„Á meðan meginmarkmið Volume er að virkja íslenskt tónlistarlíf og skapa umhverfi fyrir upprennandi tónlistarfólk innan danstónlistarsenunnar, þá er þetta einnig góð landkynning því öll myndböndin eru frá einstökum og fallegum stöðum um land allt,“ segir Hildur Rut Hermannsdóttir, einn af eigendum viðburðarstýringarfyrirtækisins Volume, sem er frekar nýtt af nálinni.

Stefna Volume er að gefa efnilegu tónlistarfólki tækifæri á að koma fram og spila tónlist sína. Volume sérhæfir sig í að taka upp hljóð og mynd og skapa þannig sýnileika fyrir fólk hvar sem er í heiminum. Viðburðir eru teknir upp og streymt í gegnum netið, og því geta hæfileikar tónlistarfólksins ferðast vítt og breytt um heiminn með nútímatækni. Ásjón Volume í dag er hins vegar frábrugðin upprunalegu hugmyndinni að fyrirtækinu, og setti þar heimsfaraldur COVID-19 strik í reikninginn.

„Hugmyndin kviknaði fyrst hjá einum af eigendum Volume árið 2014, þegar að Sammi fór í hljóðnám til Amsterdam þar sem að markmiðið var að efla þekkingu sína á tónlistarsmíði og danstónlistariðnaðinum. Nokkrum árum síðar kynnist hann Tómasi Núma, sem var þá í heimsókn í Amsterdam að kynna sér tónlistarhátíðir og raftónlistarbransann þar. Í þeirri ferð voru fyrstu drögin að verkefninu teknuð, þar sem þeir sameinuðu ástríðu sína á danstónlist,“ segir Hildur. Hún kom inn í verkefnið árið 2019, en hún er sjálf búin að starfa við tónlistar- og viðburðarstarfsemi víðs vegar um Evrópu um árabil. Þegar þríeykið var sameinað; Hildur, Sammi og Tómas Númi, var ekki aftur snúið.

„Mjög fljótt eftir það var unnið hart að því að byggja upp konseptið sem fékk nafnið Volume,“ segir Hildur. En síðan kom skellurinn – og enginn smá skellur. Heimsfaraldur.

Íshellir, Grand hótel og Lava Tunnel

„Í fyrstu einblíndum við á viðburðastarfsemi, þar sem það hefur sárvantað almennilega danstónlistarmenningu í íslenskt samfélag í mörg ár. En stuttu síðar skall COVID á heiminn og allir viðburðir lagðir niður, og engin von um að halda nein kvöld eða skemmtanir. Þar sem að aðalmarkmið Volume er að efla þessa menningu á klakanum, þá færðist öll starfsemi yfir í streymisupptökur af íslenskum plötusnúðum í skemmtilegu umhverfi. Þá var í raun kominn vettvangur fyrir tónlistarfólk til að sýna listir sínar þrátt fyrir að öllum stöðum hafi verið lokað og mikil óvissa í gangi með framhald senurnar,“ segir Hildur.

En var ekki erfitt fyrir nýstofnað fyrirtæki að aðlaga sig að gjörbreyttum aðstæðum?

„COVID var lán í óláni þar sem stefnubreyting á upprunalegri hugmynd átti sér stað og einblínt var á að taka upp viðburði í stað þess að halda þá með gestum. Þarna voru allir helstu staðir landsins lokaðir vegna fjöldatakmarkana og skapaðist þannig tækifæri að halda viðburði með engum gestum og taka þá upp á ýmsum skemmtiegum stöðum sem annars hefði ekki verið hægt, til dæmis í íshellinum í Perlunni, í fundaherbergi á efstu hæð á Grand Hótel, í Lava Tunnel og fleiri góðum stöðum,“ segir Hildur og brosir – lítur ávallt á björtu hliðarnar.

„Danstónlistin hér á landi hefur ekki fengið að skína jafn bjart og í nágrannalöndum okkar og ríkir ágætis skortur á þekkingu meðal fólks á þessara tónlistarsenu hér á landi. Einnig er þetta góð leið til að halda fjöldasamkomum í lágmarki og virkja minni hópa til að skemmta sér saman með Volume í beinni.“

Mikill lærdómur

Það má segja að þríeykið á bak við Volume, þau Sammi, Hildur og Tómas Númi virki vel saman. Tómas Númi og Hildur hafa þekkst síðan á yngri árum og unnið náið saman að ýmsum verkefnum, svo sem á stærstu tónlistarhátíð landsins, Secret Solstice. Hildur kynntist Samma árið 2017 og þeir Tómas Númi hittust fyrst ári síðar. Sammi er nú framkvæmdastjóri Volume, en hann er með BA gráðu í „Audio engineering“ frá SAE Institute í Amsterdam, á hluti í plötufyrirtækinu Minitech Recordings og semur einnig sína eigin tónliswt. Hildur er rekstrarstjóri Volume en hún er með BSC gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og mikla reynslu við uppsetningu á viðburðum hérlendis, sem og erlendis. Tómas Númi er tæknistjóri Volume, en hann hefur unnið við uppsetningu á ýmsum viðburðum hérlendis.

„Við erum metnaðarfullir einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn og ástríðu fyrir tónlist,“ segir Hildur.

Það hefur að sjálfsögðu ekki gengið þrautalaust fyrir sig að stofna fyrirtæki í þessu árferði en Hildur er handviss um að þríeykið verði sterkari eftir þessa lífsreynslu.

„Það sem hefur verið sérstaklega skemmtilegt er hvað fólk tekur vel í þetta verkefni og vilji er fyrir hendi að veita Volume leyfi til að koma og setja upp viðburð og taka upp. En margt hefur gengið á þennan tíma, þar sem meðlimir Volume hafa lært mikið um tæknilegu hliðina í uppsetningu búnaðar og myndvinnslu,“ segir Hildur og rifjar upp eftirminnilegt atvik.

„Eitt af lærdómsríkum atvikum var þegar fyrstu streymin voru sett í gang að þá gleymdist eitt sinn að slökkva á míkrafóni og skvaldur heyrðist í Samma og Tomma fyrstu 10 mínúturnar af settinu. En maður lærir af öllu, hvort sem það er að setja upp streymi inni í 15 gráðu frosti í íshelli og halda upptökum gangandi eða príla með búnað lengst inn í þröngan helli Lava Tunnel við erfiðar aðstæður.“

Volume á uppleið

Næsti viðburður Volume verður á sumarhátíð Secret Solstice á Dillon næstkomandi laugardag, þann 18. júlí frá 16 til 23. Þar koma fram sjö íslenskir plötusnúðar sem sjá um að spila góða tóna fyrir gesti. En hvernig lítur framtíð Volume út?

„Framtíðin er heldur betur björt og Volume er á uppleið. Markmiðið er að ná meiri sýnileika hérlendis sem og erlendis og þannig hampa þessari tónlistarstefnu. Þegar sýnileikanum er náð er hægt að mynda samstarf með fleiri fyrirtækjum og halda viðburði þar sem tónlistarfólk kemur fram og efla þar með danstónlistarmenninguna á Íslandi, svo að standardinn sé sá sami og úti í heimi. Framtíðarsýnin er að halda áfram að halda viðburði og taka upp skemmtileg tónlistarmyndbönd af plötusnúðum hérna á Íslandi og seinna meir færa sig út fyrir landsteinana.“