„Það er vissulega smá aðskilnaðarkvíði sem fylgir því að segja þessari framkvæmd lokinni en við sláum á hann með þeirri næstu,“ segir Bryndís Eva Ásmundsdóttir. Hún og eiginmaður hennar, Sigurður Eggertsson, luku nýverið við að umbreyta „þreyttum bílskúr“, eins og hún orðar það sjálf, yfir í afar smekklega íbúð. Verkið hófst í ársbyrjun 2020 og kostaði um tvær milljónir allt í allt.

Zen í málningarvinnu

Bryndís Eva.

„Við maðurinn minn keyptum okkur einbýlishús með bílskúr árið 2019 og erum búin að vera að taka það í gegn síðan. Við eigum fjöldan allan af börnum á öllum aldri og ákváðum strax að nýta bílskúrinn sem íbúðarrými, enda erum við lítið bílskúrsfólk og okkur fannst það eitthvað yndisleg tilhugsun að geta boðið börnunum okkar upp á að hefja búskap sinn svona í bakgarðinum, eitt af öðru þegar fram líða stundir. Bílskúrinn var ágætlega stór, eða tæpir 40 fermetrar, en frekar langur og mjór svo það var smá áskorun að nýta plássið sem best,“ segir Bryndís um ástæður þess að þau hjónin ákváðu að breyta bílskúrnum í íbúð. Mitt í heimsfaraldri COVID-19 var verkefnið ákveðin hugarró, jafnvel útrás, fyrir Bryndís.

„Við byrjuðum verkið í janúar 2020 og það tók svona um það bil árið að fullklára, mjög fínt Covid-föndur. Við höfðum stefnt á að ljúka verkinu í lok sumars en enduðum á að dúllast við restina alla haustmánuðina. Fjölskyldan var farin að saka mig um að draga þetta viljandi á langinn og vera sjálf svo til flutt frá þeim og út í bílskúr,“ segir Bryndís og brosir. „Ég viðurkenni að það var töluvert zen í því að mála í rólegheitunum þar þegar húsið var stútfullt af innilokuðum afkvæmum. Það ættu allar mæður að eiga svona sumarbústað í garðinum sínum, ómetanlegt.“

Hér má sjá mynd úr bílskúrnum áður en honum var umbreytt.

Hálfgert tilraunaverkefni

Það má segja að Bryndís sé með handlagni í blóðinu en faðir hennar, Ásmundur Þór Kristinsson, er húsasmíðameistari.

„Við Tinna systir höfum alltaf verið í einhverju brasi með honum, svo þetta var okkur ekki algjörlega framandi verkefni. Við höfum líka mikinn áhuga á hönnun og höfum sérstaklega velt fyrir okkur litlum rýmum, eins og eru sífellt að verða algengari með þéttingu byggðar, og hvernig hægt sé að gera sem mest úr fáum fermetrum. Það er ótrúlega skemmtileg áskorun, að finna lausnir og spila sem best úr því sem maður hefur. Verkið þróaðist þess vegna smám saman frá því að gera bílskúrinn bara íbúðarhæfan í að verða hálfgert tilraunaverkefni í því, sem og langþráð útrás fyrir innanhússhönnunarmaníuna sem hefur blundað í mér síðan ég var barn. Með tímanum varð þessi bílskúr svo eiginlega fimmta barnið mitt, ég átti mjög erfitt með að stoppa hreinlega og segja verkinu lokið,“ segir Bryndís, stolt af verkinu.

Íbúðin er fullbúin og einstaklega smekklega hönnuð. Takið eftir gólfinu.

„Veit fólk að það er hægt að lakka ísskápa?!“

Hjónin reyndu að halda kostnaði í lágmarki sem þýddi auðvitað að mikið af vinnunni féll á herðar þeirra.

Skemmtileg litapalletta.

„Við reyndum að gera sem allra mest sjálf en fengum fagmenn í þungavigtarmálin, að múra og flísaleggja, pípulagnir og rafmagn. Iðnaðarmenn eru yfirleitt stærsti kostnaðarliðurinn í svona vinnu en við reyndum að stilla öllum öðrum kostnaði í hóf, nýta það sem til var,“ segir Bryndís sem fór bæði hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í sparnaði.

„Ég lakkaði til dæmis gamlan hvítan ísskáp sem við áttum svartan. Veit fólk að það er hægt að lakka ísskápa?! Annað keypti ég á útsölu. Við vorum til að mynda búin að þræða allar búðir sem seldu parketflísar þegar við fundum þessar stórskemmtilegu flísar í Húsasmiðjunni á tilboði og langódýrastar af öllum sem við höfðum skoðað. Múrarinn okkar, sem er algjör listamaður og gríðarlega vandvirkur, tók svo allri minni sérvisku af mikilli þolinmæði, litaflokkaði flísarnar og lagði svona á þvers og kruss eins og þið sjáið á myndunum þar sem mig langaði að lúkkið minnti á gömul gólfborð.“

Snoturt salerni.

Hjónin útbjuggu ekki kostnaðaráætlun við upphaf verks heldur reyndu að hafa það að leiðarljósi að gera allt sem ódýrast. Þar sem þau tóku sér góðan tíma í verkið dreifðist kostnaðurinn yfir heilt ár, en eins og áður segir var kostnaður við framkvæmdina í kringum tvær milljónir með efni og vinnu.

Engin bugun

En kom eitthvað sérstakt uppá á þessum tíma?

„Það kom ekkert sérstakt upp á þannig, við höfðum pabba á kantinum sem dreif verkið áfram og sagði okkur til og hann fann lausnir á öllu sem upp kom, enda verið að byggja hús síðan hann var sextán ára gamall. Það er gríðarlega dýrmætt að hafa einhvern fagmann innan handar, ég veit ekki hvort við hefðum lagt í þetta annars,“ segir Bryndís og bætir við að þeim hjónum hafi aldrei fallist hendur, einkum sökum þess hve langan tíma þau gáfu sér í verkið.

Spáð í öllum smáatriðum.

„Það hentaði okkur vel að taka svona góðan tíma í þetta, þannig forðast maður algjöra bugun. Þegar við vorum alveg komin með ógeð tókum við bara pásur, stundum gerðist ekkert vikum saman. Skemmtilegast var þegar grófa vinnan var búin og við gátum klárað okkur sjálf á því sem eftir var. Þá tók við að innrétta og mubla. Þar reyndum við að nýta sem mest af því sem við áttum og kaupa rest ódýrt, Ikea og Rúmfó aðallega. Bergdís Guðnadóttir, vinkona okkar, er mjög skemmtilegur ljósmyndari og við fengum að velja okkur myndir eftir hana til að hengja á veggina. Litirnir og fílingurinn í þeim réðu dálítið stemmingunni.“

Lærdómsríkt og gefandi

Bryndís mælir heilshugar með því að dýfa sér í svona framkvæmd.

„Þetta hefur verið einstaklega gaman og gefandi vinna, samstarfsverkefni fjölskyldunnar, þó ég hafi vissulega verið frekust,“ segir hún og glottir. „Það hefur verið mjög lærdómsríkt að taka gamlan og lúinn vinnuskúr og breyta honum í lítið fullbúið heimili, alveg eins og við viljum hafa það. Því fylgja einhverjir algjörir töfrar og ég mæli með því að fólk mikli svona ekki um of fyrir sér heldur láti bara vaða, ef aðstæður og efni leyfa. Það má þó reikna með því að svona framkvæmd, eins og þær flestar reyndar, verði alltaf á endanum aðeins dýrari en maður gerir ráð fyrir. Ég mæli svo með því að vanda valið á iðnaðarmönnum og reyna alls ekki að klóra sig sjálfur fram úr öllu, eins og klósettlögnum til að mynda. Það bítur mann bara í rassinn. Svo eru atriði eins og að vera búinn að skipuleggja sig vel og sjá rýmið og nýtinguna fyrir sér strax í upphafi, passa upp á staðsetningu á ljósum og innstungum til að mynda,og hafa nóg af þeim, og val á efnum í samræmi við aðstæður. Við hlóðum til dæmis alla milliveggi í stað þess að nota timbur til að forðast myglu.“

Svefnherbergið.

Þó Bryndís sé kannski ekki komin með framkvæmdabakteríuna á háu stigi þá halda þau hjónin samt ótrauð áfram í að gera einbýlishúsið sitt að draumaheimili fjölskyldunnar.

„Við erum þessa dagana að taka kjallarann okkar í gegn, svo það er alltaf eitthvað,“ segir Bryndís og brosir.