Við sjáum oft fyrir okkur að hlutirnir fari á ákveðinn veg. Hins vegar þegar þeir fara öðruvísi en við ætlum okkur þá verðum við oft á tíðum fyrir vonbrigðum. Við væntum þannig einhvers sem ekki verður. Við setjum kannski markið of hátt eða veðjum á vitlausan hest. Eðlilega væntum við þess að maki okkar sé okkur trúr og heiðarlegur. Að okkur sé ekki sagt upp í vinnunni þegar við mætum á svæðið. Við væntum þess að einstaklingurinn sem við erum að date-a segi okkur satt og að börnin okkar læri að þekkja muninn á réttu og röngu, allavega eins og við skilgreinum þann mun. Allt væntingar en kannski mis réttmætar eða hvað?

Strangt til tekið þá höfum við mannfólkið búið okkur til regluverk sem tekur að einhverju leiti á slíkum siðferðislegum álitaefnum, það eru sett lög. Þar má finna leiðbeiningar sem fjalla oft um væntingar. Til að mynda ef þér er sagt skyndilega upp í vinnunni þá eru ákveðin úrræði sem þú getur nýtt þér. Lögin setja okkur líka að einhverju leiti reglur um hvað sé rétt eða rangt. Þegar við göngum í hjónaband og staðfestum ást okkar fyrir mönnum og guði, líka lögum öðlumst við réttmætar væntingar um tiltekna háttsemi. Við semjum líka okkar á milli, til dæmis við börnin okkar um að ákveðin hegðun sé í lagi og önnur ekki. Sama gildir um vináttuna. Við hópum okkur almennt saman með fólki sem hefur sambærilegar hugmyndir og við um lífið og tilveruna, og þannig sammælumst um hvað sé rétt eða rangt. Í gegnum lífið gerum við marga slíka sáttmála, meðvitað eða ómeðvitað, hver eftir sínu höfði. Svo lengi sem aðilar eru sammála um hverjar leikreglurnar eru má segja að fólk megi hafa væntingar um að verða ekki fyrir vonbrigðum.

Málin flækjast hins vegar þegar forsendur breytast eða ef engar forsendur fyrir væntingum eru til staðar, ekki búið að semja um neitt. Getum við gert kröfu um að fólk breytist ekki. Ætlast til þess að fólk skipti ekki um skoðun. Viljum við það yfir höfuð? Hverjum og einum er frjálst að ráðstafa lífi sínu eftir bestu getu og flest höfum við þann möguleika á að skapa þann veruleika sem við viljum eða í raun veljum. Lykillinn hér er valið.

Er allt leyfilegt í ástum og stríði?
Hvers vegna verðum við svona oft fyrir vonbrigðum? Sérstaklega þegar kemur að ástinni. Verðum við að hætta að hafa væntingar svo við verðum ekki fyrir vonbrigðum?

Er best að vænta einskis frá einum né neinum, nema með það í huga að við séum að taka áhættu á að verða fyrir vonbrigðum? Að hjartað okkar brotni. Ekki viljum við að lög eða einhverjar opinberar reglur fjalli um ástina. Reglur um að maki þinn muni ávallt elska þig, sem hann væntanlega gerir, en kannski ekki eins og kona á að elska þann mann sem hún vill vera með út ævi sína, enda væri slíkt ógerlegt. Getum við gert kröfu um að tilfinningar breytist ekki, þannig að forsendur hjónabands brotni ekki. Ef slíkar tilfinningar geta breyst, sem þær gera sífellt, hvernig getum við gert kröfu um að fólk megi ekki ferðast frjálst í ástum. Hvers konar takmarkanir viljum við setja á ástina sem er bæði fallegasti og hættulegasti kraftur sem til er. Ástin hefur oft verið „ástæða” eða afsökun manna til að gera óafsakanlega hluti. Maðurinn hefur heyjað heilu stríðin í nafni ástarinnar og gert ótrúlegustu verk undir merkjum hennar. En er það raunverulega ást þegar fólk réttlætir hegðun, sem það myndi annars ekki leyfa sér, gagnvart þeim einstaklingi sem það segist elska?

Getur verið að það séu vonbrigði sem verða til þess að fólk gerir óútreiknanlega hluti í nafni ástarinnar. Í raun brostnar væntingar þegar ástin þín velur annað en þú hefur séð fyrir þér.

Ástin, hvort sem hún er gagnvart börnum okkar, foreldrum, systkinum, maka eða elskhuga er svo sterkt afl að hún ruglar okkur oft í rýminu. Eða hvað? Er það raunverulega ást sem er aflvaki þess að við leyfum okkur að gera hluti sem annars eru óafsakanlegir. Jafnvel brjótum á okkar eigin gildum og ástvinum okkar. Og ef það er ekki ástin sem er aflvaki vonbrigða hvað er það þá? Eru það væntingar okkar?

Þýðir það að við getum ekki vænst að einstaklingar hafi nægilegt sjálfstraust til að vera heiðarlegir og búi yfir sjálfsþekkingu til að greina tilfinningar sínar. Eru þetta óréttmætar væntingar sem við gerum almennt til þeirra sem við elskum?

Hversu oft hefur maður heyrt talað um skilyrðislausa ást. Þegar við elskum einhvern nákvæmlega eins og hann er án kröfu um að vera nokkuð annað. Skilyrðislaus ást er ást án skilyrða, án væntinga og án takmarkana. Við segjumst elska börnin okkar og fjölskyldu án skilyrða, jafnvel maka eða elskhuga en er það svo einfalt. Ef við elskum án skilyrða, af hverju verðum við þá fyrir vonbrigðum þegar manneskjan sem við elskum breytir á annan hátt en við gerum ráð fyrir? Ef börnin okkar breyta ekki á þann hátt sem við teljum æskilegt eða í samræmi við þær leikreglur sem við höfum sett þeim verðum við fyrir vonbrigðum. Hvernig bregstu við þegar maki eða elskhugi breytir ekki á þann hátt sem þú sást fyrir? Við leyfum okkur oft aðrar reglur í ástarmálum, líkt og mörkin séu önnur.

Ekkert okkar vill vera í ástarsambandi við einhvern sem elskar okkur ekki til baka. Við getum hins vegar elskað einhvern sem elskar okkur ekki til baka. Það er skilyrðislaus ást. Viljum við ekki að hver og einn sé frjáls ferða sinna og hafi frelsi til að skipta um skoðun og kanna sinn veg?

Getur verið að við þurfum að kafa dýpra og skoða hvað við sækjumst eftir? Ef við vitum ekki sjálf hvað við viljum en væntum þess að einhver færi okkur hamingjuna án þess að geta sjálf skilgreint í hverju hún felst, hvernig getum við öðlast hamingju. Ef við horfumst ekki í augu við þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir og gerum sífellt kröfu um að ástvinir okkar hagi sér öðruvísi, má gera ráð fyrir að við verðum fyrir vonbrigðum. Það er undir okkur sjálfum komið að skilgreina hvers við krefjumst af ástinni. Sjálfsþekking og heiðarleiki gagnvart eigin tilfinningum er nauðsynleg til þess að öðlast þá vitneskju. Hugrekki þurfum við einnig til að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum og ástvinum til að gangast við þeim tilfinningum en sérstaklega til að fylgja þeim eftir.

Við þurfum að vera nægilega hugrökk til að horfast í augu við þá vitneskju sem við stöndum frammi fyrir. Því oftar en ekki þá eru það væntingar um annað en það sem er, sem veldur okkur vonbrigðum.

www.saraodds.is