónlistarkonan Billie Eilish sem ásamt bróður sínum samdi og flytur titillag myndarinnar sem þegar hefur gert það gott á vinsældarlistum. Er Billie þar með langyngsti höfundur og flytjandi titillags Bond-myndar frá upphafi og á það aldursmet, 18 ára, sennilega seint eftir að verða slegið.

Soul – 20. nóvember

Soul er nýjasta Pixar-myndin, gerð af þeim sömu og gerðu Inside Out og Coco og ber þess glögg merki í stiklunni. Hún var fyrir kórónaveiruna á dagskrá kvikmyndahúsanna í júlí en hefur nú verið færð til 20. nóvember.

Myndin fjallar um tónlistarkennarann Joe Gardner sem rétt áður en hann fær sinn æðsta draum uppfylltan verður fyrir slysi sem sendir sálu hans í anddyri næsta lífs. En þangað vill Joe ekki fara strax og svo fer að hann fær annað tækifæri hérna megin við dauðann en því tækifæri fylgja skilyrði sem ekki er víst að Joe takist að uppfylla.

Free Guy – 11. desember

Ryan Reynolds á milljónir aðdáenda og því hlakkar marga til að sjá hann í gamanmyndinni Free Guy sem átti að frumsýna í júlí en hefur verið flutt til 11. desember. Í myndinni leikur Ryan aukakarakter í tölvuleik, svokallaðan NPC (Non-player character), sem vaknar óvænt til sjálfstæðrar meðvitundar, þvert á alla forritun, og ákveður upp á eigin spýtur að taka málin í tölvuleiknum í sínar hendur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Leikstjóri er Shawn Levy sem á m.a. annars að baki Night at the Museum-myndirnar, Real Steel og The Internship en handritshöfundur er Matt Lieberman sem skrifaði m.a. handrit teiknimyndanna Scoob! og The Addams Family auk myndarinnar Playing With Fire. Þess má geta að handrit hans að Free Guy fór árið 2016 inn á svarta listann svokallaða í Hollywood yfir áhugaverðustu handritin sem enn átti eftir að kvikmynda.

Top Gun: Maverick – 26. desember

Það er liðin 34 ár síðan Tony Scott/Jerry Bruckheimer-myndin Top Gun sló í gegn og má segja að hún hafi tryggt stöðu Tom Cruise á toppnum sem eins vinsælasta leikara heims þar sem hann hefur setið síðan óslitið.

Lengi hafði verið talað um að gera framhaldsmynd þegar ákveðið var að láta til skarar skríða árið 2010 og var vinnslan komin nokkuð áleiðis þegar Tony framdi sjálfsmorð í ágúst 2012 og allt fór í uppnám. Ákveðið var að setja myndina á ís án þess þó að falla endanlega frá gerð hennar en árið 2016 fór framleiðslan aftur í gang undir stjórn Bruckheimers og leikstjórans Josephs Kosinski (Tron, Oblivion, Only the Brave) og var Christopher McQuarrie (The Usual Suspects, Edge of Tomorrow, MI: Rogue Nation og Fallout) fenginn til að skrifa handritið ásamt Ehren Kruger og Eric Warren Singer. Myndina átti svo að frumsýna 12. júlí en henni hefur verið frestað til 26. desember og er því orðin jólamynd í stað sumarmyndar.

Sagan gerist þrjátíu árum eftir atburðina í Top Gun og Pete „Maverick“ Mitchell er enn að gera það sem hann elskar, þ.e. að vinna sem tilraunaflugmaður, og hefur hafnað öllum stöðuhækkunum innan hersins sem myndu koma í veg fyrir að hann mætti sinna því starfi. Dag einn er honum falið að þjálfa nýtt teymi orrustflugmanna til að takast á við stórhættulegt verkefni og um leið neyðist hann til að horfast í augu við fortíð sína sem geymir nokkur óleyst mál.

Með önnur stór hlutverk í myndinni fara Jennifer Connelly, Miles Teller, Jon Hamm (leikur Sam sem Tim Robbins lék í Top Gun), Ed Harris og Val Kilmer sem lék einmitt helsta keppinaut Petes í fyrri myndinni, Tom „Iceman“ Kazansky. Hann er nú orðinn fjögurra-stjörnu hershöfðingi og er yfirmaður flugflotans og þar með Petes.

Að lokum eru hér nokkrar myndir sem áttu að fara í bíó á tímabilinu
mars til júlí 2020 en hefur verið frestað til 2021 eða um óákveðinn tíma.

Peter Rabbit 2: The Runaway – 15. janúar

Önnur myndin um Pétur kanínu, sem er hugarfóstur breska rithöfundarins Beatrix Potter, var upphaflega á frumsýningaráætlun í mars en var frestað fram í ágúst vegna kórónaveirunnar og svo á dögunum fram í janúar á næsta ári. Nánast sama teymi stendur að gerð myndarinnar og gerði þá fyrstu en hún segir frá því þegar Pétur ákveður að skella sér á eigin spýtur til London þar sem hann hittir nýja vini sem kunna að meta grallaraskap hans. En þegar gamli vinahópurinn hans og fjölskylda lendir í vandræðum þarf hann að ákveða hvers konar kanína hann vill vera.

Ghostbusters: Afterlife – 5. mars 2021

Fjórða Ghostbusters-myndin átti að koma í bíó 10. júlí en hefur verið frestað til 5. mars á næsta ári. Sagan er látin gerast 30 árum eftir atburði myndar númer tvö, Ghostbusters II, sem var gerð 1989 og munu flestir helstu leikarar hennar koma fram  á ný í sömu hlutverkum að undanskildum auðvitað Harold Ramis sem lést 2015. Leikstjóri er Jason Reitman og segir myndin frá afkomendum hinna upprunalegu draugabana sem uppgötva að þeim er ætlað að taka við keflinu þegar yfirnáttúrleg öfl byrja að herja á lítin bæ í Oklahoma.

Fast and Furious 9 – 2. apríl 2021

Níunda Fast and Furious-myndin, sem hefur verið kölluð F9, átti að koma í bíó 22. maí nk. en hefur nú verið frestað um rúma tíu mánuði eða fram í byrjun apríl á næsta ári, að sögn framleiðenda vegna þess að þeir fundu henni engan góðan stað seinna í sumar eða haust og ákváðu frekar að hafa vaðið fyrir neðan sig en að ákvarða eitthvað í óvissu um hvort sú ákvörðun stæðist. Við fjöllum nánar um F9 síðar meir þegar þessi samantekt á væntanlegum myndum ársins 2021 verður uppfærð.

Minions: The Rise of Gru – 3. júlí 2021

Þessa nýjastu mynd um glæpakónginn Gru og skósveinana hans átti að frumsýna í byrjun júlí en henni hefur nú verið frestað um heilt ár, eða til 3. júlí 2021. Ástæðan fyrir þeirri löngu frestun er að Minions: The Rise of Gru var ekki fullkláruð í mars. Þegar framleiðandinn Illumination þurfti svo að loka og senda starfsmenn heim í sóttkví þótti ómögulegt að fresta henni um styttri tíma. Um leið er nokkuð ljóst að þetta á eftir að hafa frestunaráhrif á allar aðrar myndir sem Illumination hugðist senda fra sér á næstu árum.

The New Mutants – Óákveðið

Nýjasta X-Men-myndin, eða kannski frekar nýja hliðarsagan við X-Men-myndirnar, The New Mutants, átti að koma í bíó í byrjun apríl en eins og með aðrar apríl-myndir kom kórónaveiran í veg fyrir það. Þegar þetta er skrifað hefur ný dagsetning ekki verið ákveðin en hermt er að forráðamenn myndarinnar stefni að því að frumsýna hana a.m.k. áður en árið 2020 er á enda. Við sjáum hvað setur og geymum fekari umfjöllun um þessa mynd þar til það liggur fyrir hvað um hana verður.

Scoob! – Óákveðið

Teiknimyndin Scoob! er frá Warner Bros og er eins og heitið bendir til byggð á teiknimyndasögunum um hundinn Scooby-Doo og mannlega félaga hans, Daphne, Fred, Velmu og „Shaggy“, sem eru snillingar við að leysa gátur, og þá gjarnan gátur sem innihalda yfirnáttúrlega atburði og verur. Scoob!, sem er að hluta til upprunasaga og segir m.a. frá því þegar Shaggy og Scooby-Doo hittust í fyrsta sinn, átti að koma í bíó í maí en hefur verið frestað um „óákveðin tíma“. Bíðum við nú eins og aðrir eftir að vita hvað það þýðir nákvæmlega.