Mér hefur aldrei fundist jafn erfitt að skrifa dóm um mynd eins og mér finnst það hrikalega mikið vandaverk að skrifa dóm um Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Eurovision-myndina svokölluðu sem flestir Íslendingar ættu að kannast við. Myndin var tekin upp að hluta á Íslandi, fjallar um Íslendinga og skartar mörgum af okkar bestu leikurum og leikkonum.

Myndin kom inn á Netflix í síðustu viku og á daglegum rúnti mínum um samfélagsmiðla virðast ansi margir Íslendingar hafa horft á myndina um leið og tækifæri gafst. Eins og gengur og gerist eru skiptar skoðanir um hana, en gagnrýnendur hafa gjörsamlega rifið hana í sig. Hafa sagt myndina bitlausa og að þetta sé ein af verstu frammistöðum aðalleikarans og handritshöfundarins Will Ferrell.

Eurovision-fóður

Það eru tvær ástæður fyrir því að það hefur reynst mér ofboðslega erfitt að skrifa dóm um þessa mynd. Sú fyrsta er sú einfalda staðreynd að ég er Íslendingur og sjálfkrafa snertir myndin alla föðurlandsástarstrengina. Svo er það ást mín á Eurovision sem hefur villt mér sýn en ég gjörsamlega dýrka Eurovision, fylgist með öllum mögulegum og ómögulegum undankeppnum og uppákomum og hef saumað mér grímubúning og mætt á aðalkeppni Eurovision. Mynd Will Ferrell fóðrar Eurovision-perrann í mér í ár þegar engin Eurovision-keppni er.

Hvorki fugl né fiskur

Hins vegar finnst mér vera einn mjög stór galli á þessari mynd. Hún gengur ekki nógu langt í neinu. Hún nær því ekki að vera háðsádeila á Eurovision-keppnina en nær heldur ekki að lofsyngja hana. Myndin er hálft í hvoru, allt í bland. Það er hennar helsti veikleiki. Hún er ekkert, samt allt. Hún er bitlaus og tilgangslaus, samt merkilega mikið með puttann á Eurovision-púlsinum, enda Ferrell kvæntur inn í sænska fjölskyldu og þar af leiðandi mikill Eurovision-maður.

Leikarinn Dan Stevens ber af í aðalleikarahópnum sem Rússinn Alexander Lemtov, skýr vísan í hinn rússneska Sergey Lazarev, einn af mínum uppáhalds listamönnum í Eurovision fyrr og síðar. Stevens er gjörsamlega frábær í öllu sínu og nákvæmlega eins og ég ímynda mér að fyrirmyndin sé í raun og veru. Ekki skemmir fyrir að Eurovision-lagið hans í myndinni, Lion of Love, er svo mikil negla að það er synd að það fá aldrei að heyrast á stóra Eurovision-sviðinu. Raunar eru mörg lög í myndinni listilega vel samin fyrir Eurovision og greinilegt að löng og ströng heimildarvinna fór í þau.

Ég hef verið með stelpuskot (e. girl crush) í Rachel McAdams síðan hún lék í Notebook hér um árið og hún veldur ekki vonbrigðum sem hin brjálæðislega sjarmerandi söngkona Sigrit Ericksdottir sem býr á Húsavík og talar við álfa. Hún nær líka að láta mig halda að hún sé sjálf að syngja í myndinni, sem er ansi mikið afrek.

Frammistaða Ferrell er hins vegar mikil vonbrigði. Allt í einu er hann orðinn gamall og þreyttur, útjaskaður gamanleikari sem getur ekki með neinni sannfæringu farið með sömu brandarana í hundraðsta sinn. Hafði samt ekki ímyndunarafl í að búa til nokkra nýja. Hann hefði betur skrifað myndina og leyft einhverjum öðrum að leika hinn seinheppna Lars Erickssong.

Hvernig gerir hann þetta?

Svo verð ég að minnast sérstaklega á Pierce Brosnan sem leikur föður Lars. Brosnan er einhvers konar furðuverk, gæddur þeim eftirsótta hæfileika að geta verið svo hallærislegur að manni verkjar í góminn en samt komist upp með það og verið sjarmerandi. Í þessari mynd talar hann íslensku og síðan ensku með því sem á að vera íslenskur hreimur. Hann gerir það hræðilega illa, jafnvel verr en hann söng í Mamma Mia! en samt…SAMT er hann geggjaður! Hvernig fer hann að þessu?!

Eurovision-glaðningur

Í myndinni eru alls kyns aukahlutverk. Fyndnasta aukahlutverkið fannst mér þegar að portúglaski Eurovision-sigurvegarinn Salvador Sobral birtist við píanóið á fjölförnu torgi og söng Eurovision-lagið sitt Amar Pelos Dois. Sami maður og fagnaði sigrinum í Eurovision árið 2017 með því að dissa fjöldaframleidda popptónlist og í raun marga keppendur í Eurovision. Leikur nú í „main stream“ Hollywood-mynd. Skýrari dæmi um kaldhæðni örlaganna finnst varla.

Besta atriði í myndinni var „cameo“ súpan þegar að fjölmargir fyrrum Eurovision-keppendur sungu hópsögn í partí fyrrnefnda Rússans Lemtov. Við erum að tala um meðal annars hina sænsku Loreen, Svíann John Lundvik, Bilal Hassani frá Frakklandi, Alexander Rybak á fiðlunni, hin dramatíska Jamala, Netta og Conchita Wurst sem vann fyrir Austurríki árið 2014. Algjörlega truflað atriði fyrir Eurovision-nördann, en hugsanlega gerir það ekki eins mikið fyrir þá sem kveikja ekki á Eurovision-stjörnunum.

Íslensku listamennirnir í myndinni standa sig með prýði en enginn stelur senunni meira en hinn reiði Olaf Yohansson sem leikinn er af Hannesi Óla Ágústssyni. Héðan í frá vil ég Hannes Óla í öllum íslenskum gamanmyndum, Áramótaskaupinu, spjallþáttum, bara öllu!

Niðurstaða

Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er áhorfsins virði, þó hún sé hvorki fugl né fiskur. Þó hún skarti sömu bröndurum og við höfum heyrt í að minnsta kosti áratug. Þó að Íslendingar séu sýndir sem sveitalubbar sem tala við álfa og drekka sig fulla á hverju kvöldi. Því þegar á öllu er á botninn hvolft veitir hún gleði, ósvikna Eurovision-gleði á tímum þar sem keppnin sem við hefðum unnið var ekki haldin. Það var enginn í heiminum að biðja um þessa mynd en samt er hún kærkomin gjöf til Íslendinga í miðjum heimsfaraldri.