Evrópusambandið fjármagnaði nýverið í samstarfi við japönsku ríkisstjórnina rannsókn á vélmennum sem forrituð eru til að geta haldið uppi samræðum, og hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að þau geti haft jákvæð áhrif á andlega heilsu eldri borgara á elliheimilum.

Rannsóknin, sem kallast CARESSES, fól í sér að vélmenni að nafni Pepper var yfir þriggja ára tímabil látið spreyta sig á samræðum við íbúa nokkurra elliheimila í Bretlandi og Japan, en gervigreind Peppers er hönnuð með það að sértæku markmiði að vélmennið geti haldið uppi samræðum sem eiga menningarlega upp á pallborðið hjá eldra fólki.

Íbúar sem áttu samskipti við Pepper í allt að átjan klukkustundir yfir tveggja vikna tímabil fundu samkvæmt rannsókninni fyrir marktækri bót á andlegri heilsu, auk þess sem einnig urðu „smávægileg en jákvæð“ áhrif á einmanaleikatilfinningar þeirra.

Chris Papadopoulos, lýðheilsulektor við Bedfordshire-háskólann í Bretlandi og sá sem leiddi rannsóknina, sagði niðurstöðurnar sérstaklega tímabærar nú þegar Covid-19 faraldurinn ríður yfir.

„Þegar við byrjuðum á verkefninu var ljóst að einmanaleiki hjá eldra fólki var virkilega stórt vandamál sem er alltaf að aukast, og við vorum spennt fyrir því að ráðast á það,“ sagði Papadopoulos við fréttastöðina CNN. „Félagsleg aðhlynning er ofboðslega útþynnt og samfélagið okkar er að verða hlutfallslega aldraðra.“

„Við hefðum auðvitað aldrei getað séð fyrir hversu tímabært þetta er orðið í dag, þar sem við erum að sjá þvingaða einangrun á mörgum elliheimilum, sem hefur orsakað auknar einmanaleikatilfinningar,“ sagði hann. „Kerfið okkar hefði ekki getað komið til á betri tíma til að reyna að slá á sum þessara vandamála.“

Papadopoulos sagði rannsóknarteymið áætla að þörf sé á tveggja til þriggja ára rannsóknarvinnu til viðbótar áður en hægt verði að innleiða vélmennin til fullnustu á elliheimilum.