Listamaðurinn Einar Logi Guðmundsson opnar sína fyrstu listasýningu föstudaginn 7. október í Gallerí Gröf að Ingólfsstræti 6 í Reykjavík. Sýningin ber heitið Eitthvað til að byrja með og vísar í fyrstu skref listamannsins á sinni vegferð inn í listaheiminn á Íslandi.

„Heiti sýningarinnar má lesa frekar bókstaflega. Þetta er ég að byrja minn listaferil í rauninni,“ segir Einar Logi. Á sýningunni verða abstrakt akrýlverk en í gegnum sýninguna fá gestir að sjá og upplifa hvernig stíll Einars Loga hefur þróast á tiltölulega stuttum tíma.

„Ég byrjaði að mála fyrir stuttu síðan og varð strax ástfanginn af þessu listformi. Ég málaði á hverjum degi og eftir tvær til þrjár vikur gerði ég fyrsti myndina sem ég var stoltur af. Ég fylltist svo mikilli ástríðu strax og ákvað samstundis að halda listasýningu,“ segir Einar Logi um tilurð sýningarinnar Eitthvað til að byrja með.

Á faraldsfæti með pabba

Þó þetta sé hans fyrsta málverkasýning hefur Einar Logi prufað sig áfram í alls konar listformum, til dæmis veggjalist, ljósmyndun og húðflúr.

„Ég mun aldrei hætt að kanna önnur listform en hjarta mitt liggur akkúrat núna í málaralistinni. Með sýningunni er ég að taka eitt skref lengra í áttina að því að verða listamaður og lifa af listinni.“

En hvaðan fær Einar Logi sinn innblástur?

„Ég sæki mikinn innblástur í götulistamanninn Rime frá New York sem sneri sér að málaralist. Bæði stíllinn hans og persóna veitir mér innblástur. Ég sæki líka mikinn innblástur í fólkið í kringum mig og ég er einnig mjög þakklátur föður mínum sem ferðaðist með mig um allan heim á yngri árum. Það hafði mikil áhrif á mig og víkkaði sjóndeildarhringinn.“

Sýningin Eitthvað til að byrja með verður opin frá föstudeginum 7. október til sunnudagsins 9. október frá klukkan 17 til 24. Þeir sem vilja fylgjast með Einari Loga á samfélagsmiðlum er bent á Instagram-síðuna Lúlli málari.