Bandaríska, einstæða móðirin Samantha Rawley komst að því að þáverandi kærasti hennar vildi ekki segja foreldrum sínum að þau væru að deita því honum fannst Rawley of feit. Þá tók hún ákvörðun um að breyta um lífsstíl og hefur til dagsins í dag lést um 90 kíló. Það var þó meira sem spilaði inn í þessa lífsstílsbreytingu því Rawley komst einnig að því að hún þyrfti að elska sig og virða áður en hún gæti elskað aðra.

Vildi byrja upp á nýtt

Rawley segir söguna sína í viðtali á vefmiðlinum Bored Panda. Hún var þyngst rúm 160 kíló og hafði reynt margt til að léttast. Ekkert tókst. Hún ákvað því að fara í magaermisaðgerð og deilir nú sinni vegferð á samfélagsmiðlum.

„Í uppvextinum langaði mig alltaf að vera innblástur fyrir fólk,“ segir Rawley. „Ég elska að tala við fólk um þyngdartapsaðgerðir og lýtaaðgerðir í kjölfarið og hjálpa fólki á sinni vegferð.“

Rawley er þrítug og á dóttur sem er ellefu ára gömul. Hún lýsir því af hverju hún ákvað að ráðast í lífsstílsbreytingu.

Rawley ásamt dóttur sinni.

„Ég fann fyrir innblástri því ég ákvað loksins að lifa fyrir mig og hætta að þóknast öðrum. Mér fannst ég komin að leiðarlokum og ég vildi byrja upp á nýtt.“

Rawley hefur eytt um tuttugu þúsund dollurum í aðgerðir, um tveimur og hálfum milljónum króna. Auk magaermisaðgerðar hefur hún látið laga magann, fara í brjóstaaðgerðir og losað lausa hús af handleggjum og lærum. Í dag er hún rúm sjötíu kíló.

„Það var allt þess virði til að hafa draumalíkamann!“

Andlega hliðin erfiðust

Nú eru tvö ár síðan Rawley fór í magaermisaðgerð og segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi meðal fjölskyldu og vina.

„Ég hef fengið jákvæð viðbrögð vegna þyngdatapsins og vegna ákvörðunarinnar að fara í aðgerðina. Ég er svo heppin að vera umkringd stuðningsríku fólki.“

Rawley segir að þessi lífsstílsbreyting hafi ekki alltaf verið dans á rósum.

„Andlega hliðin er erfiðust. Það koma dagar þar sem mér finnst ég enn vega 160 kíló og ég er ekki stolt af mér. En síðan koma dagar þar sem ég er svo örugg að mig langar að deila minni vegferð með heiminum,“ segir hún. „Ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég gat þetta. Ég var ekki viss um að ég gæti þetta, í hreinskilni sagt. Mér datt ekki í hug að ég gæti verið þessi manneskja. Vegna þess að ég breytti um hugarfar þá hef ég kynnst æðislegu fólki sem gerir mig hamingjusama.“

Óöryggið lætur á sér kræla

Þá berst talið að fyrrverandi kærastanum sem vildi ekki kynna Rawley fyrir foreldrum sínum því honum fannst hún of feit.

„Þetta snýst ekki allt um hann og hann er ekki ástæðan fyrir því að ég fór í aðgerðina. Þegar ég losnaði úr þessu sambandi gat ég loksins einblínt á sjálfa mig. Hann hélt mér leyndri en það höfðu aðrir strákar sem ég deitaði gert líka. Sumum gaurum líkar bara við þig í einrúmi þegar þú ert stór stelpa. Það getur virkilega ruglað í sjálfstraustinu. Ég deitaði þennan strák í tvö ár og hitti aldrei vini hans eða fjölskyldu. Við byrjuðum að vaxa í sundur. Hann hundsaði mig og birti mynd af annarri stelpu á samfélagsmiðlum nokkrum vikum síðar. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem þetta hefur gerst fyrir mig. Þetta hefur áhrif á hvernig ég lít á stefnumótaheiminn í dag. Ég er hamingjusöm í sambandi en þetta óöryggi úr fortíðinni lætur stundum á sér kræla í núverandi samböndum, sem er eitthvað sem ég verð að vinna í næstum því á hverjum degi.“

Rawley veitir góð ráð til þeirra sem vilja breyta um lífsstíl.

„Elskaðu sjálfa/n þig sama hvað og elskaðu sjálfa/n þig á þessari vegferð!“