Ég elska eftirrétti og hef alltaf gert. Ég veit fátt betra en að kóróna góða máltíð með geggjuðum eftirrétti. Ég rakst á þessa uppskrift á vefsíðunni Gourmandize, en hér erum við að tala um risastóra og djúsí smáköku sem er fullkomin með ís eða rjóma.

Hrært er í deiginu í pönnu og kakan síðan bökuð í pönnunni. Lágmarksfyrirhöfn og óþarfi að óhreinka fullt af skálum og áhöldum.

Risastór smákaka

Hráefni:

115 g smjör
3/4 bolli sykur
1 egg
1 1/4 bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1 bolli möndlur í sneiðum
1 bolli súkkulaðibitar

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C og takið til pönnu sem er sirka 23 sentímetrar að þvermáli. Bræðið smjörið. Takið pönnu af hitanum og bætið sykrinum saman við. Hrærið. Hrærið egginu saman við og því næst hveiti lyftidufti. Það er allt í lagi þó deigið sé örlítið kekkjótt og passið að hræra aðeins þar til allt er blandað saman. Ef þið hrærið of lengi verður kakan seig. Bætið 3/4 af möndlunum og 3/4 af súkkulaðibitunum saman við. Stráið restinni af möndlunum og súkkulaðinu yfir kökuna og bakið í 20 til 25 mínútur. Borðið beint úr pönnunni með skeið eða skerið í litla bita.