„Þessi sýning er um að viðhalda minningum af ýmsum atburðum, samböndum og tilfinningum sem ég hef upplifað í gegnum seinasta árið, sumt slæmt, annað gott en gott að muna eftir báðu til að læra af eða gleðjast yfir,“ segir listamaðurinn Einar Logi Guðmundsson.

Einar Logi opnar sýninguna Í minningu af í Núllið gallerí föstudaginn 6. október næstkomandi. Tæpt ár er síðan Einar Logi hélt sína fyrstu sýningu, Eitthvað til að byrja með, í Gallerí Gröf.

„Listaverkin mín eru tilfinningabundin og abstrakt. Ég nota penslastrokur og liti til að koma því sem ég er að upplifa á hverjum tíma á framfæri á mínu eigin, listræna tungumáli,“ segir Einar Logi.

Einar Logi sýnir þrettán verk á sýningunni í minningu fyrirbæra eins og ástarinnar, þunglyndi, ofbeldis, maníunnar og einmanaleikans.

Ein af myndunum á sýningunni.

„Öll málverkin á þessari sýningu hafa djúpa meiningu fyrir mér,“ segir Einar Logi og lýsir verkinu Í minningu af maníu á þennan hátt: „Það hafa verið nokkur skipti í mínu lífi þar sem ég hef algjörlega enga stjórn yfir tilfinningum mínum og þetta ár var engin undantekning. Ég var grátandi, öskrandi og hlæjandi á meðan ég málaði þessa mynd og var meira að segja tæpur á að eyðileggja hana í reiðiskasti. Hörður, vinur minn náði rétt svo að stoppa mig. Ef þetta listaverk væri púsluspil þá væri það langt því frá að vera leyst eða klárað.“

Svo er það myndin Í minningu af trausti sem er ekki síður þýðingarmikil fyrir listamanninn.

„Ég á erfitt með að treysta og hleypa fólki djúpt inní líf mitt. Það eru nokkrir sem ég treysti með lífi mínu, það er ekki alltaf létt og endist ekki alltaf. Eins vitlaust og það er þá leið mér allt árið eins og ég ætti bara einn vini sem gat og vildi hitta mig, tala við mig og bara almment hjálpa mér. Þessi mynd er tileinkuð tilfinningunni sem ég fékk fá þessari einu manneskju sem lét mér líða eins og hún vildi gefa mér allt sem ég á skilið.“

Einar Logi gerir upp árið í verkunum.

Sýning Í minningu af opnar í Núllið gallerí að Bankastræti 0 í miðbæ Reykjavíkur föstudaginn 6. október kl. 17 og stendur fram á sunnudaginn 8. október.