Smákökuævintýrin í eldhúsinu mínu halda áfram.

Að þessu sinni býð ég upp á algjörlega ómótstæðilegar súkkulaðibitakökur með leynihráefni sem gerir þær gómsætari en góðu hófi gegnir.

Þetta leynihráefni hef ég notað margoft, til dæmis í snúða, en það er gamli, góði Royal-búðingurinn.

Búðingurinn, sem sagt duftið sem notað er til að blanda búðinginn, gerir kökurnar dúnmjúkar í miðjunni og kantana stökka og góða. Þessar kökur komast eiginlega næst því að vera eins og smákökurnar á Subway, þó ég segi sjálf frá.

Þessar kökur hurfu á skotstundu og þarf ég greinilega að vera dugleg að baka þessar á aðventunni þegar ég er í stuði.

Er maður ekki annars alltaf í stuði fyrir smákökur?

Gómsætar súkkulaðibitakökur með leynihráefni

Hráefni:

220 g mjúkt smjör
3/4 bolli púðursykur
1/4 bolli sykur
1 pakki Royal-vanillubúðingur
2 egg
1 tsk vanilludropar
2 1/3 bolli hveiti
1 tsk matarsódi
150 g hvítt súkkulaði (grófsaxað)
150 g dökkt súkkulaði (grófsaxað)

Aðferð:

Hitið ofninn í 190°C og klæðið ofnplötur með smjörpappír. Byrjið á að þeyta smjör, púðursykur og sykur vel saman, eða í um 5 mínútur. Bætið því næst búðingsduftinu, eggjunum og vanilludropum saman við og hrærið vel. Bætið hveiti og matarsóda saman við og hrærið þar til allt er blandað saman – hér er ekki gott að hræra of lengi. Bætið súkkulaðinu út í og hrærið saman við deigið með sleif eða sleikju. Búið til litlar (eða stórar) kúlur úr deiginu, raðið á ofnplötur og fletjið út með lófanum. Bakið í 8-10 mínútur og takið kökurnar út þó þær virðist vera hráar – þær eru það ekki.