Timothy King var aðeins ellefu ára þegar hann fór út af heimili sínu í Birmingham í Oakland-sýslu í Detroit þann 16. mars árið 1977. Hann sneri aldrei heim aftur. Lík hans fannst að kvöldi 22. mars sama ár. Hann hafði verið kynferðislega misnotaður með óþekktum hlut og kæfður.

Timothy King.

Timothy, eða Tim eins og hann var oftast kallaður, ætlaði bara út í apótek að kaupa sér smá sælgæti. Hann fór á hjólabrettinu sínu, fullur eftirvæntingar um það sem beið í apótekinu, sem á þessum tíma var fullt af alls kyns góðgæti sem mátti gæða sér á á tyllidögum. Foreldrar hans, Barry og Marion King, ákváðu að eiga stefnumót þennan eftirmiðdag, þar sem þau höfðu eytt litlum tíma saman dagana á undan. Systkini Tim, systir og tveir bræður, höfðu líka önnur plön. Þegar að Tim var ekki búinn að skila sér heim þegar klukkan var langt gengin í níu þetta kvöld, kviknuðu aðvörunarljósi í hugum foreldranna. Lögreglunni var gert viðvart og eftir nokkurra daga leit fannst lík Tim loksins.

Tim var síðasta af fjórum fórnarlömbum raðmorðingja í Oakland-sýslu sem gekk undir gælunafninu „Barnapían“ og er talinn hafa komið fjórum börnum fyrir kattarnef á árunum 1976 og 1977. Í raun er samt ekki vitað hvort hann hafi verið einn að verki eður ei þar sem morðmálin hafa aldrei verið upplýst.

„Öskraðu eins hratt og þú getur“

Hrottaverk „Barnapíunnar“ höfðu verið rædd á heimili Tim í nokkra mánuði áður en hann varð fórnarlamb morðingjans. Faðir hans Barry, sem nú nálgast nírætt, sagði frá því í viðtali við Hometown Life fyrr á þessu ári.

„Ég sagði við Tim „ef einhver nálgast þig og vill að þú gerir eitthvað, hættu öllu sem þú ert að gera, öskraðu eins hátt og þú getur og hlauptu eins hratt og þú getur“,“ sagði faðir hans er hann rifjaði upp síðustu vikurnar í lífi litla Tim. „Ég held að Tim hafi vitað nákvæmlega hvað myndi gerast um leið og hann steig inn í bíl [morðingjans].“

Barry King.

Hrottaleg morð

Líklega er það rétt hjá Barry þar sem „Barnapían“ notaði svipaða aðferð til að drepa börnin fjögur, enda lagði lögreglan tvo og tvo saman og gerði sér ljóst að um raðmorðingja væri að ræða þegar að þriðja fórnarlambið, Kristine Mihelich, þá tíu ára, fannst í lok janúar árið 1977. Hún fór að heiman þann 2. janúar það ár og var á leið í 7-Eleven-verslun í heimabænum Berkley. Hún skilaði sér ekki heim og fannst lík hennar nítján dögum síðar á fáförnum vegi. Hún hafði verið kæfð minna en sólarhring áður og líkið skilið eftir þannig að það væri sýnilegt.

Fyrsta fórnarlamb „Barnapíunnar“ var hinn tólf ára Mark Stebbins frá Ferndale. Hann hvarf þann 15. febrúar árið 1976. Lík hans fannst fjórum dögum síðar, á bílastæði við skrifstofubyggingu. Hann hafði verið kynferðislega misnotaður með óþekktum hlut og kyrktur. Ljóst var að hann hafði verið bundinn á höndum og fótum, líkt og honum hefði verið haldið föngnum.

Svo var það Jill Robinson, tólf ára, sem yfirgaf heimili sitt í Royal Oak þann 22. desember árið 1976 í kjölfar rifrildis við móður sína um kvöldmatinn. Næsta dag fannst hjólið hennar fyrir aftan föndurverslun og þann 26. desember fannst lík hennar við lögreglustöð í bænum Troy. Hún hafði verið skotin í andlitið.

Öll fórnarlömbin áttu það sameiginlegt að finnast kappklædd í fötunum sem þau hurfu í og á stað sem líkin sæjust. Það er líkt og „Barnapían“ vildi að líkin myndu finnast fljótlega eftir að hann losaði sig við þau.

Sorgin yfirbugaði móðurina

Það má segja að mál Tim litla hafi vakið mesta athygli þar sem Marion og Barry King notuðu fjölmiðla mikið til að koma skilaboðum til „Barnapíunnar“. Marion skrifaði til að mynda lesendabréf til Tim og kvalara hans og lofaði Tim að hann fengi uppáhalds matinn sinn ef hann kæmi aftur heim; Kentucky Fried Chicken-máltíð, sem í dag kallast KFC. Krufning líksins leiddi síðar í ljós að síðasta máltíð drengsins, áður en hann var kyrktur, var einmitt frá Kentucky Fried Chicken. Hrollvekjandi atriði sem vakti óhug allra.

Marion, móðir Tim, náði sér aldrei og lést fyrir nokkru síðan. Barry hefur ekki gefist upp í leitinni að morðingja sonar síns. Barry hefur sinn rétt þar sem hann er fórnarlamb eins mesta harmleiks í sögu Oakland-sýslu. Hann hefur því þrýst á saksóknarann Jessicu Cooper að veita sér upplýsingar um rannsókn málsins og sönnunargögn, en allt án árangurs.

„Ég vil bara vita af hverju enginn vill tala við mig og af hverju Jessica Cooper hefur logið að mér og að dómstólum,“ sagði Barry í fyrrnendu viðtali við Hometown Life. Þá er hann fullviss um að syni hans hafi verið rænt og komið fyrir í hring barnaníðinga, net sem Barry segir teygja sig til ýmissa borga í Oakland-sýslu. Barry hefur höfðað mál, skrifað blogg og ýjað að samsæriskenningum um að hylmt hafi verið yfir „Barnapíunni“ vegna þess að valdamiklir menn séu flæktir í þennan hring barnaníðinga.

Barry gagnrýnir hópinn sem var skipaður til að finna morðingjann á sínum tíma, rétt eftir andlát Kristine Mihelich. Lögreglan í Michigan leiddi hópinn sem var skipaður lögreglumönnum úr þrettán lögregluumdæmum og var eina verkefni hópsins að finna morðingjann. Almenningur var vel upplýstur um að raðmorðingi gengi laus í Oakland-sýslu, í þeirri von að einhver myndi sjá eitthvað sem yrði til þess að morðinginn næðist.

Ýmsir grunaðir

Eftir að Tim litli hvarf gaf kona sig fram og sagðist hafa séð dreng með hjólabretti tala við mann á bílastæði apóteksins sem Tim ætlaði í. Maðurinn var á blárri bifreið af gerðinni AMC Gremlin. Teikning af manninum var útbúin og allir eigendur Gremlin-bifreiða yfirheyrðir í Oakland-sýslu. Rannsóknarteymið útbjó síðan lýsingu, svokallaðan prófíl, af morðingjanum. Honum var lýst sem hvítum karlmanni á aldrinum 25 til 35 ára, dökkur á hörund, með úfið hár og barta. Hann var sagður vera í starfi sem gæfi honum mikið ferðafrelsi og sem læti hann líta út fyrir að vera traustsins verður í augum barna. Þá var talið að hann þekkti svæðið vel og gæti haldið börnum föngum í langan tíma án þess að nágranna grunaði neitt.

Hér er teikning af manni sem gæti verið morðinginn.

Rannsóknarteymið skoðaði hátt í tuttugu þúsund ábendingar varðandi morðin fjögur, handtók um tíu manns vegna annarra saka og kom upp um skipulagðan barnaklámshring sem var starfræktur í nánd við Lake Michigan og teygði sig til ýmissa fylkja Bandaríkjanna. Teymið náði hins vegar ekki þeim sem bar ábyrgð á dauða barnanna fjögurra og var teymið leyst upp í desember árið 1978 og málið sett á herðar lögreglunnar í Oakland-sýslu.

Það voru hins vegar ýmsir grunaðir um þessi hrottalegu morð. Til dæmis fékk geðlæknir rannsóknarteymisins sent bréf nokkrum vikum eftir dauða Tim litla, frá manni sem kallaði sig „Allen“. Bréfið var uppfullt af stafsetnngarvillum, en Allen þessi lýsti sér sem sadómasókista þræl manns sem hann kallaði „Frank“. Allen hélt því fram að þeir Frank hefðu verið í sömu herdeild í Víetnamstríðinu og að það hefði reynst Frank þungbært að drepa bötn. Því hefði hann hefnt sín á börnum í grenndinni svo ríka fólkið gæti þjást fyrir syndirnar í Víetnam. Allen sagðist hafa farið með Frank er hann leitaði sér að börnum til að drepa og sagðist sjá mikið eftir því. Allen sagði geðlækninum að láta birta dulmál í næsta sunnudagsblaði til að hafa samband við sig. Geðlæknirinn mælti sér mót við Allen á bar en Allen mætti ekki. Það heyrðist ekki meira í honum eftir það.

Rannsóknarteymið skoðaði einnig dæmda barnaníðinginn Archibald Edward Sloan eftir að hár í bifreið hans passaði við hárið sem fannst á líkum Timothy King og Mark Stebbins. Hárið var ekki úr Sloan en eitt vitni hélt því fram að tveir menn hefðu rænt Tim litla. Var það haldið að annar mannanna væri John Wayne Gacy en erfðaefni hans passaði ekki við erfðaefnið sem fannst á líkum fórnarlambanna fjögurra.

Archibald Edward Sloan.

Árið 2007 var Ted Lamborgine meðal grunaðra í „Barnapíu“-morðunum en hann var flæktur í barnaklámshring á áttunda áratug síðustu aldar. Það var hins vegar ekki hægt að sanna að hann bæri ábyrgð á dauða barnanna fjögurra. Fjölskylda Mark Stebbins fór í mál við Lamborgine í október árið 2007 og taldi að Lamborgine hefði rænt drengnum og haldið honum á heimli sínu í fjóra daga í febrúar árið 1976. Engar sannanir hafa tengt Lamborgine við morðið á drengnum, né hinum fórnarlömbunum þremur.

Undarlegt sjálfsmorð

Eitt af því sem Barry, faðir Tim litla, hefur staðfastlega haldið fram er aðild Chris Busch að morðunum. Busch var sonur Harold Lee Busch, háttsetts manns hjá bílarisanum General Motors.

Chris Busch.

Barry þrýsti á yfirvöld í Michigan að afhenda honum allar upplýsingar um rannsókn lögreglu á Busch vegna dauða barnanna fjögurra. Loks fékk hann rúmlega þrjú þúsund skjöl um rannsóknina á Busch. Busch hafði verið í gæsluvarðhaldi stuttu áður en Tim var rænt, en Busch var grunaður um að tengjast barnaklámshring. Busch á að hafa framið sjálfsmorð í nóvember 1978, en engar púðurleifar fundust á líkinu. Þá voru engar blóðslettur nálægt honum. Hann fannst á heimili sínu, þar sem búið var að búa vel um hann í rúmi sínu. Fjögur skothylki fundust í herbergi hans en hann hafði aðeins verið skotinn einu sinni á milli augnanna. Á vegg heima hjá honum fannst teiknuð mynd af dreng sem líktist mjög Mark Stebbins. Á myndinni mátti sjá drenginn öskra af kvölum.

Það dró til tíðinda þegar að maður steig fram árið 2005 undir dulnefninu Jeff Gannon. Í yfirheyrslum lögreglunnar í Oakland-sýslu árið 2010 rifjaði Gannon upp samskipti sín við kunningja sinn árð 1977. Gannon sagðist hafa sýnt þessum kunningja byggingar þar sem athafnir djöfladýrkenda fóru fram. Gannon fór einnig yfir smáatriði sem komu fram í fyrrnefndu bréfi „Allen“ til geðlæknisins og fór fram á að fá að sjá bréfið til að staðfesta grun sinn um kunningjann. Þeirri beiðni var neitað.

Gannon hefur hins vegar spilað lykilhlutverk í þessu dularfullu máli síðustu ár. Seinna árið 2010 afhenti hann lögreglunni í Oakland-sýslu og saksóknaranum Jessica Cooper sönnunargögn er vörðuðu málið. Gannon sagðist hafa reynt að afhenda Cooper gögnin áður en að hún hafi ekki sýnt því áhuga.

Í framhaldinu var Gannon í stöðugu sambandi við Deborah Jarvis, móður Kristine Mihelich, og rannsóknarblaðamennina Bill Proctor og Heather Catallo. Gannon sagðist hafa verið meðal rannsóknarlögreglumanna sem rannsökuðu málið og sagðist geta borið kennsl á morðingjann. Hann sagðist hafa eytt tíu þúsund klukkustundum í að rannsaka málið en var hikandi við að veita lögreglunni vitneskju sína því hann taldi lögregluyfirvöld í Oakland-sýslu ekki hæf til að rannsaka málið. Í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlafólki efaðist Gannon einnig um hæfi saksóknarans Jessicu Cooper.

Reyndi að hagnast á harmleiknum

Að sögn Paul Hughes, lögmanni Deboruh Jarvis, hafði Gannon komist að því hver morðinginn væri. Hughes sagði einnig að Gannon myndi ekki ljóstra upp um morðingjann nema yfirvöld gæfu honum aðgang að upplýsingum sem myndu endanlega staðfesta grun hans.

Jessica Cooper.

Gannon fór yfir uppgötvanir sínar með hóp af blaðamönnum í Detroit árið 2012. Þá sagði Gannon að morðingjarnir væru fleiri en einn og sagði morðin tengjast fórnum að heiðnum sið. Gannon sagði enn fremur að fórnarlömbin vera á bilinu ellefu til sextán, ekki fjögur.

Hughes fór í mál við lögregluna í Oakland-sýslu með þessar upplýsingar í veskinu og heimtaði að Cooper segði af sér embætti saksóknara. Hann hélt því fram að morðin tengdust samsæri og yfirvöld hefðu hylmt yfir morðingjanum, nú eða morðingjunum. Á vefsíðu Hughes var hægt að styðja málstaðinn. Málinu var vísað frá í mars árið 2012 og telja fjölskyldur fórnarlambanna að bæði Gannon og Hughes væru að reyna að hagnast á harmleiknum.

Mörgum spurningum ósvarað

Þó mikið hafi verið skrafað og skrifað um vanhæfni Cooper og ýjað að samsæri yfirvalda í tengslum við morðin fjögur, er staðreyndin sú að þessi fjögur morðmál eru óupplýst. Cooper hefur lítið sem ekkert tjáð sig um málið en Paul Walton, aðstoðarsaksóknari, segir alla sem að málunum koma reyna að upplýsa þau. Í viðtali við Hometown Living sagðist Walton skilja sorg Barry King en ómögulega geta staðhæft hver morðinginn væri.

„Of mörgum spurningum hefur einfaldlega ekki verið hægt að svara.“