Mannfólkið hefur verið að læra um mannslíkamann í mörg hundruð ár, en þó bætist sífellt við þekkingu okkar. Hópur rannsóknarlækna í Hollandi uppgötvaði á dögunum nýtt fyrirbæri inni í höfðinu á hundruðum þátttakenda, og telja þau að þar sé á ferð nýtt líffæri.

Teymið var að skoða krabbameinssjúklinga með háþróaðri skönnunartækni sem kallast PSMA PET/CT þegar það rakst á óvæntan fund. Aftast í nefkokinu — þeim hluta koksins sem liggur beint fyrir aftan nasagöngin — fannst vel falinn klasi af munnvatnskirtlum. Þetta kom rækilega á óvart þar sem mannfólk hefur samkvæmt öllum hefðbundnum fræðum aðeins þrjú pör af slíkum kirtlum, og aldrei hafði áður þekkst að þeir fyrirfyndust á þessum stað höfuðsins.

“Að okkur vitandi eru einu munnvatns- eða slímkirtlarnir í nefkokinu sjáanlegir einungis með smásjá, og það eru næstum þúsund þeirra dreifðir jafnt í gegnum slímhúðina,” sagði geislameðferðarlæknirinn Wouter Vogel frá Krabbameinsstofnun Hollands. “Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu undrandi við vorum þegar við fundum þessa.”

Mannfólk notar munnvatnskirtla til að framleiða munnvatn sem hjálpar okkur að brjóta niður fæðu og halda meltingarkerfinu heilbrigðu. Obbi vökvans er framleiddur af þrennum aðalkirtlum, sem finnast undir tungunni, í kjálkanum og fyrir framan eyrun innanverð. Þessir nýlega uppgötvuðu kirtlar eru hins vegar nálægt miðju höfuðsins, beint á bak við nefið, sem er erfiður staður að ná til án þess að beita flóknum verkfærum.

Uppgötvunin gæti verið þýðingarmikil fyrir krabbameinslækningar, en samkvæmt rannsókn á 723 sjúklingum sem gengust undir geislameðferð þá orsakar geislun á þessu svæði oft slæmar aukaverkanir fyrir sjúklinga, svo sem erfiðleika við að kyngja og tala. Talið er að uppgötvun þessara nýju kirtla geti gert læknum kleift að hlífa krabbameinssjúklingum betur við slíku meðan á meðferð stendur.

Uppgötvunin hefði aldrei átt sér stað ef væri ekki fyrir PSMA PET/CT vélina. Eldri tækni hefði ekki náð að finna þessa kirtla sem faldir eru svona kyrfilega inni í höfuðkúpunni.

Þó tekur rannsóknarfólk fram að frekari rannsókna sé þurfi vegna þess að sjúklingahópurinn í þessari var ekki mjög fjölbreytilegur. Aðeins var rannsakað fólk með krabbamein í blöðruhálsi eða þvagrás, þannig að til að mynda var aðeins ein kona af hundruðum þátttakenda.