Mig langar að opna á söguna mína hér í rituðu máli, með það markið að vonandi ná til fólk sem er fast í þessu helvíti og að það sjái leið út úr ástandinu. Börn alkóhólista hata ekki foreldrana sína, heldur ástandið sem þau eru í.

Flestir sem ég hef talað við eru sammála um að þessi börn þrá mest að fá viðurkenningu á að þetta gerðist og að þetta hafi ekki verið þeim að kenna. Ég hef opnað á þetta áður, að vera barn alkóhólista, og þrái svo innilega að reynslan mín geti hjálpað öðrum.

Ég hef ætíð velt fyrir mér spurningunni: Er alkóhólismi sjúkdómur? Þótt foreldrar mínir, og síðan bræður, hafi orðið sjúkir af alkóhóli og eiturlyfjum þá held ég að ef þau hefðu fengið aðstoð vegna andlegra veikinda eða þunglyndis að þá væru þau lifandi í dag. Báðir foreldrar mínir hafa fallið í baráttunni og líka yngri bróðir minn, sem væri 40 ára í dag ef hann væri á lífi, en hann lést aðeins 29 ára gamall.

Bróðir minn, Snorri Valur, og Alf. Snorri Valur lést aðeins 29 ára gamall.

Ein minning sem situr fast í mér úr uppvextinum eru slagsmál á heimilinu mínu, þar sem ég hélt á mömmu minni alblóðugri og pabbi var að berja á hurðina hjá mér. Síðan leið yfir mig en ég man að það kom eitthvað fólk heim og við strákarnir vorum settir inn í herbergi. Næsta dag var líkt og þetta hefði ekki gerst. Það var aldrei talað við okkur um þetta. Ég man bara að pabbi fór í meðferð og fékk AA pening fyrir að hafa verið edrú í nokkrar mínútur (það voru örugglega dagar eða vikur en mér leið eins og þetta væru aðeins í mínútum talið) og ég var svo reiður út í þennan AA pening. Af hverju var ekki talað við okkur um þetta ástand? Kannski var það reynt og við bræðurnir ekki meðtækilegir fyrir því. Ég vil samt taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir AA og Vogi og starfinu sem er unnið þar.

Pabbi Einar og ég.

Ég elskaði, og elska enn, foreldrana mína og á fullt af góðum minningum af þeim, en það tók langan tíma að muna og finna þessar minningar. Þegar að faðir minn lá á sjúkrabeði þegar ég var orðinn fullorðinn maður þurfti ég að taka þá ákvörðun að slökkva á öndunarvélinni hans, þar sem hann var of laskaður til að bjarga. Þá kyssti ég hann á ennið og sagðist fyrirgefa honum, að ég elskaði hann og að hann ætti að skila þessu til mömmu. Ég fann að ég meinti þetta og ég hrundi í gólfið og grét í fyrsta skiptið í langan tíma. Ég fann að reiðin í þeirra garð, sem ég hafði borið með mér nær alla ævi, hvarf. Tja, kannski ekki öll reiðin. Ég ólst upp á Ólafsvík og verð alltaf smá reiður. En að öllu gríni slepptu, þá fann ég þegar ég sleppti reiðinni og vondu minningunum að góðar minningar komu í þeirra stað og það var yndisleg tilfinning.

Mamma mín og ég.

Ég á samt erfitt með að fyrirgefa mömmu þar sem hún fyrirfór sér í neyslu, þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt. Hún gerði það fimm mánuðum áður en að sonur minn fæddist og það fannst mér svo ósanngjarnt af henni. Hún skrifaði mér bréf áður hún fyrirfór sér en ég hef aldrei opnað eða lesið þetta bréf.

Ég man eftir mér sem hressum sex ára strák sem bjó í Ólafsvík. Ég dýrkaði lífið og það var eitt ævintýri að alast upp í Ólafsvík. En ég man líka að foreldrar mínir voru stundum að missa tökin og við bræðurnir vorum oft settir í skrýtnar aðstæður. Fyrst um sinn var þetta ekkert alvarlegt en svo gerðist eitthvað. Ég man að mamma fór til Reykjavíkur á spítala og þegar hún kom til baka var hún aldrei sama manneskjan. Hún var sorgmædd og foreldrar mínir byrjuðu í kjölfarið að drekka mikið og illa. Ég veit ekki hvort þetta hafi byrjað þá eða hvort við bræðurnir tókum eftir þessu meira því eldri sem við urðum. Ég man að þegar þau urðu mjög drukkin þá talaði mamma um dótturina sem þau misstu, en ég man ekki eftir að pabbi talaði um tilfinningar, nema þegar hann viðraði hatur sitt á Liverpool og Megas. Ég man líka að við byrjuðum að flytja mikið á þessum tíma og við fluttum aftur upp á Akranes. Þegar við komum upp á Skaga fór allt í rugl og ég man að fjölskyldan fór að hætta að koma í heimsókn. Allir vinir mömmu og pabba hættu líka að koma. Ég átti eina frænku og ömmu mína og afa sem voru mínir klettar. Amma passaði mikið upp á mig og ég leitaði oft til hennar. Dagarnir hjá ömmu og afa voru alltaf alveg eins og á sunnudögum var plötuspilarinn tekinn fram og við hlustuðum á Gullna hliðið. Ég tel að ég hafi fengið mitt uppeldi þarna og þau voru að kenna mér muninn á réttu og röngu. Þau vissu meira en ég hélt. Sem barn alkóhólista segir maður ekki hvað gerist inn á heimilinu, maður skammast sín svo mikið.

Ég finn fyrir mikilli þörf að opna mig um mína sögu og þar af leiðandi málaflokk sem gleymist oft, týnist í kerfinu – börn alkóhólista. Ég ætla að nýta þennan vettvang hér á Fréttanetinu næstu vikur og mánuði til að fara betur yfir mína sögu, afleiðingar þess að alast upp í svona eitruðu umhverfi og af hverju þessi börn gleymast. Þau mega nefnilega ekki gleymast.