Eiður Smári Guðjohnsen á lof skilið fyrir fyrir hugrekki sitt. Það er ekki heiglum hent að standa opinberlega frammi fyrir veikleikum sínum eins og hann gerir, horfast í augu við spilafíkn sem hann var haldinn og gefa síðan uppbyggileg ráð til að forða öðrum frá því að verða þessari fíkn að bráð. Eða með öðrum orðum, verða fíkniefnasölunum að bráð. Því það eru þeir náttúrlega – sambærilegir við fíkniefnasala sem reka spilavítin hvort sem þeir heita Háskóli Íslands, Landsbjörg eða Rauði kross Íslands.

Tvenns konar fíklar

Ég hef stundum sagt að til séu tvenns konar fíklar, þeir sem spila og veðja og tapa – og svo hinir sem fá spilapeningana í sinn hlut og verða fyrir bragðið háðir þessari tekjulind. Þessir spilafíklar vinna alltaf enda engin áhætta þeirra megin. Meira að segja var það svo í kovid faraldrinum að þeir sem reka spilasalina fengu tugi milljóna frá skattgreiðendum svo þeir yrðu ekki fyrir neinu tjóni! Það er bara einu sem þessir aðilar tapa og það er sómakenndinni. Hún er látin sigla sinn sjó.

Má líkja við fíkniefnasölu

En sennilega er líkingin við fíkniefnasala nærtækust. Eins og fíkniefnasalar gera sölumenn veðmálanna allt hvað þeir geta til að fá sem flesta í neyslu. Hér á landi komast þeir upp með iðju sína óáreittir. Á netinu er það íþróttahreyfingin sem hamast mest. Hún fær ávinningin af starfsemi Íslenskrar getspár sem rekur veðmálastarfsemi á netinu. Mig langar til að gefa lesendum Fréttanetsins innsýn í þessar auglýsingar eins og sjá má hér að neðan.

Áskorun til íþróttahreyfingarinnar

En jafnframt langar mig til að beina því til íþróttahreyfingarinnar að hún grípi sjálf í taumana og ákveði að það sé ekki sæmandi að afla fjár með því að fá fólk til að spila í fjárhættuspilum. Það er ekki að ástæðulausu að Eiður Smári kvaddi sér hljóðs. Hann veit af biturri reynslu hvað það getur þýtt að ánetjast fjárhættuspilum. Nú síðast var hann að fagna því að enska úrvalsdeildin hefur ákveðið að banna leikmönnum að bera á treyjum sínum auglýsingar sem hvetja fólk til að veðja á netinu. Forsvarsmenn úrvalsdeildarinnar vita að tvennt er að gerast, annars vegar að knattspyrnufélögin verða sífellt háðari „styrkjum“ frá veðmálafyrirtækjum og síðan er það hitt að æskufólk er farið að sækjast í að veðja á netinu og augljóst að sá áhugi er að verða svo mikill að hann geti ekki kallast öðru nafni en spilafikn.

Auglýsingabann í það minnsta á meðan beðið er

Ríkisstjórnin hefur boðað frumvarp um fjárhættuspil. Það sem heyrst hefur af því frumvarpi lofar ekki góðu og ríður á að sem flestir láti frá sér heyra til að farið verði að þjóðarviljanum sem er eindregið og afgerandi á þeirri skoðun að loka eigi á veðmálastarfsemi. Þetta hefur komið fram í víðtækum skoðanakönnunum. Þjóðarviljinn er að þessu leyti í góðu samræmi við samtök þeirra sem tala máli spilafíkla, aðstandenda þeirra og annarra sem sjá hvílíkur skaðvaldur fjárhættuspil eru í lífi margra.

Enn er hægt að hafa áhrif á stjórnvöld en á meðan beðið er eftir tillögum ríkisstjórnarinnar leyfi ég mér að leggja til að tekið verði fyrir allar auglýsingar sem hvetja fólk til að taka þátt í fjárhættuspilum. Þetta snýst einfaldlega um að stöðva fíkniefnasalana. Er til of mikils mælst að það verði gert?

Dæmi nú hver fyrir sig: