Fjórtan ára stúlka að nafni Anika Chebrolu frá Texas-fylki í Bandaríkjunum hefur uppgötvað sameind sem gæti verið lykillinn að lækningu á COVID-19. Sameindin tengist bindiprótíni SARS-CoV-2 veirunnar og getur þannig stöðvað hana frá því að komast inn í frumuna og valda þar usla. Fyrir þetta afrek bar Chebrolu sigur úr býtum í 3M Young Scientist-keppninni þetta árið, en sú er almennt álitin fremsta gagnfræðaskólakeppni Bandaríkjanna á sviði vísindanna.

Í rannsókninni skoðaði hún milljónir sameinda með tilliti til lyfjalíkinda og tengimöguleika við bindiprótín, og var á endanum valin sú sameind sem tengdist SARS-CoV-2 sterkast. Er talið að þessi sameind geti orðið að lyfi sem getur meðhöndlað COVID-19.

Chebrolu ætlaði sér ekki upprunalega að rannsaka kórónavírusinn. Hún beindi sjónum sínum í upphafi frekar að inflúensu, þar sem hún hafði sjálf lent illilega í einni slíkri á síðasta ári. En þegar COVID-19 skall á heiminum þá vissi hún hvar athyglin ætti að vera.

Hún getur nú með stolti kallað sjálfa sig bestu ungu vísindamanneskju Bandaríkjanna („America’s Top Young Scientist,“ eins og verðlaunin eru titluð). Auk þess vann hún til tæpra 3.5 milljóna í verðlaunafé (25.000 dollara), ásamt því sem hún fær sérstaka verðlaunaferð.

Fyrir Chebrolu snýst þetta þó alls ekki um heiður, peninga eða verðlaun. „Vísindin eru grunnur lífsins og alheimsins, og við eigum langt í land enn með að skilja þau að fullnustu,“ sagði hún í samtali við vefmiðilinn Yahoo.

Og hún er bara rétt að byrja að vinna á COVID-19. „Það hvernig ég þróa þessa sameind áfram með aðstoð veirufræðinga og lyfjaþróunarsérfræðinga mun ákvarða afraksturinn,“ sagði hún.