Það þarf oft ekki að umbreyta heimilinu og lífsstílnum til að spara nokkrar krónur á mánuði. Stundum eru það litlu hlutirnir sem skipta mestu og safnast saman yfir tímann í stóran haug af sparnaði. Best er að byrja smátt og gera einfaldar breytingar, en hér fyrir neðan eru nokkur skotheld sparnaðarráð.

Lærið að sauma

Það er algjör óþarfi að henda spjörunum þó þær verði götóttar. Þá er um að gera að taka sér nál og tvinna í hönd og stoppa í, en fyrir þá sem eru algjörir nýgræðingar í handíðum er hægt að finna aragrúa af kennslumyndböndum á YouTube.

Lærið að geyma að mat

Það eru margar mismunandi leiðir til að geyma mat. Hægt er að frysta, súrsa, þurrka, sjóða ýmis matvæli svo þau endist lengi. Aftur er YouTube vinur þinn því þar er hægt að finna leiðir til að geyma mat svo hann renni ekki út á nokkrum dögum.

Kjöt í aukahlutverki

Hægt er að spara mikinn pening með því að gera kjöt að aukaleikara í máltíðum – ekki aðalleikara. Prófið að minnka kjötmagnið í kvöldverðinum. Eldið til dæmis pasta með nokkrum kjötstrimlum í staðinn fyrir kjöt með pasta. Skellið nokkrum kjúklingabitum í súpuna – ekki heilum kjúklingi.

Súpustuð

Súpa gefur góða fyllingu og er afar ódýr réttur að elda. Auk þess er hægt að nýta ýmislegt í súpu sem annað færi til spillis. Eldið því súpu oftar. Rúsínan í pylsuendanum er síðan að auðvelt er að frysta súpu.

Byrjið að spara

Það er aldrei oft seint. Hægt er að stilla heimabankann þannig að ákveðin upphæð er tekin af reikningnum mánaðarlega og sett inn á sparireikning. Byrjið smátt, til dæmis 500 krónur og hækkið upphæðina eftir þörfum. Margt smátt gerir eitt stórt.

Vinnuskipti

Ert þú afbragðskokkur og vinur þinn fær hárgreiðslumaður? Hvernig væri að þið myndum hafa vinnuskipti. Þú eldar dýrindismáltíð og hann snyrtir hárið. Getur ekki klikkað.

Endurtekið efni

Ekki henda gömlum rúmfötum og slitnum handklæðum. Notið þau sem tuskur eða hlífðarábreiður þegar verið er að mála eða dytta að heimilinu.

Borðið heima

Það kostar mikið að fara út að borða eða panta mat heim. Því er betra að elda og borða heima ef maður hefur áhyggjur af pyngjunni.

Geymið smáhluti

Það er um að gera að geyma smáhluti, svo sem pallíettur og tölur sem detta af fötum. Þá er gott að geyma borða af gjöfum og krukkur sem eru ekki í notkun því allt þetta getur orðið að æðislegu föndurverkefni.

Eldið frá grunni

Það er ódýrara og hollara að elda frá grunni en að kaupa tilbúið. Brauð er frábært dæmi en hráefni í brauð er hræódýrt og hægt að baka nokkur fyrir sama verð og eitt búðarkeypt kostar. Ef þú sérð tómata á afslætti vegna útlits er um að gera að kippa þeim með og búa til æðislega pastasósu frá grunni. Möguleikarnir eru endalausir.

Reiðufé

Borgið með reiðufé því þá er líklegt að þið eyðið minna. Magnað!

Nesti er snilld

Ef þið eruð á leið í ferðalag eða bara í dagsferð með nóg af útiveru og stuði þá er um að gera að búa til nesti. Ódýrara og skemmtilegra að borða úti í guðs grænni náttúrunni en inni á einhverri búllu.

Skipulagið

Það er kannski ekki skemmtilegt en það er mikilvægt að búa til vikumatseðil og innkaupalista út frá honum. Þannig gleymið þið engu í búðinni og kaupið aðeins það sem þið þurfið. Ekki gleyma að kíkja í búrskápinn, ísskápinn og frystinn áður en þið farið út í búð svo þið kaupið ekki alltof mikið af einhverju.

Hádegisverður meistaranna

Ekki kaupa mat í vinnunni heldur farið með nesti. Með tímanum sparar það ykkur stórar fjárhæðir.

Heimatilbúnar gjafir

Það eiga allir nóg af öllu. Prófið því að búa sjálf til gjafir, hvort sem það er heimabökuð kaka, inneignarnóta á næturpössun eða skemmtileg minningabók.

Snarl á ferð

Hafið ávallt snarl á ykkur ef þið eruð að þeytast um bæinn í erindagjörðum. Þá svalar það svengdinni án þess að rústa fjárhaginum.


Hugsið um bílinn

Það borgar sig til lengri tíma litið að hugsa vel um bílinn, þvo hann einu sinni í viku og skipta um olíu reglulega. Þannig endist bíllinn lengur.

Grænir fingur

Þeir sem eiga góða garða eða svalir ættu að prófa sig áfram í heimaræktun. Það sem vex vel á Íslandi þegar að heitt er í veðri er til dæmis mynta, graslaukur, kartöflur, gulrætur, rófur, kóríander og steinselja. Þegar að kalt er úti er síðan hægt að færa kryddjurtirnar inn.

Ekki henda góðum mat

Það er snilld að frysta alls kyns afganga og nýta þá í aðrar máltíðir. Ef þið eldið hamborgara og eigið afgang af grænmeti, osti og beikoni er til dæmis hægt að frysta það saman og nota síðar í eggjaköku. Notið ímyndunaraflið!

Kaupið það sem þarf, ekki það sem þið hafið efni á

Þó þið séuð vel stödd þá er algjör óþarfi að kaupa dýrasta bílinn ef meðaldýri bíllinn er alveg nóg. Ekki láta tala ykkur út í að kaupa alltaf það sem þið hafið efni á.

Gestgjafar

Bjóðið fólki heim í staðinn fyrir að fara með vinum út að borða. Þannig er hægt að sitja lengi, hafa meira gaman og spara smá í leiðinni.